13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3681)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Skýrsla hafísn. ásamt fskj. hefur nú verið prentuð fyrir atbeina ríkisstj. og með samþykki n., en það hefur aldrei flögrað að ríkisstj., að hér væri um nokkurt leyndarplagg að ræða. Allir hafa átt aðgang að því, sem það óskuðu að sjá. Hitt mátti kannske deila um, hvort ríkisstj. ætti að hafa forgöngu um prentun álitsins eða n. sjálf, en nú er samt úr því skorið. Plaggið hefur verið prentað og vonast ég til þess, að menn geti áttað sig á því og lesið það. Því var útbýtt í upphafi fundarins, en þar fyrir utan hafa þeir getað fylgzt með því, sem áhuga hafa haft á málinu, með því að hafa tal af þeim mætu nm., sem hér eru. Þetta vil ég taka fram út af ummælum hv. þm.

Aðaltill. n., eru í viðbótarbréfi má segja, — raunar eru þær efnislega einnig teknar fram í sjálfu nál., — viðbótarbréfi, sem er dags. 16. októher 1968. Fyrsta till., sem þar greinir, er:

„Hafizt verði handa um skipulagða rannsókn á möguleikum fyrir hafísspám og verði Veðurstofu Íslands og Hafrannsóknastofnuninni falin framkvæmd þeirra.“

Í sumar barst ríkisstj. vitneskja um það, að hér var á þessum vetri fyrirhuguð ráðstefna vísindamanna um þessi málefni, og hef ég svo hljóðandi yfirlit um viðhorfið í þeim efnum, sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Að fyrirhugaðri hafísráðstefnu standa þessir aðilar: Veðurstofa Íslands, sjómælingadeild Hafrannsóknastofnunarinnar, Veðurfræðingafélag Íslands og Jöklarannsóknafélagið. Ráðstefnan á að standa dagana 27. jan. til 7. febr. n.k. og munu sækja hana eingöngu íslenzkir vísindamenn, veðurfræðingar, hagfræðingar, vélfræðingar, jöklafræðingar o.fl. Á ráðstefnunni verður fjallað um hafís við strendur Íslands á breiðum grundvelli. Er markmið ráðstefnunnar að leitast við á vísindalegum grundvelli að glöggva sig á aðstæðum til hafís komu, hvort mögulegt sé að sjá fyrir komu hafíss og breytingar á loftslagi, svo og að gera sér grein fyrir, hverra áhrifa á atvinnuvegi og samgöngumál landsmanna mætti vænta, ef slíkar breytingar þættu sennilegar. Fyrirhugað er að gefa út erindi þau, er flutt verða á ráðstefnunni og ályktanir bennar. Menntmrn. hefur lagt til við Alþ., að veittur verði styrkur til ráðstefnunnar við útgáfu skýrslu hennar.“

Ríkisstj. hefur sem sagt hvatt til þess, að þessi ráðstefna verði haldin. Og vonast ég til þess, að með því sé í raun og veru orðið við till. hafísn., þótt með nokkuð öðrum hætti sé heldur en hún gerir till. um. Það er svo annað mál, að nokkur ágreiningur skilst mér, að sé milli veðurfræðinga, bæði um möguleika á hafísspám og hverjar horfur séu nú. Menn hafa meira að segja orðið varir ólíkra skoðana um þessi efni með því að fylgjast með veðurspám í sjónvarpinu. Ég skal ekki blanda mér í þann skoðanamun, en hitt er rétt, að í leikmannsaugum virðast síðustu kort, sem dregin hafa verið upp af hafísröndinni, sízt gefa ástæðu til bjartsýni um, að við sleppum við þennan vágest í vetur. En þar er auðvitað eingöngu um getgátur að ræða.

Annar liður till. n. er þessi:

„Landhelgisgæzlan eða annar aðili, er ríkisstj. kynni fremur að óska að fela það starf, annist skipulagt ískönnunarflug.“

Slíku ískönnunarflugi hefur verið haldið uppi má segja allt þetta ár, meðan hafís var við strendur landsins og raunar lengur, því að sjálfsagt er sá kunnugleiki, sem menn hafa á hafísröndinni að nokkru leyti runninn frá könnun, sem Íslendingar sjálfir hafa framkvæmt með þessu móti. Ég tel sjálfsagt, að Landhelgisgæzlan haldi áfram þeirri mjög dugmiklu starfsemi, sem haldið hefur verið uppi í þessum efnum. Og það er vitað, að hún varð á s.l. vetri og einkanlega vori mörgum að liði, ekki einungis með ískönnunarfluginu, heldur með því að fljúga og leiðbeina skipum. Auk þess voru varðskipin ótrauð, eftir því sem óskir komu fram, að sigla inn á firði til þess að koma vörum, þegar þess var sérstaklega brýn þörf. Ég hygg því, að þessi hlið sé í eins góðu horfi og hægt sé að vænta. Að sjálfsögðu hafa menn lært af þeirri reynslu, sem fengin er og geta þá eitthvað bætt um, en þarna hefur þegar mjög mikið og gott starf verið unnið, eins og kemur fram í skýrslu dómsmrh., sem prentuð er með skýrslu hafísnefndar.

3. og 4. liðurinn í till. n. hljóða svo:

„Hæfum manni verði falið að hafa á næstu mánuðum yfirumsjón með ráðstöfunum til þess að auka geymslurými fyrir olíu og birgðasöfnun olíu og kjarnfóðurs á því svæði, er hafís getur valdið siglingateppu. Starfi hann á vegum Bjargráðasjóðs eða annarra aðila, ef ríkisstj. telur slíkt betur henta.

Ríkisstj. beiti til þess áhrifum sínum við lánastofnanir þær, sem eru í eigu hins opinbera, að lánsfjárskortur hindri ekki nauðsynlegar framkvæmdir til aukningar birgðarýmis og birgðasöfnunar.“

Það má segja, að þetta tvennt heyri saman. Ríkisstj. taldi ekki ástæðu til þess að setja upp sérstaka stofnun til þess að annast þetta eða ráða til þess sérstakan mann, heldur varð að ráði, að annars vegar skyldi viðskrn. taka að sér könnun og nauðsynlegar framkvæmdir eftir þörfum um olíuna, en landbrn. varðandi birgðasöfnun á kjarnfóðri og fyrirgreiðslu í þeim efnum.

Í grg., sem ég hef fengið frá viðskrn. um olíuna, segir svo. Grg. er dags. í gær:

„Í tilefni af þessu vill viðskrn. skýra frá því, að olíufélögin hafa talið, að þau gætu haft geymarými á Norðurlandi fyrir 3–4 mánaða birgðir nema á Hvammstanga, Sauðárkróki og Hofsósi. Á þessum stöðum hefur Olíufélagið h.f. komið upp viðbótargeymum s.l. sumar, þannig að birgðarými á Hvammstanga og Hofsósi er nú til um 100 daga og á Sauðárkróki til 135 daga. Ef auka ætti birgðarými meira, upp í 5–6 mánaða birgðir, mundi það þýða, að byggja yrði til viðbótar á flestum höfnum og munu olíufélögin ekki hafa séð sér fært að ráðast í slíka framkvæmd.

Þegar litið er á birgðarými í höfnum norðanlands, verður einnig að hafa í huga, að unnið hefur verið að því undanfarin ár að stækka heimilisgeyma hjá bændum á þessu svæði. Þannig mun t.d. í Norður–Þingeyjarsýslu vera geymarými hjá flestöllum bændum til 5 mánaða notkunar, enda til lítils að hafa birgðir á höfnum, ef allir vegir eru ófærir af snjó. Þegar þetta er haft í huga, virðist sæmilega séð fyrir birgðarými á aðalhafíssvæðinu. Hitt er svo aðal vandamálið að gæta þess að hafa alla geyma fulla, ef eða þegar hafís leggst að landinu og þá séu jafnframt sem mestar birgðir á heimilisgeymum hjá notendum, en til þess þarf aukið fjármagn.“

Þessu til viðbótar er rétt að taka fram, að í till. n. er ráðgert, að olíugeymar þurfa að vera til á þeim stöðum, sem hún nefnir, til þriggja mánaða og hún leggur eingöngu til sérstakar ráðstafanir á Norðurlandi. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu olíufélaganna, sem hér er hermd, sýnist vera búið að bæta úr þessu, þannig að hvarvetna séu til geymar fyrir þann tíma, sem hafísnefnd telur nauðsyn að afla geymarýmis til. Viðskrn. hefur þessu til viðbótar tekið að sér að ræða við bankana um nauðsynlega aðstoð, eftir því sem atvik standa til og í ljós kemur, að þurfa þykir, svo að olíufélögin geti fyllt þessa geyma, sem þau ráða yfir. Hefur þá verið að því miðað, að það yrði gert fyrir áramót. Það mál er sem sagt í meðferð hjá viðskrn. í samræmi við þær óskir, sem fram hafa komið um þetta efni af hálfu hafísnefndar.

Fóðurvörurnar tók landbrn. að sér að annast. Leyfi ég mér að lesa upp kafla úr bréfi eða skýrslu frá landbrn., sem er dags. í dag og hljóðar sá kafli, sem hér skiptir máli, svo:

„Með tilvísun til þessara till. n. hefur rn. kannað, hvers konar fyrirgreiðsla verði nauðsynleg, til þess að birgðasöfnun sú, sem n. gerir till. um, geti orðið að veruleika. Hefur rn. rætt við innflytjendur kjarnfóðurs um þessi mál. Þrír innflytjendur hafa boðizt til að koma upp birgðum á Norður– og Austurlandi, svo sem hafísnefnd leggur til. Eru það Samband ísl. samvinnufélaga, Fóðurblandan h.f. og Heildverzlun Guðbjörns Guðjónssonar.

Samband ísl. samvinnufélaga flytur inn meginhluta eða 3/4 hluta þess kjarnfóðurs, sem notað er á Norður– og Austurlandi. Eftir viðræður við þessa aðila og könnun málsins, hefur ríkisstj. ákveðið að lengja gjaldfrest á erlendum viðskiptaskuldum vegna kaupa á fóðurvörum. Verður veitt heimild til 5–6 mánaða gjaldfrests.

Með þessum ráðstöfunum ætti að vera tryggt, að nægilegar birgðir kjarnfóðurs verði til staðar á Norður– og Austurlandi í byrjun ársins, svo sem hafísnefnd leggur til. Þá má geta þess sérstaklega í þessu sambandi, að vegna þess að innanlandsbirgðir af fóðurmjöli eru nú mjög litlar, hefur rn. hlutazt til um, að ekki verði fyrst um sinn leyfður útflutningur á fóðurmjöli, meðan kannaðar eru nánar þarfir bænda fyrir þessar vörur.“

Þá er því einnig hreyft í skýrslunni, að kannað sé um útvegun ísbrjóts. Um það mál er að segja, að á s.l. vori var búið að tryggja, að ísbrjótur fengist til landsins, ef ísinn festist svo hér, að á slíku tæki mundi þurfa að halda. Sem betur fór varð raunin ekki sú, en að sjálfsögðu mun einnig í vetur verða fylgzt með því að útvega slíkt tæki, ef tilefni gefst til, en fyrir fram er það ákaflega örðugt. Hér er um mikil tæki að ræða, sem þar að auki verður mjög að efast um, að eigi við aðstæður hér. Það er meira um að ræða að komast í gegnum lagnaðarís, heldur en slíkan ís, sem hér hefur fest við landið. Þetta er þó sjálfsagt að kanna betur, ef að ástæður slíkar skapast, að á þessu verði þörf. Og eins og í vor reyndist hægt að útvega slíkt tæki með tiltölulega litlum, að vísu nokkrum fyrirvara, þá efast ég ekki um eða vona ég réttara sagt, að slíkt verði fært í vetur, ef svo illa skyldi fara, að menn telji þörf á því að fá slíkt skip hingað.