12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í D-deild Alþingistíðinda. (3774)

82. mál, olíumál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tók það fram áðan, að þessi mál væru í athugun hjá ríkisstj. Það eru ekki fullir tveir mánuðir síðan ríkisstj. fékk þetta nál., sem er raunar heil bók og mikið verk að skoða frá öllum hliðum, en hv. þm. er öllum kunnugt um, að í mörg horn hefur verið að líta hjá ríkisstj. og þm. á undanförnum vikum, svo að tími hefur ekki unnizt til þess að grandskoða þetta mál. En það mun verða gert og þær ákvarðanir teknar snemma á næsta ári um þær endurbætur á olíudreifingarmálunum, sem ráðlegar þykja.

En fyrst ég á annað borð þurfti að fara í ræðustólinn til þess að gera þessa aths., vildi ég í tilefni af fyrri ræðu hv. þm. gefa nokkrar upplýsingar um olíuverðið hér á landi og í nokkrum nágrannalanda til þess að eyða þeim misskilningi, sem er mjög algengur og kom fram í fyrri ræðu hv. þm., að verð á olíuvörum sé mun hærra hér á landi, en annars staðar og sé ástæðan m.a. óhagkvæmt dreifingarkerfi hér. Með þessu er ég ekki að segja, að ekki geti ýmislegt staðið til bóta í olíuviðskiptunum á Íslandi og olíuflutningum til landsins. Þvert á móti tel ég, að ýmislegt mætti gera þar til endurbóta og að því verður unnið, en engu að síður er það ekki rétt, að verðlag á olíuvörum sé notendum eða neytendum sérstaklega óhagstætt hér. Ég skal nefna sem dæmi verð á gasolíu frá tankbíl. Hér verður auðvitað miðað við nettóverð, þ.e.a.s. söluverð að frádregnum sköttum til þess að tölur séu sambærilegar, því að skattarnir eru misjafnir í hinum ýmsu löndum. Verð á gasolíu frá tankbíl er hér á Íslandi 2.94 kr. nettó og það er sama verð og lægsta verð í Noregi, en verð í Noregi er upp í 4.05 kr. Verðið hér er nettó sama verð og það lægsta í Noregi, en þar eru mörg verð eftir ýmsum aðstæðum og ýmsum landshlutum og fer allt upp í 4.05 kr. Í Danmörku er verðið nettó 2.95 kr., þ.e.a.s. 1 eyri hærra og í Svíþjóð er það frá 3.01 kr. upp í 3.86 kr. Í Hollandi er það 3.85 kr., svo að verð á gasolíu frá tankbíl hér er með því hagstæðasta, sem gerist í nálægum löndum.

Verð á benzíni frá dælu er hér á Íslandi 4.20 kr., og er hér um að ræða 93 oktana benzín. Í Noregi er selt 90 oktana benzín og þar er verðið frá 5.30 upp í 5.70 frá dælu. Í Danmörku er verðið 4.55. Í báðum þessum löndum er það hærra en hér. Í Svíþjóð er verðið frá 5.45 upp í 5.80, allmiklu hærra en hér. Í Bretlandi er það hins vegar lægra. Og ef ég tek enn fremur verð á léttri fuelolíu frá tankbíl, þá er það á Íslandi 2.08 kr. á lítra, en í Noregi er það frá 2.34 kr. á lítra og upp í 3.30 kr. Lítraverðið í Svíþjóð, lægsta verðið, er nokkru lægra, 1.94, en upp í 2.73 kr. Og ef um þunga fuelolíu er að ræða, þá er verðið hér á lítra 1.86 kr. Í Svíþjóð er það frá 1.77 kr. upp í 2.56 kr., og í Englandi er það 2.56 kr. Ég hef því miður ekki lítraverðið í Noregi, heldur aðeins verð á tonni, en verð á tonni af þungri fuelolíu er hér 1.945 kr., en í Noregi frá 2.066 kr. upp í 2.190 kr. Þessar tölur ættu að taka af öll tvímæli um það, að jafnvel þótt ýmislegt gæti eflaust staðið til bóta í olíudreifingunni og kostnaður við hana gæti orðið minni, sem vonandi verður raunin á, ef skipulagsbreytingar verða gerðar, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að olíuverðlag og benzín verðlag hér á landi er ekki óhagstætt, miðað við það, sem gerist í nálægum löndum.