12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í D-deild Alþingistíðinda. (3767)

81. mál, landhelgismál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki deila við hæstv. ráðh. um það, hvort sjónarmið flm. hafi haft þýðingu eða ekki til túlkunar málsins og skilnings á því, en ég tel þó, að í því hafi verið sanngjörn gagnrýni á það, að Landhelgisgæzlan væri ekki í eins góðu lagi og við mundum líklega flestir æskja. En nóg um það. Ég þakka samkvæmt venju hæstv. ráðh. fyrir svörin og þær upplýsingar, sem í þeim fólust.

Sérstaka athygli mína vöktu upplýsingar hans um gagnsemi þyrilvængjunnar í þjónustu landhelgisgæzlunnar. Það er tiltölulega nýtt að nota þyrilvængju til þessara starfa og mér þykja ummæli hæstv. ráðh. varðandi þyrilvængjuna í þjónustu Landhelgisgæzlunnar benda í þá átt, að ástæða væri til að stíga þar annað skref í framhaldi af því, sem þegar hefur verið stigið, sem sé í þá átt að auka notkun þyrilvængjanna í þessari þýðingarmiklu þjónustu lands og þjóðar.