02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

43. mál, hraðbrautir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við spurningum á þskj. 44 og ég tel, að svörin séu fullnægjandi, eftir því sem efni standa til. Hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir því, hverjar framkvæmdir eru í undirbúningi. Það er að vísu ýmislegt, sem maður skilur ekki í þessu, eins og t.d. það, að byrjað skuli á frumáætlunum þeirra vega, sem síðast á að byggja, en það er náttúrlega ekki hæstv. ráðh., sem hefur lagt það fyrir. Það er gert einhvers staðar annars staðar og margt af þessu er náttúrlega mjög í lausu lofti miðað við verðlagsbreytingar og annað, sem skiljanlega hefur áhrif á þessar framkvæmdir, eins og aðrar framkvæmdir í landinu.

Ég hef ekki mikil tök á að ræða um einstakar vegaframkvæmdir í stuttum fsp.–tíma og mun ekki gera það. Þessar tölur og þessar upplýsingar var mjög fróðlegt að fá og þess vegna tel ég, að fsp. hafi átt fullan rétt á sér, þótt ekki væri af öðrum ástæðum en þeim.

Hæstv. ráðh. svaraði við d–lið fsp., að benzínskatturinn mundi standast og þungaskatturinn að mestu leyti. Hins vegar hefði litið svo út, þegar vegamálastjóri skrifaði bréfið, að gúmmígjaldið mundi ekki standast og það skil ég ákaflega vel, því að önnur eins sala í hjólbörðum hefur ekki átt sér stað í manna minnum á Íslandi og meðan verið var að ganga frá þessum vegalögum í vor. Það er kannske ekki von, að menn fari að vanta hjólbarða alveg strax. En það kom nú björgunin. Það kom gengislækkun í haust og þá ruddust menn aftur til að kaupa sér hjólbarða og kannske jafnast þetta smám saman út, og má þá segja, að fátt sé svo með öllu illt um þessa síðustu gengislækkun. En ég mun ekki gera það frekar að umræðuefni.

Ég tók eftir einu í svari hæstv. ráðh., sem ég raunar vissi, en mig langar til þess að gera það að umtalsefni með örfáum orðum, fyrst það hefur borizt í tal. Hæstv. ráðh. upplýsti, að við vegarkaflann frá Ártúnsbrekku að Bæjarhálsi væru Íslenzkir aðalverktakar að vinna við framkvæmdir. Í framhaldi af því minnist ég þess, að nýstofnað félag vinnuvélaeigenda mótmælti þessari samningsgerð mjög stíft, og þeir birtu mótmæli sín í Morgunblaðinu 1. okt. 1968. Þeir lögðu áherzlu á, að þessar framkvæmdir ætti ríkið að bjóða út á sama hátt og fjölmargar aðrar opinberar framkvæmdir eru boðnar út og eins og t.d. Reykjavíkurborg gerir í öllum tilfellum, þegar hún er að láta vinna við gatna– og holræsagerð, að svo miklu leyti, sem hún framkvæmir það ekki sjálf. Og ég verð að segja, að ég hef talsverða tilhneigingu til þess að taka undir þau rök, sem Félag vinnuvélaeigenda hefur sett fram um þetta mál. En ályktun þeirra er þannig, að því leyti, sem hún kemur fram í Morgunblaðinu, að þeir mótmæla samningsgerð, sem nýlega hefur átt sér stað milli vegamálastjóra og Íslenzkra aðalverktaka um byggingu um 850 m vegarkafla af fyrirhuguðum Vesturlandsvegi. Og forsendur þessara mótmæla eru þær, að Íslenzkir aðalverktakar séu að þeirra dómi ekki hlutgengir á innlendum vinnumarkaði, þar sem hlutverk þeirra og starfssvið sé bundið framkvæmdum fyrir varnarliðið á Íslandi. Fyrirtækið sé stofnað á sama hátt og Sameinaðir verktakar í beinu framhaldi af þeim og í samráði við ríkisstj. Íslands til að sjá um byggingarframkvæmdir fyrir varnarliðið á Íslandi og að þessu fyrirtæki séu þar með sköpuð föst verkefni og stöðugar tekjur. Á þeim forsendum, segja vinnuvélaeigendur, að Íslenzkir aðalverktakar vinni fyrir varnarliðið á þeirra afmörkuðum svæðum á landinu, hafi þeir flutt til landsins vinnuvélar án þess að greiða af þeim tilskilin gjöld, sem innlendum verktökum sé gert að greiða. Þar með sé samkeppnisaðstaða þeirra með sínar tollfrjálsu vélar algerlega ósambærileg aðstöðu innlendra verktaka.

Í framhaldi af þessu segir, að Félagi vinnuvélaeigenda hafi verið tjáð, að ástæðan til þess, að nú sé samið við Íslenzka aðalverktaka, sé sú, að fyrirtækið geti lánað fé til verksins. Félag vinnuvélaeigenda telur hins vegar, að Íslenzkum aðalverktökum hafi verið sköpuð sérstaða af hálfu ríkisvaldsins til verkefna og fjáröflunar og því sé alls óeðlilegt að veita því fyrirtæki í krafti fjármagns síns séraðstöðu til að bola almennum verktökum út af vinnumarkaði á vegum hins opinbera.

Ég les ekki meira upp úr þessari samþykkt, en ég vek athygli á henni í framhaldi af því, sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðh. um, að Íslenzkir aðalverktakar vinna þarna og vil ég segja það sem mína skoðun, að ég tel það óeðlilegt, að íslenzkum vinnuvélaeigendum hafi ekki verið gefinn a.m.k. kostur á að taka þátt í tilboði í þessa vegagerð. Og miðað við það atvinnuástand, sem nú er í landinu, held ég, að það sé lágmarkskrafa þeirra, sem lagt hafa eigur sínar í að kaupa dýr vinnutæki til þess að framkvæma þá hluti, sem hér hafa verið framkvæmdir á undanförnum árum, að aðrir aðilar með algerlega ósambærilega aðstöðu séu ekki látnir sitja fyrir þeim verkum, sem hæstv. ríkisstj., hvort sem það er á sviði vegamála eða annars staðar, hefur yfir að ráða.