04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (3703)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans, sem að vissu leyti voru afar fróðleg og upplýstu margt, sem ekki var ljóst áður. Þó vonaði ég, að hann mundi geta svarað annarri fsp. betur og það er í sambandi við uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum, því að það mun vera rétt, að rammaáætlun um þessa uppbyggingu hafi verið til a.m.k. síðan í júní 1967. A.m.k. er svo að sjá í málgagni Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi, þar sem þeir segja, að rammaáætlanir séu þá til um uppbyggingu atvinnulífsins og einnig áætlanir um aðra þætti Vestfjarðaáætlunarinnar í menningar– og félagsmálum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða einstök atriði, sem hér hafa komið fram, en ég legg ríka áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur til þess að hraða öllum framkvæmdum í því máli, þannig að Vestfirðingar geti haft fulla og trygga vinnu og skapað þjóðinni verðmæti.