13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í D-deild Alþingistíðinda. (3685)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Við erum allir sammála um, að hér sé um mikið alvörumál að ræða og þurfum ekki að brýna hver annan á því. Ef hv. þm. telja máli skipta, að hér sé skotið millilið á milli stjórnarvalda úti á landi og þeirra rn., sem um þessi mál fjalla, þá er það auðvitað mjög vel takandi til athugunar. Það væri vel hægt að koma því svo fyrir, að sá maður, sem starfar hjá Landhelgisgæzlunni nú, aðallega að almannavörnum, tæki að sér að hafa slíka milligöngu. Ég geri ráð fyrir því, að slíkt sé hægt, ef menn að athuguðu máli telja, að það sé kostur. En ég efast mjög um, að það sé kostur. Ég held, að það sé betra, að menn eigi beinan aðgang annars vegar að landbrn. varðandi fóðurbirgðirnar, — það mál skilst mér nú þegar vera leyst raunar, — og hins vegar að viðskrn. varðandi olíuna. Viðskrn. hefur tekið að sér að vera í fyrirsvari um úrlausn þess máls og annast hana.

Nú má vera, að það fari nokkuð á milli mála, hverjar till. n. eru í þessu. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um það, sem stæði á 4. síðu í skýrslunni en á 5. síðu í frumskýrslunni stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og í ljós kemur af þessu yfirliti fer því víðast hvar fjarri, að olíufélögin eigi nægilega mikið birgðarými, til að þar verði safnað þriggja mánaða birgðum, en það er lágmark þess, sem n. telur æskilegt, þar sem veruleg hafíshætta er.“

Þetta stendur á 5. síðu í skýrslunni, að sé lágmark þess, sem n. telur æskilegt, þar sem veruleg hafíshætta er. Svo eru annars staðar látnar uppi bollaleggingar um það, að annað enn meira geymslurými væri út af fyrir sig gott, en þarna er um að ræða lágmark þess, sem n. telur æskilegt, þar sem veruleg hafíshætta er og eins og nú stendur á, þegar jafnáliðið er orðið, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. vakti athygli á, er eðlilegt, að maður haldi sig við þessa aðaltill. n. Þetta er hennar grundvallartill. í málinu. Fram hjá því verður ekki komizt. (Gripið fram í.) Já, en ég er með frumskýrsluna og vitnaði í hana.

En við skulum ekki vera að þræta um þetta út af fyrir sig. Það er sjálfsagt að kanna það til hlítar, hvað hér ber á milli mála og ég legg sérstaka áherzlu á og beini því til n., að hún hafi samráð við viðskrn. og olíufélögin um það, sem þeim ber á milli í þessu, vegna þess að mér skilst af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði, að hann telji, að olíufélögin hafi jafnvel ekki geyma til þriggja mánaða. Hann heldur því fram. Olíufélögin fullyrða aftur á móti, samkvæmt þeirri skýrslu, sem ég las upp áðan og ég fékk staðfesta af viðtölum við ráðuneytisstj. í viðskrn., að slíkt geymslurými sé nú fyrir höndum. Misskilningur í þessu má ekki eiga sér stað og ég beini því til n., að hún kanni þetta sjálf og geri okkur síðan aðvart um, hvort hún telji frekari aðgerða þörf, vegna þess að eðlilegt er, að n. ætlist til þess, að a.m.k. hennar lágmarkstill. sé fullnægt og það séu a.m.k. ekki rangar upplýsingar gefnar um, að til sé geymslurými, sem ekki sé til. Ég er hv. þm. sammála um það. En fram hjá hinu verður ekki komizt, að grundvallartill. n. er á síðu 5.

Varðandi það, að ranghermt hafi verið, að skýrslan væri prentuð með fskj., skal þetta sagt: Auðvitað er hún prentuð með fskj. Hvort það eru þau númeruðu fskj., sem n. setti með sinni skýrslu, hef ég aldrei sagt. Frumskýrsla n. er prentuð ásamt bréfi mínu til n. ásamt viðbótarskýrslu n. og ásamt skýrslu Landhelgisgæzlunnar, sem kom frá dómsmrn. Þetta er óhagganlegt. Og af þessum gögnum er hægt að átta sig á málinu. Hitt er svo annað mál, að hér er heilmikill bunki af skjölum, sem ég vil fullyrða, að meginparturinn af á ekkert erindi til þm., ekkert erindi. Það eru tölur og yfirlit og tilboð og annað slíkt, sem væri algerlega pappírseyðsla og prentsvertueyðsla að vera að prenta sem fskj. handa alþm. í heild. Ef n. óskar eftir því að fá prentaða skýrslu Páls Bergþórssonar, þá er sjálfsagt, að það sé gert. En ég vek athygli á því, sem ég sagði, að það stendur til að haldin verði vísindaleg ráðstefna um þessi mál í vetur. Hún er haldin með styrk og atbeina ríkisstj., sem ég vonast til, að Alþ. taki undir. Það er sjálfsagt, að skýrslur þeirrar n. komi til athugunar og verði birtar og allir fái aðgang að þeim. Án þess að ég sé að gera lítið úr þessum skýrslum Páls Bergþórssonar, eru þær bollaleggingar sannast að segja, sem segja lítið annað um það vandamál en það, sem við vitum, að það getur verið von á hafís. Og samkvæmt síðustu skýrslum virðist það vera svo, að meiri hætta sé á hafís núna en í meðalári. Þetta er óumdeilt og á þetta þarf ekki að eyða mörgum síðum til þess að sanna. Þetta er upplýst í málinu.