12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (3771)

82. mál, olíumál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Sama gildir um þetta mál og það, sem við ræddum rétt áðan. Það er fsp. borin fram á þskj. 102 af Haraldi Henrýssyni, meðan ég sat ekki á þingi. Hans sjónarmið varðandi þessa fsp. eru þau sem nú skal greina:

Tilefni fsp. er það, að snemma á þessu ári skipaði viðskrn. n. til athugunar á kostnaði á dreifingu og birgðahaldi olíuvara og til þess, hvort ekki mætti ná meiri hagkvæmni í þeim málum. Nú er það vitað mál, að kostnaður við dreifingu og birgðahald olíuvara er hér á landi óeðlilega hár, fyrst og fremst vegna hins margfalda kerfis. Það er brýnt hagsmunamál alls almennings í landinu, að svo lengi sem þetta óþarfa kerfi er við lýði, verði þó allt gert, sem hægt er, til þess að draga úr þeim kostnaði, sem því fylgir, svo mikilvægar, sem umræddar eldsneytisvörur eru. Mér er tjáð, að cif–verð að viðbættum opinberum gjöldum fyrir gasolíu nemi um það bil 65–68% af heildarverðinu til neytenda. Sést af því, að dreifingarkerfið tekur til sín allríflegan skerf.

Fsp. fjallar einnig um það, hvort nokkrar athuganir hafi verið gerðar á því, hvort Íslendingum væri hagkvæmt að taka sjálfir olíuflutninga til landsins í sínar hendur. Í nokkur ár höfum við ekkert skip átt til slíkra flutninga eða síðan Hamrafell, sem var eign skipadeildar SÍS, var selt úr landi. Rússar, sem selja okkur mest alla olíuna, munu hafa boðið eitthvað hagstæðari flutningagjöld, en ekki er mér kunnugt um, hvort þau hagstæðu gjöld hafa verið til langframa. Hitt hlýtur hverjum að vera ljóst, að því fylgir mikið óhagræði og öryggisleysi að þurfa að vera upp á aðra kominn að öllu leyti um flutninga á eldsneyti til landsins. Það hlýtur að vera okkur keppikefli að geta í framtíðinni séð sjálfir um þessa aðdrætti til landsins og að því ber að hefja undirbúning hið fyrsta.

Vona ég svo, að hæstv. ráðh. svari þessari fsp.