24.10.1968
Sameinað þing: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

1. mál, fjárlög 1969

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Þau vandamál, sem íslenzka þjóðin á nú við að stríða og umr. manna snúast um, er ástandið í efnahagsmálum hennar. Það er hallarekstur ríkissjóðs, gjaldeyrisskortur, greiðsluerfiðleikar og hallarekstur atvinnuveganna og yfirvofandi atvinnuleysi, sem leggst á fólkið í landinu eins og mara. Engan þarf að undra þetta umræðuefni fólksins, og mikils kvíða gætir hjá þeim, sem þegar hefur verið sagt upp atvinnu sinni og eiga slíkt í vændum, og hjá atvinnurekandanum, sem dag hvern er í milli steins og sleggju um áframhaldandi rekstur síns fyrirtækis, hjá bóndanum, sem eftir áfallasamt sumar kemur að lokuðum viðskiptareikningi eftir aðalkauptíð, eins og því miður mun verða nú hjá flestum bændum, og hjá forráðamönnum margra byggðarlaga, sem eiga afkomu sína að verulegu leyti undir starfsemi fyrirtækja, sem eru á heljarþröm. Við getum hér á hv. Alþ. og víðar deilt um það, hverjum og hverju sé um að kenna, hvernig komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar, en við getum ekki deilt um það, að vandinn í þeim er mikill. Þjóðin verður að gera sér grein fyrir því, að verulegt átak og mikinn manndóm þarf til að leysa þann vanda, svo að hann skaði hana ekki. Það urðu þjóðinni mikil vonbrigði, er hún fékk í hendur frá ríkisstj. fjárlagafrv. fyrir árið 1969 og þar kom í ljós, að alveg var gengið fram hjá því að gera tilraun til að takast á við þessi vandamál, heldur er svo langt gengið í því að leiða hjá sér vandamálin, að lagt er til að fella niður á árinu 1969 framlag til Fiskveiðasjóðs, 30 millj. kr., og til Aflatryggingasjóðs, 11 millj. kr. Þó var sjávarútvegurinn talinn hafa þörf fyrir þessar fjárhæðir á góðu árunum undanfarandi og hafði það sannarlega, hvað þá nú. Í drögum, sem gerð voru að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1969 og fylgja fjárlagafrv., er gert ráð fyrir því, að framkvæmdafé ríkissjóðs lækki á næsta ári um 100 millj. kr. Ekki segir þetta þó allan sannleikann um það, hvað fjarlægt fjárlagafrv. er því að fást við vanda efnahagslífsins, því að það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess að bæta úr hallarekstri ríkisins sjálfs, þar sem tekjuáætlunin er botnlaus. Um hana segir svo í grg. fjárlagafrv., með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar er lítt gerlegt að gera sér raunhæfa grein fyrir horfum um tekjur ríkissjóðs á næsta ári, fyrr en ljósari mynd fæst af innflutningslíkum og valin hafa verið úrræði til lausnar á erfiðleikum útflutningsframleiðslunnar.“

Þessi tilvitnun í grg. fjárlagafrv. sannar, svo að ekki verður um deilt, að fjárlagafrv. er lagt fram aðeins til þess að fullnægja formi þingskapa, en hefur ekkert raunhæft gildi og allra sízt á þann hátt, er til er ætlazt, að vera virkur þátttakandi í að leysa efnahagsvandamálin. Enda kom það greinilega fram í viðtali, er sjónvarpið átti við hæstv. fjmrh. um fjárlagafrv., að hann hefur það viðhorf til þess, að það sé óraunhæft. þar sem ráðh. talar með fyrirvara um þetta og hitt, að þetta kynni að breytast. Hver er ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. leyfir sér að leggja fram fjárlagafrv., sem ekki hefur meira gildi en þetta, og það þegar þjóðin er í slíkum vanda stödd sem nú? Ástæðurnar, segja stjórnarflokkarnir, eru þær, að ekki þótti rétt að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, þegar ekki varð séð, hvort síldveiðarnar gengju vel eða eigi. Er þessi afsökun nægjanleg fyrir hæstv. ríkisstj.? Var ástæða til að ætla, að síldveiðarnar í sumar og haust gætu leyst vandamál þjóðarinnar í efnahagsmálum, svo að aðgerða væri ekki þörf? Ýmis kennileiti voru það nálæg frá sjónarhóli ríkisstj., að hún átti að átta sig á því, að vandi efnahagsmálanna leystist ekki, þótt síldveiðin yrði góð. Var ríkisstj. t.d. búin að gleyma því, að hún varð að gera sérstakar ráðstafanir vegna ríkissjóðs og sjávarútvegsins þrátt fyrir uppgripasíldveiði á árunum 1965 og 1966? Var ríkisstj. búin að gleyma því, að hún samþykkti óútfylltan víxil vegna síldveiðanna s.l. vor og skortir fjármagn til að greiða hann? Ekki átti ríkisstj. að vera búin að gleyma því, að hún ákvað viðbótaruppbætur til hraðfrystihúsanna til að forða þeim frá stöðvun á miðju sumri. Það eitt hefði átt að sanna ríkisstj., að aðgerða væri þörf í efnahagsmálum þjóðarinnar, að hún jók skuld ríkissjóðs hjá Seðlabankanum með hverjum mánuði, sem leið. Ekkert sannar svo betur, hversu haldlaus þessi fullyrðing um síldveiðarnar er, en 20% tollurinn, sem ríkisstj. lagði á í ofboði í byrjun september án þess að hafa nokkra heildaryfirsýn yfir efnahagsmálin, enda minnir sú framkvæmd helzt á aðgerðir þeirra, sem framkvæma áður en þeir hafa að fullu losað sig við svefninn. Hitt atriðið, sem ríkisstj. afsakaði aðgerðaleysi sitt með, eru viðræður þær, sem fram hafa farið á milli stjórnmálaflokkanna síðustu vikurnar. Um þær er það að segja, að þau vinnubrögð geta verið eðlileg vegna efnahagsvandræðanna, ef til þeirra er stofnað af heilindum um lausn þeirra vandamála, er leysa þarf. Um það skal ekkert sagt að sinni, þar sem ekkert hefur á það reynt og óljóst er, að hverju raunverulega stefnir með þeim viðræðum. Það vakti athygli og undrun, er það kom í ljós, að ríkisstj. hafði ekki látið stofnanir eins og Seðlabankann og Efnahagsstofnunina safna gögnum um ástandið í efnahagsog atvinnumálum þjóðarinnar, svo að hægt væri að snúa sér að því að leita eftir samstöðu um lausn vandans strax í upphafi umræðnanna. Að söfnun gagna hefur verið unnið síðan umr. stjórnmálaflokkanna hófust og mun nú langt komin. Ef til þessara umr. hefði verið stofnað með eðlilegum hætti, hefðu þær átt að hefjast löngu fyrr og þá að liggja fyrir fullkomin athugun og grg. áðurgreindra stofnana um efnahagsmálin, svo að ekki liðu nærri tveir mánuðir frá því, að til viðræðna var stofnað, þar til þær raunverulega gátu hafizt. Ástæðan fyrir þeim vinnubrögðum ríkisstj., er fram koma í fjárlagafrv., er algert úrræðaleysi um lausn vandans.

Vinnubrögðum ríkisstj. og festu verður bezt lýst með framkvæmd hennar í efnahagsmálunum á tímabilinu frá nóvember 1967 til jafnlengdar 1968. Þær eru þessar:

Nóvember: Gengisbreytingin gerð, yfirlýsing um, að hún sé sérstaklega vel undirbúin og leysi vanda þjóðarinnar. Desember: Fjárlagaafgreiðsla, tollalækkun boðuð síðar um 250 millj. kr. Janúar: Uppbótakerfið aukið um 320 millj. kr. ofan á gengisbreytinguna þá, sem var vel undirbúin. Febrúar: Tollalækkun var aðeins 160 millj. kr. í staðinn fyrir 250 millj. Marz: Hækkun á tekjustofnum, m.a. tóbaki og áfengi, frestun ríkisútgjalda, fyrst og fremst til framkvæmda, og stofnað til nýrrar lántöku. Apríl: Skattahækkanir vegna vegamála, 160-190 millj. kr. Maí júní: Síldarvíxillinn samþykktur, fjárhæð ókunn. Júlí–ágúst: Viðbótaruppbætur til hraðfrystihúsanna, nokkrir milljónatugir. September: 20% tollur lagður á allan innflutning og ferðagjaldeyri, ca. 500–600 millj. kr. miðað við heilsárs innflutning. Október: Fjárlagafrv. lagt fram til að fullnægja formi, en hefur enga raunhæfa þýðingu.

Slíkur hringlandaháttur og stjórnleysi í efnahagsmálum, er hér hefur verið lýst með því að vitna til staðreynda, getur ekki leitt til annars en upplausnar, eins og raun er á orðin og skal betur að vikið. Ríkissjóður var rekinn með greiðsluhalla á s.l. ári þrátt fyrir það, að nokkur hluti af greiðsluafgangi ársins 1966 væri notaður vegna útgjalda árið 1967. Tekjur fóru 430 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Hallarekstur ríkisins hefur farið vaxandi á þessu ári, og munu skuldir ríkissjóðs á aðalreikningi hans við Seðlabankann vera nú um 800 kr. Þar við bætist svo, að ríkissjóður eykur skuldir sínar vegna framkvæmda til viðbótar við hallareksturinn, svo að skuldir ríkissjóðs nema nú milljörðum og munu hafa hækkað á 2. milljarð á einu ári. Skuldir eru svo að segja á öllum framkvæmdaliðum ríkissjóðs, og Vegasjóður einn mun skulda um 400 millj. kr. Ástæða er til, að um sé spurt, hvernig á því standi, að fjárhagur ríkissjóðs er svo illa farinn þrátt fyrir stórfelldar umframtekjur síðustu ára. Orsakir eru þær, að verðbólgan er hér að verki og útþensla í ríkiskerfinu hefur verið veruleg og víða búið vel að embættum.

Máli mínu til sönnunar vil ég taka nokkur dæmi, sem sanna þessa þróun. Samanburðinn ætla ég að gera á milli áranna 1965 og 1968. Ekki kann hann að teljast ósanngjarn, en þróunin er þessi: Fjárveiting til saksóknaraembættisins hefur hækkað um 71%, til borgardómaraembættisins í Reykjavík um 108%, til borgarfógetaembættisins um 71%, til bæjarfógetaembættisins í Hafnarfirði um 132%, til lögreglu- og tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli um 150%, til löggæzlu almennt um 100%, til skattstofanna um 117%, til tollstjóraembættisins í Reykjavík um 73%, kostnaður við setudómara og málskostnaður hefur hækkað um 173 % og fjmrn. um 111%.

Engan þarf að undra, er þetta litla sýnishorn virðir fyrir sér, þó að fjárlög séu gengin úr skorðum og greiðsluhalli ráði þar ríkjum. Enn þá er haldið áfram við útþensluna. Nýlega var stofnað nýtt borgarfógetaembætti í Reykjavík til hagræðingar á stjórnarheimilinu, og nýjar stofnanir eru boðaðar. Hvaða áhrif hefur það svo á þróun efnahagsmála þjóðarinnar, að ríkissjóður er rekinn með greiðsluhalla? M.a. eru áhrifin þau, að hann sogar til sín fjármagn frá atvinnuvegunum og tekin eru erlend okurlán til ríkisframkvæmda, eins og gert var á yfirstandandi ári. Áhrifin af eyðslu ríkissjóðs í gjaldeyrismálum og hringlandahátturinn í efnahagsmálum hefur skapað hér annað slagið kaupæði, spariféð hefur ruðzt út úr bönkunum og sparisjóðunum, enda er nú svo komið, að vöruskiptajöfnuður er óhagstæður svo milljörðum skiptir, gjaldeyrissjóðurinn til þurrðar genginn og skuldir vegna vörukaupalána munu vera fast að 1 milljarði. Áhrifin af þessari þróun í tekjum ríkissjóðs á næsta ári valda stórfelldri tekjurýrnun, ef ekki kemur til verulegt gjaldeyrislán. Á árinu 1968 höfum við eytt upp gjaldeyrissjóðnum, sem var um einn milljarður um síðustu áramót, þó skortir nokkur hundruð millj. króna til þess, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi fyrir gjöldunum. Meðaltollprósenta til ríkissjóðs mun vera um 33%. Það þýðir, að 5–6 hundruð millj. kr. minni innflutningur gefur ca. 2 hundruð millj. kr. minni tekjur í ríkissjóð. Þessi dæmi gefa nokkra hugmynd um viðhorf í afkomu ríkissjóðs á næsta ári. Þar við bætist, að skuldir þjóðarinnar við útlönd voru 7 milljarðar 870 millj. kr. í árslok 1967. 11.4% af tekjum þjóðarinnar af vörum og þjónustu ganga til að greiða vexti og afborganir af þessum lánum. Í árslok 1958 var varið 5.1% af hliðstæðum tekjum þjóðarinnar til þessara greiðslna. Þá fannst núverandi ráðamönnum svo langt gengið í því efni, að þjóðargjaldþrot væri á næsta leiti, ef ekki væri að gert. Ég ætla mér ekki að taka svo djúpt í árinni, sem þeir gerðu þá, en vekja athygli á því, að að liðnum góðu árunum undir stjórn viðreisnarinnar stendur þjóðin eftir með hærri fastaskuldir við útlönd en nokkru sinni fyrr, háa fjárhæð í lausaskuldum og engan gjaldeyrisvarasjóð, greiðsluhalla hjá ríkissjóði og lamað atvinnu- og viðskiptalíf. Ekki ber allt upp á sama dag. Ljótur spádómur hefði þetta þótt þá dagana í ársbyrjun 1960, þegar bókin Viðreisn var borin út til þjóðarinnar. Það er kunnara en um þarf að ræða, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar hafa verið reknir með halla, a.m.k. 2–3 s.l. ár. Þrátt fyrir gengisbreytinguna, sem gerð var í nóv. s.l., hefur orðið að styðja sjávarútveginn og hraðfrystihúsin með hundruðum millj. kr. úr ríkissjóði. Þó er það svo, að mörg af þessum fyrirtækjum riða til falls og hafa jafnvel stöðvazt. Heil byggðarlög eiga afkomu sína bundna því, að þau geti starfað áfram og innt af hendi frumstæðustu greiðslur svo sem vinnulaun og hráefni. Ljóst er, að hér þurfa að koma til stórar fjárhæðir, ef afkoma þessara atvinnugreina á að verða sæmileg. Til viðbótar hallarekstri þeirra nú eru skuldabaggarnir vegna hallans frá fyrri árum, sem ríða þeim á slig, og getuleysi fjárfestingarsjóða þegar á næsta leiti. Í kjölfar þessa vofir svo yfir hættan mesta, atvinnuleysið, eins og sortaský, sem ógnar afkomu manna. Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að hér er mikil alvara á ferðum, það verður þjóðin að gera sér ljóst. Eins og áður er tekið fram, er um það deilt, hverju sé um að kenna, og er þar ekkert eitt allsráðandi. Þó vil ég undirstrika það, sem við framsóknarmenn höfum jafnan bent á, að dýrtíðin, sem ríkisstj. hefur magnað með ofsköttun og stjórnleysi, á mikinn þátt í því, hvernig högum þjóðarinnar í efnahagskerfinu er nú komið. Þrátt fyrir það, að árferði sé erfiðara nú en á árunum 1965 og 1966 um afla og verðlag, er þetta þó þriðja og fjórða bezta verzlunar- og aflaár síðastliðinn áratug. Þetta sanna opinberar skýrslur. En fyrir áhrif dýrtíðarinnar er framleiðslukostnaður svo hár hjá okkur Íslendingum, að útflutningsverð á erlendum mörkuðum ber hann ekki uppi. Nú er mér ljóst, að það þýðir eigi um að sakast, hvernig komið er, heldur hitt, hvernig úr skuli bæta. Þó er það svo, að úr engu verður bætt, sem aflaga fer, nema orsaka sé leitað. Áður en ég vík að þessum þáttum vandamálsins, vil ég minna á það tal þeirra stjórnarliða, að hjá okkur stjórnarandstæðingum sé aðeins gagnrýnin ein til staðar. Þaðan sé ekki tillagna að vænta til úrlausna. Um þetta vil ég segja það, að það er æðimikill aðstöðumunur hjá ríkisstj. og stjórnarandstöðu þar að lútandi. Ríkisstj. getur sýnt vilja sinn í verki, þegar stjórnarandstaðan verður að túlka sinn vilja. Auk þess hefur ríkisstj. sér til ráðuneytis og aðstoðar margar stofnanir, er hún getur látið kryfja vandann til mergjar og gera samanburð á hinum ýmsu leiðum, ef hún er þá ekki svo einsýn, að hún sjái aðeins eina leið til úrlausnar, svo sem virðist hafa verið með núverandi valdhafa. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar engar vinnu- og ráðuneytisstofnanir til þess að styðjast við. Sjá allir þann reginmun, sem er á þessu tvennu, ekki sízt er til þess kemur að gera tillögur til úrbóta í erfiðum málum, þar sem nauðsyn ber til, að gerður sé samanburður á tveimur leiðum, er til greina koma, áður en ákvörðun er tekin. Hefur þessi nauðsynlegi undirbúningur sannazt bezt nú, þar sem stofnanir þær, er að efnahagsmálum vinna, hafa verið í hálfan annan mánuð að safna gögnum og gera greinargerðir fyrir viðræðunefnd stjórnmálaflokkanna, svo að athugun og tillögugerð í efnahagsmálum geti hafizt.

Á síðastliðnu sumri unnum við fulltrúar allra stjórnmálaflokka undir forystu hagsýslustjóra að undirbúningi nokkurs hluta á útgjaldaliðum fjárlaganna. Þetta samstarf gekk vel og staðfesti þá skoðun okkar framsóknarmanna, að þess háttar vinnubrögð þarf að viðhafa við fjárlagagerð. Út frá þessari vinnu og þeim athugunum, er þar fóru fram og síðar hafa verið hugleiddar, er ljóst, að ýmsu má breyta til batnaðar í ríkisrekstrinum, og mun ég víkja að því. En fyrst vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að nú verður að þrengja mjög að í ríkisrekstrinum, ef nokkrar efnahagsaðgerðir eiga að ná árangri.

Ég er sannfærður um það, að við getum dregið saman í ríkisbúskapnum án þess að draga úr þjónustu. Ég nefni skiparekstur ríkisins, þar á ég ekki aðeins við vöruflutningaskip, heldur og einnig við skip Landhelgisgæzlunnar og rannsóknarskipin. Ég er sannfærður um, að ein skrifstofa fyrir þennan rekstur væri sparnaður frá því sem nú er, þó að forstjóraskipan væri óbreytt. Ég nefni viðgerðarþjónustu, sem svo að segja hver ríkisstofnun rekur fyrir sig. Ég er sannfærður um, að ódýrara mundi reynast að sameina rekstur þeirra. Það mundi skapa betri nýtingu á húsakosti, mannafla, tryggja verkefni og auðvelda það að taka tæknina í þjónustu þessarar starfsemi. Ég nefni verkfræðingaþjónustu ríkisins. Væru ekki eðlilegri og hagnýtari vinnubrögð, ef sameinuð væri að einhverju eða verulegu leyti verkfræðiþjónusta Vegagerðar, hafnarmála, flugmála, raforkumála, Pósts og síma, Landssmiðju og fleiri ríkisstofnana heldur en sú skipan, sem nú er. Þrátt fyrir starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins eru ýmsar ríkisstofnanir með sérstaka innkaupadeild, sem bindur fé og hefur oft seinfæra innheimtu. Ég tel, að sumar ríkisstofnanir væri auðvelt að leggja niður, t.d. var alger óþarfi að skipa í embætti landnámsstjóra. Þau störf, sem þar verða unnin á næstunni, áttu að ganga til Búnaðarfélags Íslands, þegar sá ágæti maður, Pálmi Einarsson, hætti störfum, sem gegnt hefur embættinu með mikilli prýði.

Við eigum að endurskoða og skipuleggja starfsemi utanríkisþjónustunnar, svo sem gert var ráð fyrir í þáltill. þeirri, sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson og Þórarinn Þórarinsson fluttu hér á síðasta þingi, og miða við nútímareynslu og þekkingu á því sviði og færa utanríkisþjónustuna til þess viðhorfs, sem gildir um hana í dag. Ég er líka sannfærður um, að það er hægt að gera skattálagninguna og skatteftirlitið ódýrara og öruggara með breyttum vinnubrögðum, þar sem tekið væri upp meira samstarf við sveitarstjórnirnar og útdráttarregla við höfð í skatteftirliti.

Ég leyfi mér að benda á, að full þörf er á því, að gerð væri ályktun, sem Alþ. samþykkti, um fjárfestingu Pósts og síma, þar sem fjárfesting og afskriftir stofnunarinnar væru að verulegu leyti tengdar saman. Sá háttur er nú á hafður, að forstjóri stofnunarinnar fær ráðh. til að fallast á fjárfestingarframkvæmdir, sem eru venjulega afgreiddar með skyndiákvörðun og jafnhliða hækkun á þjónustugjöldum stofnunarinnar. Póstur og sími hefur nú álíka tekjur og fjárlög íslenzka ríkisins voru á árunum 1965 og 1966. Alþ. samdi fjárlög til að skipta þeirri fjárhæð. Við ráðstöfun fjármuna Pósts og síma eru áhrif Alþ. mjög lítil. Stofnunin skuldar nú um 120 millj. kr. í gjaldföllnum viðskiptaskuldum. Ekki er vitað, hvernig úr þessum fjárhagsörðugleikum skuli bætt, nema samþykkt verði krafa stofnunarinnar um 20% hækkun þjónustugjalda hennar, sem enn þá hefur a.m.k. ekki verið formlega samþykkt af samgmrh., svo vitað sé. Þrátt fyrir þessa fjárhagsörðugleika þótti ráðamönnum stofnunarinnar skynsamlegt og réttmætt að kaupa Sjálfstæðishúsið á 16 millj. kr. Tími er til kominn, að Alþ. setji ákveðnar reglur um stjórn þessarar stofnunar og hafi þar meiri afskipti en nú.

Bifreiðaeign og bílastyrkur starfsmanna ríkisins voru á dagskrá í fyrravetur vegna fyrirspurnar frá okkur stjórnarandstæðingum í fjvn. Þetta er stórmál, sem verður að skipa ákveðnar reglur um.

Kostnaður við lögreglumál hefur aukizt verulega. Ég leyfi mér að benda á, að það mun reynast a.m.k. hinum minni sveitarfélögum ofraun að standa undir kostnaði við framkvæmd þeirra laga og alger óþarfi að setja upp her lögreglumanna út um allt land, þar sem lítil sem engin verkefni eru.

Ég minni einnig á það, að við erum enn þá með sérstakt útvarps- og sjónvarpsgjald og fjöldi fólks látinn vinna við að innheimta þau í stóru skrifstofuhúsnæði, sem leigt er vegna innheimtunnar, þó að auðvelt væri og eðlilegt, að rekstrarútgjöld þessara stofnana væru tekin með ríkisútgjöldum og þá tekjurnar innifaldar í öðrum tekjustofnum ríkissjóðs, enda er hin mesta nauðsyn að fækka tekjustofnum ríkissjóðs og samræma innheimtu þeirra.

Þessi fáu og smáu dæmi mun ég láta nægja að sinni um ríkisreksturinn, en undirstrika, að nauðsyn ber til að endurskoða ríkisreksturinn, því að víða eru stofnanir og embætti, sem má sameina og gera reksturinn hagkvæmari. Ég legg áherzlu á það, að þetta verk sé unnið af hagsýslustjóra og fulltrúum allra flokkanna. Þannig mun mestur árangur nást af því. Og þá er hægt að vonast til þess, að aftur verði komið á hallalausum ríkisbúskap.

Eins og ég vék að í upphafi máls míns, skiptir mestu við lausn vandans í efnahagsmálum þjóðarinnar, að fram hjá atvinnuleysi verði komizt og fullkomið atvinnuöryggi skapað. Til þess að það verði gert, verður að skipta um stefnu gagnvart atvinnuvegunum, m.a. á þann hátt að draga úr rekstrarkostnaði þeirra með lækkun skatta og hagkvæmari stofnlánum. Mér er það ljóst, að þótt þessar aðgerðir minnkuðu vandann, ef gerðar yrðu, þá hrökkva þær skammt. Meira verður að koma til. Breyta verður lausaskuldum aðalatvinnuvega í hagkvæm lán til langs tíma og meira að segja yrðu að koma til bein aðstoðarlán að einhverju leyti.

Ég er sannfærður um, að þær leiðir, er ég hef nefnt, munu reynast farsælli til úrlausnar en beinir rekstrarstyrkir. Ég tel, að þessu til viðbótar gætu komið meiri afskipti félagssamtaka atvinnurekstrarins en nú er af skiptingu þeirra fjárveitinga, er Alþ. ákveður þeim. Þegar búið er að greiða fyrir atvinnuvegunum á þann hátt. er að framan greinir, er lagður grundvöllur að því að taka ákvörðun um þær leiðir til viðbótar, er til greina koma til þess að gera atvinnuvegina rekstrarhæfa. Að óbreyttri stjórnarstefnu verður því marki ekki náð nú frekar en árið 1967, þó til svipaðra aðgerða væri gripið og þá var gert. En jafnhliða þessum aðgerðum verður þjóðin að gera sér grein fyrir því, að hún verður að styðja íslenzkt atvinnuöryggi með því að kaupa íslenzka framleiðsluvöru og efla sinn iðnað. Láta íslenzka þekkingu og framtak ganga fyrir við framkvæmdir sínar. Hún verður að hafa stjórn á fjárfestingu sinni og viðskiptum við aðrar þjóðir, svo að gjaldeyrissjóður verði unninn upp á ný. En til viðbótar því, er að framan greinir um ráðstafanir í atvinnumálum, verður ríkissjóður að halda uppi meiri verklegum framkvæmdum á næstunni en verið hefur, til þess að atvinnuöryggi sé nægjanlegt. Eins og margoft hefur verið lýst af okkur framsóknarmönnum, verður að velja verkefni eftir gildi þeirra fyrir þjóðina. Ekki verður allt gert samtímis. Í mörgum málaflokkum æpa verkefnin. Þó tel ég, að hvergi séum við Íslendingar fjær því, sem við þurfum að vera en í menntamálum og samgöngumálum. Í þessum málaflokkum er hvert árið dýrt, sem við drögumst meira aftur úr öðrum þjóðum en orðið er. Hér verður að gera stórt átak, enda henta þessir málaflokkar vel til þess að bæta einnig úr atvinnuþörfinni. Að ljúka raforkuframkvæmdum dreifbýlisins er ekki lengur stórmál. sem þó verður að leysa. Heilbrigðismálin verða að vera á næsta leiti við þau mál. sem ég hef nú nefnt, og fjárframlög til húsnæðismálakerfisins jafnhliða.

Herra forseti. Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, þá horfir þjóðin nú með nokkrum kvíða til næstu framtíðar. Henni er vandi á höndum, verkefnin eru mörg og erfið, efnahagskerfið riðar. Í ávarpi því, sem forseti Íslands, dr. Kristján Eldjárn, flutti við setningu Alþ. 10. okt. s.l., komst hann m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Til Alþ. lítur þjóðin um úrræði og forystu.“ Ekki orkar það tvímælis, að hér er rétt með farið. Alþ. það, sem nú situr, verður að takast betur á við vandamál þjóðarinnar en gert er með fjárlagafrv. fyrir árið 1969, ef forysta þess á að reynast þjóðinni slík sem hún væntir. — Góða nótt.