27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í haust hefur hvað eftir annað verið talað um að reyna að koma betri skipan á störf Alþ. og þá er einkanlega vikið að því, að fsp. og umr. um þær væru mjög komnar úr böndum. Nú skulum við viðurkenna, að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða – í þessu tilfelli hafíshættu — og hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að leysa það mál eins og skyldi. En það eru auðvitað fullir möguleikar til þess að koma á umr. um það mál með því að bera fram lagafrv. í hvorri d. sem er eða þáltill. og yrðu væntanlega engin vandkvæði á því að fá þau mál rædd. A.m.k. sjáum við varðandi lagafrv., að þau eru tekin fyrir alveg jafnóðum. Sannleikurinn er sá, að fsp.–umr. eru farnar að gera ómögulegt að ræða um þáltill. hér í hv. Sþ. Þetta vita allir þm.

Ég efast mjög um, að það samrýmist meðferð eða ákvæðum þingskapa að fresta fsp.–umr., eins og hér hefur verið gert, eftir till. eins þm., þegar búið er að veita lögmæt svör við fsp. Þá vill hann sjálfur fá færi á að kynna sér það mál betur, sem hann var búinn að starfa að nokkra mánuði í sumar og koma fram um það frekari umr. hér. Það er mjög virðingarverð samvizkusemi af þm. að leggja þó loksins einhverja vinnu í málið, ég viðurkenni það. En hann getur komið því að með því að bera fram till., alveg eins og hann getur sjálfur fengið prentaðar þær viðbótar grg., sem hann telur vanrækslu af ríkisstj. að hafa ekki prentað, með því að bera fram nál. eða bera fram þáltill., hvers efnis sem hann vill, eða lagafrv. Hér eru þingstörf gersamlega að fara úr böndum, ef þessi háttur á að vera á og menn eru að gera alvarlegt mál að hreinu gamanmáli hér í þingi með þessari hegðun.