11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3731)

267. mál, Fiskimálaráð

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég get fallizt á það með hv. fyrirspyrjanda og hv. 4. þm. Vestf., að sá dráttur, sem orðið hefur á fyrstu samkomu Fiskimálaráðs, er til baga. En ég var þeirrar skoðunar þegar í upphafi, að þar sem fyrir lágu skýr svör allra aðila um, að þeir mundu tilnefna í ráðið og vildu taka þátt í því, þótt einhver dráttur yrði á endanlegri afgreiðslu þessara aðila, að þá bæri mér ekki að hefja störf þessa ráðs með því að nota mér heimild 7. gr. Ég hefði talið það illa af stað farið, ef taka hefði átt þann rétt af aðilum, sem hafa yfir þúsundum meðlima að ráða, jafnvel tugþúsundum meðlima, ef taka hefði átt þann rétt af þeim, einungis vegna þess, að yfir sumartímann er erfitt að ná saman fundum til að taka slíkar ákvarðanir. Ég hefði talið það rangt af stað farið. Það hefði jafnvel kippt hugsanlegum samvinnugrundvelli og samvinnuvilja burtu, sem þó er nauðsynlegt að sé í slíku ráði. Ef þessi réttur hefði verið tekinn af, þó að formgallar hefðu verið á því, að aðilar gætu endanlega gengið frá tilnefningu sinna fulltrúa, er hætt við, að svo hefði orðið. Það voru það mikilvægir aðilar og stór fjöldasamtök, sem þarna áttu hlut að máli og dróst hjá að tilnefna, að ég hefði talið, að starfsgrundvöllur ráðsins væri mun veikari, ef ráðh. hefði gripið þar inn í til þess að skikka sjálfur fram fulltrúa, án þess að samráð yrði við þessa aðila haft.