11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

72. mál, innheimta viðbótarskatta og skattsekta

Fyrirspyrjandi (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. svör hans, enda þótt fsp. væri ekki svarað að því, er tekur til ársins í ár. Þó tel ég, að það hafi komið fram, hvernig hlutfallslega gengur að innheimta þessa viðbótarskatta og sektir og tel því, að eftir atvikum sé það fullnægjandi. En um leið vildi ég segja, að ég teldi, að æskilegt væri, að framvegis væru einnig gefnar upplýsingar um það, hvernig innheimtan gengur á slíkum gjöldum um leið og gefið er yfirlit um álagninguna.