12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (3772)

82. mál, olíumál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti.

1. liður fsp. hljóðar þannig:

„Hvað líður störfum n. á vegum viðskrn., sem athuga skyldi fyrirkomulag dreifingar og birgðahalds á olíuvörum?“

Í lok febr. s.l. varð það að samkomulagi milli viðskrn., olíufélaganna og viðskiptabanka olíufélaganna, að skipuð yrði n. til þess að athuga fyrirkomulag og dreifingu á birgðahaldi olíuvöru. Í n. voru tilnefndir eftirtaldir menn: Svavar Pálsson löggiltur endurskoðandi, tilnefndur af olíufélögunum, Helgi Bachmann viðskiptafræðingur, tilnefndur af Landsbanka Íslands, Loftur Guðbjartsson fulltrúi, tilnefndur af Útvegsbanka Íslands og Kjartan Jóhannsson verkfræðingur, tilnefndur af viðskrn. og var hann jafnframt skipaður formaður n. Eins og áður segir var verkefni n. að athuga fyrirkomulag dreifingar og birgðahalds olíuvöru og í því sambandi að athuga, hvort og á hvern hátt væri unnt að auka hagkvæmni á þessu sviði og þá m.a. hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til lækkunar á kostnaði við innflutning, birgðahald og dreifingu á olíuvöru með endurskipulagningu rekstrarins og auknu samstarfi olíufélaganna.

N. hóf störf í marz og skilaði áliti til rn. í byrjun októbermánaðar s.l. og stóðu nm. allir að álitinu, nema Svavar Pálsson. Hann skrifaði undir álitsgerðina með fyrirvara og tilvísun í sér aths. varðandi einstök atriði. Í áliti n. er annars vegar fjallað um aðgerðir til þess að auka hagkvæmni í dreifingu olíuvöru við núv. innflutningsaðstæður og hins vegar um framtíðarþróun innflutningsaðstöðu. Til að tryggja aukna hagkvæmni í innflutningi og dreifingu við núverandi innflutningsaðstæður, leggur n. til, að innflutningur, strandflutningar og rekstur birgðageyma verði á einni hendi og gerir n.till. sinni, að olíufélögin stofni hlutafélag, sem sjái um innkaup á gasolíu, fuelolíu og benzíni, annist strandflutninga og eigi og reki alla innflutnings– og birgðageyma. N. ætlast til þess, að hið nýja félag selji aðeins til olíufélaganna þriggja, og enn fremur telur n. eðlilegt, að hlutafé hins nýja félags skiptist milli olíufélaganna í svipuðum hlutföllum og endursala benzíns, gasolíu og fuelolíu skiptist nú á milli þeirra. Þá telur n., að eðlilegt sé, að skipulag olíuviðskiptanna sé þannig, að sparnaður í rekstri sé keppikefli fyrir olíufélögin, t.d. með því móti, að þau fái að halda að einhverju leyti þeim sparnaði, sem þau öðlast með endurbótum í rekstri. N. telur, að stefna beri að fækkun smásölustöðva og leggur áherzlu á, að olíufélögin framkvæmi hana með samkomulagi sín á milli. Enn fremur er það álit n., að kanna beri betri nýtingu olíuflutningabifreiða á grundvelli heildaryfirlits um notkun úr geymarými hvers notanda og íhuga beri hugsanlega hagkvæmni af því, að flutningar með bifreiðum á smásölustöðvar séu á einni hendi. Minni hl. er hér mótfallinn því, að hið nýja olíufélag geri nokkuð annað en að sjá um innflutning, birgðahald og strandflutninga. Loks leggur n. til, að öryggisbirgðir í landinu verði auknar.

Að því er varðar framtíðarþróun innflutningsaðstöðu telur n., að stefna beri að því að reisa á Reykjavíkursvæðinu innflutningsstöð, er tekið geti við förmum úr allt að 70 þús. tonna skipum. Við val olíuinnflutningshafnar og framkvæmdir við olíustöðina sé höfð í huga nýting hennar í sambandi við hugsanlega byggingu olíuhreinsunarstöðvar á sama stað. Með því að nota stærri skip til innflutnings á olíuvörum telur n., að fást muni lægri flutningsgjöld. Til að standa undir fjármögnun nýrra olíuinnflutningsstöðva leggur n. til, að stofnaður verði sérstakur fjárfestingarsjóður. Tekna í sjóð þennan telur n., að afla megi annars vegar með sérstöku gjaldi á umræddar olíuvörur og hins vegar með því að láta hluta af farmgjaldasparnaði vegna notkunar stærri skipa, þegar stöðin hefur verið tekin í notkun, renna í sjóðinn.

2. liður spurningarinnar hljóðar þannig: „Hafa verið gerðar eða eru á döfinni ráðstafanir til lækkunar á kostnaði við dreifingu og birgðahald olíuvara?“

Till. n., sem ég hef verið að skýra frá, miða allar að lækkun dreifingarkostnaðar á olíuvörum og eru þær nú í athugun hjá ríkisstj. Þá má og minna á, að olíuvörur hafa um langan aldur verið háðar verðlagsákvæðum og má því segja, að eftir þeirri leið sé stöðugt unnið að sem lægstum dreifingarkostnaði á olíuvörum.

3. spurningin er: „Hafa verið gerðar athuganir á því, hvort Íslendingum væri hagkvæmt að taka í sinar hendur olíuflutninga til landsins?“

Því er til að svara, að mér er ekki kunnugt um, að slíkar athuganir hafi verið gerðar nýlega.