13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

1. mál, fjárlög 1969

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því, að í nál. okkar á bls. 5 er sagt Áburðarverksmiðja ríkisins, en á að sjálfsögðu að vera Áburðarverksmiðjan h.f. og í síðara tilfellinu, þegar vitnað er til sama, á að vitna til Áburðarsölu ríkisins. Þetta leiðréttist hér með.

Áður en ég vík máli mínu að fjárlagafrv. fyrir árið 1969 og fjárlagaafgreiðslunni, vil ég byrja á því fyrir hönd okkar minni hl. fjvn. að þakka hv. form. n. og nm. öðrum fyrir samstarfið í n. Það er svo, að þó að leiðir skilji, þegar til afgreiðslu kemur á fjárlagafrv., þá höfum við ekki undan samstarfinu að kvarta í n. af hálfu nm. yfirleitt, og vil ég þakka kærlega fyrir það.

Eins og venja er til, hefur meiri hl. gert grein fyrir því og frsm. hans, hv. 2. þm. Vesturl., fyrir þeim till., sem fluttar eru sameiginlega af fjvn. eða af meiri hl. í umboði n. Fyrirvari okkar minnihlutamanna fyrir flutningi þeirra till. er sá sami og venja er til um, að við höfum þrátt fyrir það óbundnar hendur um fylgi við hverja einstaka þeirra og till. í heild. Hins vegar munu þær vera með þeim hætti nú, að við munum fylgja þeim flestum, enda er um þær að segja, að þær eru tiltölulega mjög áhrifalitlar um afgreiðslu fjárl. Fjvn. sem slík flytur nú minna af till. til breytinga á fjárlagafrv. heldur en oftast áður, og flestar eru þær í smáum stíl. Þær breytingar, sem hins vegar verða á fjárlagafrv., frá því að það var lagt fram hér á hv. Alþ. í okt. s.l., eru bundnar við þau áhrif, sem gengisbreytingin hefur á afgreiðslu fjárl. og ég kem síðar að.

Eins og áður mun hafa verið að vikið hér á hv. Alþ. af mér og fleiri minnihlutamönnum, þá hefur hæstv. ríkisstj. haft 21/2 milljarð á nokkrum árum umfram þær tekjur, sem hún reiknaði með að fá samkv. fjárl. Þrátt fyrir þetta má segja það með sanni, að hlutur verklegra framkvæmda hafi orðið minni með hverju árinu, sem hefur liðið, af hlutfalli fjárlagafrv. og er nú hvað minnstur. Reksturinn hefur ætíð orðið fyrirferðarmeiri frá ári til árs. Sú stefna, sem hér hefur verið fylgt í efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum, verðbólgustefnan, hefur orsakað það, að hlutur rekstursins hefur vaxið með hverju ári ásamt útþenslu í ríkiskerfinu og hlutur verklegra framkvæmda rýrnað að sama skapi. Nú mun vera um það spurt í sambandi við afgreiðslu fjárl. að sinni, eins og oft hefur verið gert áður, hvernig á því stæði, að við í stjórnarandstöðunni legðum þá ekki fram sparnaðartill., fyrst við höfðum út á eyðsluna og útþensluna að setja hjá hæstv. ríkisstj. Ég vil við þessa umr. endurtaka það, sem gert hefur verið hér við fjárlagaafgreiðslu mörg undanfarin ár, að það er stefna okkar í stjórnarandstöðunni að leggja ekki til óraunhæfar till. eða till., sem ekki hefur verið unnið að áður að athuga möguleika á, hvort framkvæmanlegar eru. Ég hef oft lýst því yfir fyrir hönd Framsfl. hér úr þessum ræðustól í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, að nauðsyn bæri til að endurskoða allt ríkiskerfið og það eitt væri raunhæft til þess af sparnaði og hagsýni í ríkiskerfinu mætti verða. Þessu lýstum við mjög greinilega við fjárlagaafgreiðslu á s.l. ári og bentum á það sem leið, að tekið væri upp samstarf í fjvn. til þess að vinna þetta verk. Það var skoðun okkar stjórnarandstæðinga sameiginlega, að það bæri nauðsyn til, ef ætti að ná árangri eða endurskipuleggja ríkiskerfið og spara eitthvað í ríkisrekstrinum, að vinna það verk með góðum undirbúningi, þar sem reynt væri að ná samstöðu á milli stjórnmálaflokka. Það sýndi sig á þinginu í fyrravetur, þegar gerð var breyting á fjárl. með l. um sparnað í ríkisrekstrinum, hvað fráleitt er að hafa handahófskennd vinnubrögð um slíka afgreiðslu. Ég sýndi fram á það í þeim umr., að þær till. margar, sem þá voru kallaðar sparnaðartill., mundu ekki skila sér, vegna þess að það væri ekki búið að vinna þann nauðsynlega undirbúning, sem þurfti til þess, að þær væru framkvæmanlegar. Hins vegar var það ljóst, að það var hægt að lækka útgjöld ríkisins með því að taka lán til framkvæmda, og það hefur komið á daginn, að sparnaðurinn, sem átti að skila sér á árinu 1968, mun ekki gera það, en hins vegar munu fjárveitingar, sem voru felldar niður til framkvæmda, að sjálfsögðu ekki verða greiddar út. Það skiptir líka verulegu máli, hvernig að því er staðið að undirbúa og vinna að því að reyna að draga úr kostnaði ríkisins. Þess vegna fannst okkur í stjórnarandstöðunni brýna nauðsyn bera til að gera það með sameiginlegu átaki. Ég vil nefna hér tvö dæmi, sem sanna það, að það er ekki sama, hvernig vinnubrögðum er hagað, þegar á að fara að endurskoða ríkiskerfið til þess að reyna að draga úr kostnaði eða skipuleggja það á betri hátt.

Fyrra dæmið, sem ég nefni, er um forstjórabifreiðarnar. Ríkisstj. hafði sett n. til þess að athuga þetta mál. En hverjir eru í n.? Mennirnir, sem eiga að athuga það, hvort ekki er skynsamlegt að breyta reglum um forstjórabifreiðar eða leggja þær niður, eru allt menn, sem hafa slík hlunnindi sjálfir. Er ástæða til, að þessir menn túlki rétt sjónarmið í þessu máli? Ég er ekki að segja það, að þessir menn séu óhæfir til starfa frekar en aðrir menn, og á sumum þeirra hef ég mestu mætur. En til að vinna þetta verk finnst mér þeir vera of einsýnir.

Ég vil nefna annað dæmi. Það urðu hér fyrir nokkrum árum verulegar umr. um rekstur Skipaútgerðar ríkisins. Forstjóri Skipaútgerðar ríkisins benti á það í umr. við fjvn. og víðar, að nauðsyn bæri til að endurnýja skipastólinn, ef reksturinn ætti að vera sæmilegur, þá yrði að breyta hér til. Það var ekki á þetta hlustað. Hins vegar var tekin upp endurskoðun á starfi Skipaútgerðar ríkisins og rekstri hennar. Og ríkisstj. skipaði nokkra ágæta menn úr sínum hópi, þ.e. úr hópi flokksmanna sinna, til þess að vinna þetta verk. Og niðurstaðan af þessu verki varð svo sú, að horfið var að því að taka upp till. forstjórans um það að endurnýja skipakostinn. En jafnframt þessu var sett upp stjórnarnefnd fyrir Skipaútgerð ríkisins. Ég var nýlega að athuga þetta mál og af því m.a., að ég hafði komið að því hér í ræðu, að við settum upp stjórnarnefnd fyrir Landssímann. En hvað skeður svo með stjórnarnefndina hjá Skipaútgerð ríkisins? Þessir tveir menn auk forstjórans hafa hálf forstjóralaun hvor eða 139 þús. árið 1967 plús 10 þús. í bílastyrk. Ég verð að játa það, að þegar ég virti þetta fyrir mér, kipptist ég við, þegar ég var búinn að leggja til, að við settum stjórnarnefnd fyrir Landssímann. Ef það ætti að greiða þessum mönnum hálf forstjóralaun fyrir að sitja þarna í stjórn, þá mundi ég nú verða að taka till. mína um stjórn fyrir Landssímann aftur. Þetta eru dæmi upp á það, að það er ekki nóg, að ríkiskerfið sé endurskoðað, heldur verður að gera það með þeim hætti, að það sé stefnt að því að breyta skipulaginu. Ég er sannfærður um það, að það er ekki hægt að koma við verulegum sparnaði eða hagkvæmni í rekstri ríkisins nema með skipulagsbreytingu víða. Og það er ekki hægt að gera rekstur ríkisins eðlilegan nema með skipulagsbreytingu, því að auðvitað verða alltaf að koma ný verkefni og nýir liðir, sem verður að hlusta á. Þess vegna verður að gera skipulagsbreytingu á kerfinu, ef það á ekki að verða hreint skrímsli. En það verður að gera það með þeim hætti, að það sé ekki verið að láta tvo embættismenn fá aukastörf, sem veita þeim hálf laun, heldur sé unnið skipulega og hyggilega að þessu. Þess vegna leggjum við fram í okkar nál. ábendingar um ýmsa liði og undirstrikum það, að flokkar okkar eru tilbúnir til samstarfs um það að halda áfram á þeirri braut, sem lagt var út á s.l. sumar með endurskoðun á ríkiskerfinu. Það eru rétt og eðlileg vinnubrögð, og við viljum, að þau séu viðhöfð. Við viljum líka undirstrika það, að embætti og stofnanir í nútímaþjóðfélagi eru meira að kostnaði heldur en lögin ein. Á s.l. ári var spurt hér á hv. Alþ. um leiguskilmála ríkisins á húsnæði, sem ríkið hefur leigt. Þessa skýrslu höfum við fengið um þetta, og þessi skýrsla sannar okkur, að leiga þessa húsnæðis er orðið alveg geysilegt atriði í kostnaði við embættið. Í leigu fyrir húsnæði fyrir eitt embætti eru komnir leiguskilmálar, sem kveða á um yfir 1 millj. kr. á ári. Hér er um geysilegar fjárhæðir að ræða. Þetta eru hæstu leigumálarnir, en við verðum að gera okkur grein fyrir því, hv. alþm., að ef við ætlum okkur að hafa aðhald í ríkisrekstrinum, verðum við að gera stofnanirnar stærri og færri. Þjóðin kemst ekki fram úr þessu vandamáli annars.

Ég skal ekki fara að ræða mikið hér um einstaka staði í þessu tilfelli, en það er geysileg breyting, sem orðið hefur á kostnaði við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði á síðustu árum. Þegar bæjarfógetaskiptin urðu, var keypt íbúðarhús af fyrrv. bæjarfógeta, sem kostaði 4.7 millj. kr., og nú er leigt húsnæði fyrir embættið, sem kostar á 2. millj. á ári. Enda er það svo, að kostnaður við þetta embætti hefur meira heldur en tvöfaldazt síðan þessi breyting varð á, þó að íbúðarhúsinu sé algerlega sleppt. Ég held líka, að brýna nauðsyn beri til að endurskoða embættiskerfið og rekstur hinna ýmsu embætta meira heldur en gert er. Í sambandi við þessa fjárlagaumr. kynnti ég mér fjárhagsáætlanir frá embættum víðs vegar um landið, vegna þess að mér fannst, t.d. þegar ég athugaði fjárhagsáætlun bæjarfógeta- og sýslumannsembætta, gæta mjög mikils ósamræmis. Það væri ekki óeðlilegt, þó að í þessum embættum færi kostnaðurinn að verulegu leyti eftir stærð þeirra og þeirra verkefna, sem þau vinna að. Þetta fannst mér hins vegar ekki vera það, sem sýndi sig við að skoða undirbúning á þessum fjárhagsáætlunum þeirra. T.d. vil ég nefna sýslumannsembættið á Patreksfirði, sem ég hélt, að væri nokkuð stórt embætti. Það eru nokkur kauptún þar. Þetta embætti kostar ekki nema 1 millj. kr., en hins vegar kostar bæjarfógetaembættið á Siglufirði miðað við fjárhagsáætlun 1969 1.8 millj. kr. Við samanburð á þessum tveim stöðum þykir mér kostnaðurinn á Siglufirði vera óeðlilega mikill, ef kostnaðurinn á Patreksfirði er eðlilegur, sem verður að telja. Sama var að segja um bæjarfógetaembættið á Sauðárkróki og sýslumanninn í Skagafjarðarsýslu. Ef það embætti var borið saman við hliðstæð embætti eða minni eins og Siglufjörð, er það tiltölulega ódýrt embætti, eða kostar 1.4 millj. kr. Hins vegar kostar sýslumannsembættið í Vík, sem ég hafði haldið af minni þekkingu að væri mikið minna embætti heldur en Sauðárkróksembættið, 1.3 millj. kr. Ég nefni þessi fáu dæmi til þess að sýna það, að það er nokkurn veginn sama, hvar gripið er niður í ríkiskerfinu. Þegar farið er að skoða það almennt, gætir þar mjög mikils ósamræmis, og nauðsyn ber til, að það verði endurskoðað og endurskipulagt. Enda er það svo, að það hefur þróazt að formi til eins og það varð í upphafi og hefur aðeins hlaðið utan á sig mismunandi mikið, stundum eftir því hvað þeir hafa verið fyrirferðarmiklir, sem í embættunum hafa setið. Sama er að segja um hinar ýmsu stofnanir, sem hafa orðið til á vegúm ríkisins, og mín reynsla er nú sú, eftir að hafa kynnt mér þetta nokkuð, að einmitt hjá þeim stofnunum, sem hafa orðið til á hinum síðari árum, gætir miklu minni festu heldur en í gömlu embættunum og stofnununum, þó að nokkuð muni þetta hafa gengið úr skorðum hin síðustu ár, einnig hjá þeim. Eins og oft hefur verið að vikið og ég vil undirstrika, þá er það svo, að eftir því sem rekstur ríkiskerfisins verður fyrirferðarmeiri, eftir því verður minna til þess að ráðstafa til framkvæmda og uppbyggingar í landinu, enda hefur það sýnt sig, að þróun hinna síðari ára hefur orðið öll á þennan veg. Þegar við lítum aftur til góðu áranna, kemur það á daginn, að við eigum verulegan arf frá þeim, sem ekki er fólginn í því, sem venja er um arf, að við höfum safnað auði, sem við getum notað, þegar erfiðar gengur, heldur er það gagnstæða, því að sú stefna hefur verið tekin upp hjá núverandi valdhöfum í ríkum mæli og færzt í aukana ár frá ári að framkvæma í verklegum framkvæmdum með lánsfé. Þessar skuldatölur eru orðnar verulegar fjárhæðir. T.d. mun Vegasjóður skulda nú um 500 millj., hafnargerðirnar um 89–90 millj., ef teknar eru þessar venjulegu hafnir og tekið með það, sem unnið var umfram fjárveitingar á yfirstandandi ári, landshafnirnar 243 millj., sjúkrahús, menntaskólar, tækniskóli og kennaraskóli um 83 millj., vegna rafmagnslínuframkvæmda um 14 millj. og flugvellir um 100 millj. Hér er um að ræða fjárhæðir, sem eru rúmur milljarður. Þetta er ekki tæmandi upptalning. T.d. hef ég ekki tekið hér með Íþróttasjóð og Félagsheimilasjóð, sem venjulega hefur verið talið, að ekki ætti að taka með, vegna þess að ríkið legði til þeirra, þegar fé væri á fjárl. En þegar tekið er tillit til l. og þeirrar hefðar, sem skapazt hefur um styrkveitingar eða aðstoð úr þessum sjóðum, eru þessar skuldir um 100 millj. kr., og þeim, sem eiga þarna innstæður og eiga í erfiðleikum með sínar framkvæmdir og verða að greiða háa vexti, finnst, að ríkið skuldi sér þessar fjárhæðir. En auk þess hefur það svo gerzt á þessum síðustu árum, að ríkissjóður sjálfur hefur verið rekinn með greiðsluhalla, og hefur myndazt hjá honum veruleg skuldasöfnun, svo sem gerzt hefur á hlaupareikningi í Seðlabankanum, sem mun hafa verið um 800 millj. mánaðamótin október–september, auk þess sem ríkissjóður hefur tekið alls konar lán til framkvæmda á þessum síðustu árum. Skuldaaukning hjá ríkissjóði á árinu 1968 nemur a.m.k. 70–80%, og verðtryggðu skuldabréfin, sem ríkissjóður gaf út fyrir nokkrum árum, 1964 fyrst, munu hafa hækkað í verði yfir 50%. Þessum bréfum voru tryggð þau forréttindi, að þau eru ekki skráð á nafn og munu sennilega ekki nema að litlu leyti vera fram talin, en þau gefa eigendum sínum svona góða vexti, að þau eru á fjórða ári eftir að þau voru keypt komin yfir 54% í hækkun. Það, sem einkennir allt þetta tímabil hæstv. ríkisstj., er verðbólgan og stjórnleysið, sem yfirleitt hefur verið í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum þjóðarinnar. Á þetta hefur oft og mörgum sinnum verið bent, en dæmin sanna með hverju árinu sem líður, að þær viðvaranir hafa ekki verið að ástæðulausu.

Þau málefni, sem íslenzka þjóðin ræðir meira nú heldur en nokkru sinni fyrr, er útlitið í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Aldrei hefur horft jafnkvíðvænlega sem nú um langt skeið, a.m.k. um atvinnumálin, og sérstök ástæða var til að taka efnahagsog atvinnumálin til sérstakrar meðferðar á þessu ári. Það, sem bar nauðsyn til og fyrst og fremst átti að snúa sér að í sambandi við útlitið í efnahagsmálunum á yfirstandandi ári, þegar fór að líða á það, var að leita eftir samstarfi allra stjórnmálaflokkanna í landinu um lausn vandans. Ríkisstj. lét það boð út ganga og fór fram á það við stjórnarandstöðuflokkana, að hún tæki þátt í viðræðum um lausn efnahagsmálanna. Til þessara viðræðna mætti stjórnarandstaðan strax og þær voru upp teknar. En það sýnir betur en nokkur annað, að stjórnarflokkarnir meintu ekkert með þessum viðræðum, að þeir skyldu mæta til þeirra án þess að hafa undirbúið þær á nokkurn hátt. Þeir mættu til viðræðnanna eins og barn í skóla; sem var ólesið. Þeir höfðu ekki látið gera þær athuganir hjá stofnunum sínum eins og Efnahagsstofnun, Seðlabanka og hagsýslustofnun, sem þurfti að leggja fram til þess að sýna, hvert ástandið væri í efnahagsmálum þjóðarinnar, strax þegar umr. hófust. Það var öllum ljóst og ekki sízt þeim, sem gerst til þekkja, að það var ekki hægt að ræða efnahagsmálin nema gera sér grein fyrir ástandinu. Enda fór það svo, að það fóru 9–10 fyrstu samtalsfundir stjórnmálaflokkanna í það að safna gögnum og fara yfir þau. Þetta er verk, sem átti að liggja fyrir, svo að strax væri hægt að snúa sér að því að leita eftir því, hvort sameiginlegur vilji var til lausnar á vandamálunum.

Hitt atriðið, sem ég ætla að nefna, sem sannar það, að stjórnarflokkunum gekk ekki það til, að þeir ætluðust til samkomulags, var stjórnmálaályktun Alþfl., sem gerð var meðan þessar viðræður stóðu yfir. Þar var því slegið föstu, að áframhald skyldi verða á núverandi stjórnarsamstarfi, en ekki minnzt á þá hugmynd, sem allir vissu, að hlaut að verða niðurstaða, ef samkomulag næðist á milli stjórnmálaflokkanna, að þjóðstjórn yrði mynduð. Það var ekki á þá hugmynd minnzt, heldur gefin bein yfirlýsing um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Þetta sannaði það, að stjórnarflokkarnir ætluðu sér ekki að ná neinu samstarfi með þessum viðræðum. Í hvaða tilgangi þær hafa verið gerðar, er nú flestum óljóst enn þá. En eitt er öruggt, og það er það, að það átti ekki að ná neinni samstöðu, enda var ekki til staðar hjá þeim, þegar var farið að þreifa þar á, nein tilslökun á þeirri stefnu, sem þeir höfðu fylgt. Og það var öllum ljóst, að ekki gat um samkomulag orðið flokka á milli nema yrði um tilslökun að ræða frá hendi þeirra, sem voru að ræðast við.

Nú hefur nokkuð verið um það rætt, eins og venja er til hjá blöðum ríkisstjórnarmanna, að stjórnarandstaðan hafi ekkert til mála að leggja, og hún hafi engin úrræði til þess að leysa vandann. Í sambandi við þennan þátt vil ég minna á nokkur atriði, sem fram komu hjá stjórnarandstöðunni einmitt sem till. til lausnar á vandamálunum. Stjórnarandstaðan lagði til, að það, sem stefnt væri að og tryggja yrði með lausn vandamálanna, væri full atvinna. Það væri háfuðverkefnið. Í öðru lagi, að sem minnst tilfærsla væri stétta á milli og breiðu bökin bæru meira af þeim fórnum, sem yrði að leggja á þjóðina. Og í þriðjalagi, að sem minnst áhætta fylgdi aðgerðunum, þannig að þær mistækjust. Það væri reynt að tryggja eins rækilega og unnt væri, að þessar aðgerðir, sem gerðar yrðu, næðu tilgangi sínum. Og hvernig vildi stjórnarandstaðan ná þessu marki? Í fyrsta lagi með því að snúa sér að því að minnka vandann. Hún taldi nauðsyn bera til að minnka þann vanda, sem við var að fást. Það yrði að gera eftir mörgum leiðum, m.a. að lækka skatta á atvinnuvegunum. Nú mun því vera haldið fram, að ríkissjóður hefði ekki þolað það að lækka skatta á atvinnuvegunum. Þessu hefur verið haldið fram áður, og svo hafa nokkrir dagar liðið, og þá hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða til atvinnuveganna nokkur hundruð millj. í styrkjum, eins og gert var t.d. á þessu ári. Og þegar fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir, er athugað, kemur það í ljós, að hækkun á fjárlagafrv. er 300–400 millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar, svo að það er ekki einhlítt að fara þá leið að hækka allt það eins og gert er með þeim ráðstöfunum, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir. Enda taldi hæstv. fjmrh. það sjálfur, að það gæti orkað tvímælis, hvort ríkissjóður hagnaðist á gengisbreytingunni eða ekki.

Nú skal ég ekki um það segja að sinni eða slá neinu föstu um þetta mat hans. Hins vegar vil ég nefna þetta sem dæmi um það, að það er hægt að gera ríkissjóði erfiðan reksturinn eftir öðrum leiðum heldur en að lækka skatta. En það var hægt að lækka skatta á atvinnuvegunum, ef sú stefna hefði verið tekin upp, og það kom atvinnuvegunum alveg að sömu notum nema kannske heldur betur heldur en sú leið, sem farin var. Það er líka rétt stefna að draga úr vöxtunum, og það kom atvinnuvegunum að gagni engu að síður eins og það að hækka sífellt og endalaust, eins og nú er gert. Nú er því haldið fram af þeim hæstv. ráðh., sem oftast munu tala um þetta, hæstv. viðskmrh. og fjmrh., að þessi og þessi málaflokkur greiði ekki nema svo og svo mikið í vexti. Oft hefur heyrzt talað um, að frystihúsin í landinu greiddu ekki nema þessa tugi millj. kr. í vexti. En hvað er þá þessi málaflokkur búinn að greiða mikið í vöxtum af vörum og þjónustu og í gegnum kaupið og annað, sem þarf til þessa atvinnureksturs? Vextirnir koma ekki til atvinnufyrirtækisins eingöngu sem vextirnir, sem það verður fyrst að greiða út og færðir eru undir þann lið á rekstursreikningi viðkomandi fyrirtækis, heldur í verðlagi og vinnu þeirra, sem það hefur verið að skipta við og fært er þar ungir aðra liði. Auðvitað er vaxtafóturinn inni í öllu okkar viðskiptakerfi og kemur fram í margs konar myndum: Óg það er ekki með neinum rökum hægt að halda því fram, að þetta sé gert fyrir sparifjáreigendur í landinu, því að það er ekkert, sem tryggir sparifjáreigendur í landinu, nema stöðugt verðlag og horfið sé frá þeirri braut að fella gengið tvisvar á ári eins og nú er farið að gera. Það að hafa háa vexti vegna sparifjáreigendanna, en fella svo gengið svo, að verð á erlendum gjaldeyri hækkar yfir 100% á einu ári, eins og gert hefur verið, eyðileggur allt það, sem átti að ávinna með háum vöxtum, og miklu meira en það. Þess vegna eru það ekki rök, að það verði að halda háu vöxtunum, vegna þess að þeir séu svo lítill hluti í útgjöldum fyrirtækjanna, sem þeir eru nú ekki, sízt hjá þeim, sem erfiðast eiga, eða vegna sparifjáreigendanna, vegna þess að þeir eru sviptir margfalt hærri fjárhæðum með gengisbreytingunum. Það skiptir langmestu máli, að þær séu fyrirbyggðar. Sama var að segja um till. okkar um það, að við vildum láta endurskoða tryggingakerfið í landinu og skipulag olíuverzlunarinnar. Það er enginn vafi á því, að þær deilur, sem oft hafa verið uppi hér um þessi mál, hafa við rök að styðjast, og það ber brýna nauðsyn til að endurskoða þessi þjónustukerfi til þess að reyna að ná hagkvæmari viðskiptum þar heldur en nú er. Enn fremur var það till. okkar stjórnarandstæðinga, að það yrði að taka skuldamál atvinnuveganna í landinu til sérstakrar meðferðar. Það væri ekki hægt að komast fram úr vandamálum atvinnuveganna án þess að byrja á því að taka þeirra skuldamál til sérstakrar athugunar. Það yrði að fresta í bili afborgun og vaxtagreiðslum af föstum lánum, meðan verið væri að endurskoða þessi mál. Það yrði að breyta lausaskuldunum í föst lán og löng lán, og það yrði beinlínis að veita aðstoðarlán. En við vildum einnig, að þegar þessum málum væri komið fyrir, yrði að hafa eftirlit með því, að þessi fyrirtæki væru rekin á skynsamlegan máta, þau þjónuðu þeim tilgangi að halda uppi atvinnu í byggðarlögunum, sem þau voru staðsett í, og það væri tryggt, að aðstoðin kæmi að notum. Þetta töldum við, að yrði að vera forsenda fyrir henni og yrði að gerast áður heldur en hin stærri grundvallarbreytingaratriði yrðu framkvæmd. Þá töldum við, að afgreiðsla á fjárl. og ríkisbúskapurinn yrði að miðast við þetta ástand í okkar efnahagsmálum. Við yrðum að þrengja að rekstri ríkisbúskaparins eins og frekast væri fært í næstu fjárl. En við yrðum líka að ganga eins langt í því og tök væru á að halda uppi atvinnu og verklegum framkvæmdum. Okkar afgreiðsla á fjárl. fyrir árið 1969 yrði að vera í samræmi við aðgerðir í efnahagsmálum. Þar sem væri auðséð á öllu, að þjóðin yrði að leggja hart að sér til þess að komast út úr vandanum, yrði ríkisbúskapurinn að bera þess merki, en til þess að tryggja atvinnu sem bezt yrðu verklegar framkvæmdir að vera í ríkum mæli.

Þá var okkur það ljóst, að það er ekki hægt að koma á stefnubreytingu í fjármálum þjóðarinnar nema með því að taka upp stjórn á fjárfestingu og gjaldeyrismálum. Þessi mál hafa haft meiri áhrif á að setja okkar efnahagskerfi í þann hnút, sem það er nú í, heldur en flest annað á hinum síðari árum. Fjárfestingin í landinu hefur verið algerlega skipulagslaus, og það er þá frekast, að hafi verið dregið úr því, sem helzt átti að ganga fyrir, eins og skólabyggingar og aðrar slíkar framkvæmdir, sem ríkisstj. hefur tekið sér skömmtunarrétt á. Við teljum og höfum nú lagt fram frv. um það, framsóknarmenn, að það verði að raða verkefnunum eftir gildi þeirra fyrir þjóðina, en það handahóf, sem ráðið hefur, geti ekki ráðið ferðinni lengur. Það hefur sýnt sig, að meðferð ríkisstj. á gjaldeyrismálum er slík, að gjaldeyrir þjóðarinnar var gersamlega þrotinn skömmu fyrir gengisbreytinguna, og taka varð nýtt eyðslulán til þess að mæta gjaldeyrisnotkuninni nú. Á þeirri braut getur þjóðin ekki haldið áfram. Þar verður að verða breyting á, og gjaldeyris- og fjárfestingarmál verða að komast undir stjórn. Þegar þessum atriðum væri komið fyrir með skikkanlegum hætti, töldum við, að yrði að taka ákvörðun um það, sem talið er, að vantaði til viðbótar millifærslunni á milli þegnanna í þjóðfélaginu. Hvort það ætti að vera gengisbreyting, niðurfærsla eða uppbótarleið, sem þá væri farin, mundi að sjálfsögðu hafa markazt af því, hve það verkefni var stórt, sem þá var eftir. En höfuðáherzlu varð að leggja á það, að þegar þessi þáttur var leystur, væri búið að ganga þannig frá málunum, að atvinnuvegir þjóðarinnar væru þá færir um að hefja rekstur með eðlilegum hætti og full atvinna væri tryggð. Það sýndi sig á s.l. ári og mun sýna sig enn, að það að gera svo stórfelldar breytingar, sem gerðar hafa verið á efnahagskerfinu, án þess að undirbúa það eða tryggja það, að fullur rekstur atvinnunnar í landinu hæfist jafnharðan, er háskalegt.

Það, sem við vildum undirstrika með till. okkar og munum undirstrika með flutningi þeirra og reynum að afla fylgis framvegis, er það, að við viljum snúa frá verðbólgustefnunni, við viljum stefna að festu og sparnaði í ríkiskerfinu og þjóðin vinni þannig upp sitt efnahagslega sjálfstæði, sem nú er verulega í hættu. En eins og ég gat um áðan, hafði ríkisstj. ekki hugsað sér stefnubreytingu. Hún hafnaði því öllu samstarfi um þessar leiðir og hafði þau svör ein uppi, að sérfræðingum hennar litist ekki á þetta, og frekar var það ekki athugað. Ríkisstj. ákvað beint í framhaldi af slitum sínum við stjórnarandstöðuna að gera gengisbreytingu þá, sem gerð var nú 12. nóvember s.l. Eins og fram hefur komið í því, sem ég hef sagt hér að framan, þarf gengisbreyting ekki alltaf að vera fordæmanleg. En hana má ekki gera nema að vel athuguðu ráði, og það þarf að undirbúa hana sérstaklega vel. En þó er það svo með gengisbreytingu, að í höfuðatriðum er hún leið undan brekkunni. Hún er þægilegri en margar aðrar leiðir til þess að komast út úr vandanum í bili. En hún er venjulega skammvinn, ef ekki er því betur á málunum haldið, og þá mun það oftast nær sýna sig, að betur hefði farið að mæta vandanum með meiri festu og meira átaki, þó að það hefði kostað það í upphafi.

Það skiptir enn fremur verulegu máli, hvernig gengisbreytingin er framkvæmd. Framkvæmdin á gengisbreytingunni, sem gerð var hér í nóvember, er með eindæmum, að ég hygg, og hefur kostað íslenzku þjóðina geysilega mikið. Það var auglýst með 20% tollinum, að þessi leið yrði farin. Jafnhliða því sem hann var settur í lög, var það augljóst, að þau mundu gilda stuttan tíma og þá mundi verða búið að ráða málunum á annan veg, enda tók þjóðin þetta svo, og þeir, sem gátu komið sinum málum vel fyrir, notuðu tímann vel og dyggilega. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá Seðlabankanum, lækkuðu spariinnstæður hjá peningastofnunum í landinu, þ.e. bæði sparifjárinnlegg og veltulán, um 260 millj. kr. í september- og októbermánuði, einmitt þá mánuði, sem gengisbreytingin var í aðsigi. Á sama tíma gerðist það, að gjaldeyrisinnstæðan, sem talið var, að þjóðin ætti, 350 millj. kr., í byrjun september þvarr að öllu leyti svo og sá gjaldeyrir, sem aflaðist þennan tíma. Þetta sýnir, hversu geigvænleg atriði það eru að láta slíka breytingu eins og gengisbreytingu standa yfir mánuðum saman, og það sýnir eitt einkenni á ábyrgðarleysi stjórnarfatsins hér á Íandi, að slíkt mundi geta skeð, enda orkar það ekki tvímælis, að þetta hefur aukið vandann geysilega mikið.

Í annan máta er það svo, að þegar á að gera svo róttæka breytingu eins og gengisbreytinguna og þó að hún sé minni í sniðum en sú, sem gerð var nú, er ekki sama, hvaða tími er valinn til þeirra framkvæmda. Sá tími, sem ríkisstj. hæstv. hefur valið nú í tvö ár til þess að gera gengisbreytinguna, er sennilega einhver sá allra versti, sem hægt er að hugsa sér. Það er einmitt sá tími, þegar þáttaskil eru að verða í atvinnumálum okkar. Vetrarvertíðin eða útgerðin er ekki hafin, og eftir er að greiða kostnað af öllu því, sem til hennar þarf. Það væri mikill munur, ef þessi breyting væri gerð um miðjan vetur eða seinni part vetrar, þegar vetrarvertíðin er hafin og útgerðin er búin að búa sig undir þá vertíð, sem þá stendur yfir. Þá njóta atvinnuvegirnir þess í upphafi, sem við gengisbreytinguna vinnst, en nú gjalda þeir þess strax í sambandi við það að undirbúa nýja vertíð. En það var tvennt, sem ríkisstj. átti að hafa í huga, áður en hún ákvað að fara þessa leið í efnahagsmálum. Í fyrsta lagi átti hún ekki að vera búin að gleyma áhrifunum frá gengisbreytingunni í nóv. 1967. Hún átti að muna eftir því, hvernig til hafði tekizt með þá framkvæmd. Og í öðru lagi átti hún að muna það líka, hvernig staða íslenzku þjóðarinnar var út á við og hvaða áhrif það hefði í þjóðlífinu að bæta gengisbreytingu á allar skuldirnar, sem við skuldum öðrum þjóðum.

Um áhrifin af gengisbreytingunni 1967 er það að segja, að hún rann út í sandinn um leið og hún var gerð, og ríkisstj. varð að standa í því allt árið 1968 að fleyta framleiðslunni áfram á ríkisstyrkjum frá einum mánuði til annars. Hún varð, eins og sýnt er fram á í nál. okkar, að gera bráðabirgðaráðstöfun ofan á bráðabirgðaráðstöfun, sem sé mánaðarlega. Þessi reynsla átti að sýna henni það, að það var ekki alveg mælt út í bláinn, sem hæstv. forsrh. sagði hér á hv. Alþ. í okt. 1967, að gengisbreyting ylli oft meiri vanda en hún leysti. Reynslan af árinu 1967 sannaði þetta tvímælalaust. Og það orkar ekki tvímælis, að fjárhagslegt ástand atvinnuveganna á yfirstandandi ári hefur dregið verulega úr framleiðslunni það ár, því að það voru svo mörg atvinnutæki, er ekki gátu gengið með eðlilegum hætti vegna fjárhagserfiðleika. En hitt atriðið, sem ég nefndi áðan, voru skuldirnar við útlönd. Þær eru nú 13–14 þús. millj., og nú er svo komið, að það þarf 15–18% af tekjum þjóðarinnar 1969 í vörum og þjónustu til þess að greiða vexti og afborganir af þessum skuldum. Árið 1958 þurfti 5.1% af tekjum þjóðarinnar af vörum og þjónustu til þess að greiða þessi gjöld, og þá töluðu sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn um, að þjóðargjaldþrot væri yfirvofandi, ef þeim tækist ekki að bjarga því.

En nú, þegar eftir 10 ára stjórn þeirra þarf ca. 18% af tekjum þjóðarinnar í vörum og þjónustu til þess að inna þessar greiðslur af hendi, heyrist ekki talað um það frá þeirra hendi. Hefði þó verið meiri ástæða til þess nú heldur en þá, og ég hygg, að hér sé komið lengra heldur en þjóðin raunverulega þolir. En hvernig kemur nú þetta til með að verka í íslenzku athafnalífi? Það var svo með gengisbreytingar, sem voru gerðar fyrir 1960, að þær höfðu tiltölulega lítil áhrif önnur en þau að hækka verðlagið af vörunum, sem inn í landið voru fluttar, eftir að gengisbreytingin var gerð. En með hinni stórfelldu skuldasöfnun og með þeirri stefnu að taka erlend lán til þessa og hins þá er hér um miklu víðtækara mál að ræða. Og ég vil máli mínu til sönnunar nefna nokkur dæmi, sem sýna það, hvernig þetta hefur verkað, og benda til þess, hvaða áhrif þetta kann að hafa. Það verður fleira, sem kemur inn í verðlagið nú, heldur en verðhækkunin af innfluttum vörum eftir gengisbreytinguna. Þar koma einnig áhrif af erlendu lánunum, sem við skulduðum, þegar hún var gerð.

Rafmagnsveitur ríkisins töpuðu 1967 á gengisbreytingunni 118 millj. kr. Skuldir þeirra hækkuðu um þetta, eftir að búið var að umreikna þær, og 1968 um 276 millj. kr., eða samtals hafa þær nú hækkað í verði vegna gengisbreytinga um 394 millj. kr. Hvernig á að mæta þessu? Í þessu sambandi langar mig til að minna á það, að þegar verið var að afgreiða fjárl. fyrir 1966, kom fram á hv. Alþ. frv. til l. um verðjöfnunargjald af rafmagni. Ástæðan fyrir því eða forsenda þessara l. var talin vera sú, að það væri halli á ríkisrafveitunum og ríkissjóður gæti ekki borið þennan halla uppi og þess vegna yrði að leggja á þennan skatt til þess að mæta þessum halla. Þessi skattur er áætlaður 22.5 millj. kr. 1969. Hvaða áhrif hafði skatturinn, sem á var lagður haustið 1965, á rafmagnsverð í landinu? Hann hafði þau áhrif, að eftir nokkra daga hækkaði allt rafmagnsverð í landinu. Það kom svo beint inn í annað verðlag, og þegar leið á árið 1966, taldi ríkisstj. sig knúða til að fara að greiða niður vöruverð í landinu í miklu ríkara mæli heldur en nokkru sinni fyrr, m.a. vegna áhrifa frá þeim sköttum, sem þá voru lagðir á.

En hvað gerist svo nú? Einn þátturinn í gengisbreytingunni vegna verðbólguaukans í landinu er rafmagnsskatturinn. Þetta eru 22 millj. kr. Það tekur tekjur skattsins 17 eða 18 ár að greiða niður stofnhækkunina vegna gengisbreytingarinnar 1967 og 1968. Og þá er vaxtagreiðslan eftir. Þannig eru áhrifin af skattinum, sem lagður var á til þess að jafna hallann á Rafmagnsveitum ríkisins haustið 1965. Þau eru, að verðbólgan jókst, gengisbreytingar tvær urðu afleiðingin, og ríkisrafveiturnar hafa aukið skuldir sínar, sem nemur 18 sinnum skattinum. Það er skynsamleg fjármálapólitík þetta.

Ég nefni annað dæmi. Það er Stofnlánadeild landbúnaðarins. Skuldir hennar hækkuðu um 31.7 millj. kr. við gengisbreytinguna 1967, að því leyti sem hún gat ekki komið því yfir á þá, sem hún hafði lánað. Og við gengisbreytinguna 1968 um 76.5 millj. kr. eða um 109 millj. kr. Auk þess skuldar deildin verulegar fjárhæðir, sem þeir, sem lán hafa tekið, t.d. til að byggja sláturhús, og kaupa jarðýtur eða slík tæki, verða að bera uppi, og það nemur á annað hundrað millj. kr. Ég veit, að þeir hv. þm., sem sátu hér á þingum eftir 1960, muna eftir því, þegar hæstv. ríkisstj. stóð þá að því að leggja á bændur sérstakan skatt til þess að efla Stofnlánadeildina á árinu 1962. Þessi skattur átti að tryggja það, að Stofnlánadeildin yrði fær um að lána bændunum í landinu eins og var talað um, átti að byggja upp sjóði, sem gætu staðið undir því að lána landbúnaðinum síðar meir. Nú skal ég taka undir það eða endurtaka það, sem ég þá sagði, að ég var andstæður þessari hugmynd. Mín hugmynd um aðstoð ríkisins við landbúnaðinn er sú, að hún eigi að vera með þeim hætti, að sjóðir landbúnaðarins eigi að byggja landbúnaðinn upp, en landbúnaðurinn eigi ekki að byggja sjóðina upp. Ég lít svo á, að nauðsynjavara eins og matvæli þau, sem landbúnaðurinn framleiðir, eigi að keppa að því að vera sem ódýrust. Það eigi ekki að gera það með því að fara fram á það við þá, sem framleiða vöruna, að þeir láti neytendum hana í té fyrir minna gjald heldur en kostar að framleiða. Það á að koma fram í aðstoð ríkisvaldsins við þennan atvinnuveg. En ég verð að segja það, að það er næstum því, að ég hafi tilhneigingu til að senda hæstv. landbrh. samúðarskeyti, þegar ég sé það fyrir mér, að á einni dagstund hvarf allur skatturinn í gengisbreytinguna, því að skatturinn, sem búið er að innheimta af bændum, er um 76 millj. kr. eða það, sem gengisbreytingin slátraði fyrir Búnaðarbankann núna. Það var ekki lítið afrek, sem var unnið með því að taka upp þennan skatt og með þeirri stefnu, sem hefur verið haldið uppi, að verðlagið mundi skila öllu aftur og skipti því engu, hvað það kostaði, en gengisbreytingin hirti hann.

En gengisbreytingin kemur víðar við heldur en í þeim málaflokkum, sem ég hef nú vikið að. Hvað er um Vegasjóðinn? Hann tapaði 37.5 millj. kr. í fyrra á gengisbreytingunni og 108.2 millj. kr. núna eða 145.7 millj. kr. Það er fjárhæð, sem svarar til verulegs hluta af Keflavíkurveginum. Og hvenær halda hv. alþm., að Vegasjóðurinn verði búinn að greiða Keflavíkurveginn, hvað þá aðrar framkvæmdir, með sömu fjármálastefnu og nú er fylgt? Og ég held, að það muni ekki verða nein tilhlökkun hjá hv. alþm., þegar þeir setjast niður eftir nýárið og fara að fjalla um málefni Vegasjóðs, sem skuldar nú 500 millj. kr. eða alla þá upphæð, sem gert er ráð fyrir, að hann hafi í tekjur. Og þessi fjárhæð er — ef fylgt væri því, sem hæstv. vegamálarh. sagði hér í fyrra, að km í varanlegum vegi kostaði um 5 millj. kr., þá eru það 30 km, sem er hægt að leggja fyrir þessa fjárhæð, sem svona hefur tapazt, og þetta er nærri allur skatturinn, sem var lagður á umferðina með lagabreytingunni á s.l. vori. Til einhvers er barizt, þegar þannig er haldið á fjármálum þjóðarinnar.

Og þessi mál koma víðar við heldur en í landbúnaði, vegamálum og rafmagnsmálum. Það var stefna núv. hæstv. ríkisstj. og hún studdi þá stefnu dyggilega, að Íslendingar létu byggja sín skip erlendis. Íslenzkar skipasmíðastöðvar áttu ekki upp á pallborðið hjá núv. ríkisstj. Íslenzkur fiskiskipafloti skuldar nú erlendis háar fjárhæðir. Skuldir hans hækkuðu nú við gengisbreytinguna um 373 millj. kr. Það svarar til þess, að það hefði verið hægt að byggja nærri 30 skip af stærðinni 150 smálestir miðað við það verðlag, sem var á þeim fyrir gengisbreytinguna í fyrra, hér í skipasmíðastöðinni Stálvík. Þetta eru áhrifin frá þeirri framkvæmd. En því var mjög á lofti haldið, þegar var verið að gera þessa samninga, að þeir væru mun hagstæðari heldur en að láta íslenzkar skipasmíðastöðvar vinna verkið, að það væri sjálfsagt fyrir útvegsmenn að gera þetta. En það var líka fleira, sem fylgdi, og það var aðalatriðið, að þessum skipum fylgdu erlend lán, sem nú eru að segja til sín, og við það, að Íslendingar tóku erlendu lánin, gat ríkisstj. gortað af gjaldeyrissjóði, því að það fengust gjaldeyrislán erlendis, sem gerðu stöðuna betri út á við. Það gerði það að verkum, að ríkisstj. gat líka gortað af því, að hún hefði skapað sérstakt viðskiptafrelsi, svo að nú gætu allir flutt inn tertubotna, kex og annað glingur, sem þá langaði til. En þetta var gert með þeim hætti, að m.a. íslenzkir útvegsmenn voru að taka erlend lán í skipasmíðastöðvunum í Noregi og raunverulega byggðu þær sumar upp, og nú verður útvegurinn að greiða brúsann með vöxtum og vaxtavöxtum, gengistapi og öðru slíku, sem leggst á hálfsligaða útgerð eins og mara. Þannig varð til hluti af gjaldeyrissjóðnum og viðskiptafrelsinu margrómaða. En þjóðin getur nú sagt sér, hversu mikils virði það hefur verið henni.

Og ofan á þetta bætist svo það, að Fiskveiðasjóður sjálfur tapar í þessum gengismun sem svarar 6–7 150 tonna bátum samkv. verðlaginu í fyrra. Þannig hafa áhrifin verið af gengisbreytingunni. Og það er erfitt fyrir menn með venjulega hugsun að skilja það, að það hafi verið ábyrgðarleysi, þegar stjórnarandstaðan benti á það, að það bæri nauðsyn til að minnka vandann, svo stóraðgerðir eins og gengisbreyting yrðu sem minnstar. Ég vil hins vegar segja það, að það hafi verið ábyrgðarleysi að fara út í svo stórfellda gengisbreytingu eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert nú án þess að gera sér grein fyrir þeim gífurlegu afleiðingum, sem hún hlýtur að hafa.

Ég ætla ekki að fara í þessum dæmum að nefna Sements- og Áburðarverksmiðjuna, því að það kom lítillega fram í umr. hér í fyrradag í sambandi við fsp., hvaða áhrif þetta hefur þar, að það er beinlínis tekið fram í skuldabréfi Seðlabankans, að það verði að leggja inn í áburðarverðið á næstu 5 árum það lán, sem Áburðarsala ríkisins tók í Seðlabankanum til þess að greiða gengismismuninn, sem varð við gengisbreytinguna. Og það má bæta því við, að stofnkostnaðarauki við fyrirhugaða breytingu á Áburðarverksmiðjunni er áætlaður hundrað millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar. Það kom líka í ljós í svörum hæstv. iðnmrh., þó að þau væru nú með öðrum hætti heldur en venja er til að svara fsp. hér á hv. Alþ., í sambandi við Sementsverksmiðjuna, að hún hefur nú á 10 ára tímabili aukið við skuldir sínar, ef rétt er frá skýrt. Ef við svo lítum á fjárlagafrv. sjálft, kemur í ljós eins og ég áður sagði, að hækkunin á því er 300–400 millj. vegna gengisáhrifanna.

Ef við svo hins vegar lítum á þá stefnu, sem þetta fjárlagafrv. markar af hendi hæstv. ríkisstj., kemur það í ljós, að það er stefnt hér beint inn í atvinnuleysi. Það er gert ráð fyrir því, að neyzluvöruinnflutningur lækki um 25.5% frá því sem hann var á s.l. ári, en þá lækkaði hann verulega eða um 16%. Hér er um svo stórfellda kjaraskerðingu að ræða, að ef hún nær fram að ganga, getur hún ekki byggzt á öðru en því, að atvinnuleysi yrði hér mikið. Þess vegna er það, að sú stefna, sem mörkuð er með fjárlagaafgreiðslunni, er stefna atvinnuleysis, því að svona mikil lífskjaraskerðing getur ekki átt sér stað nema um atvinnuleysi sé að ræða. Það er gert ráð fyrir því, að fjárfestingin í landinu minnki um 13.7% og rekstrarvörurnar um 4%. Allt leiðir þetta til þess, eins og ég sagði, ef þessi stefna nær fram að ganga, þá leiðir hún til atvinnuleysis og fátæktar. Og hver verða svo áhrifin hér á landi, ef verður verulegt atvinnuleysi? Áhrifin verða m.a. þau, að á síðari árum hefur mikið af ungu fólki og fullorðnu líka lagt nótt við dag til þess að koma sér upp eigin íbúðum. Þetta fólk er auðvitað ekki búið að jafna sig að neinu leyti eftir það átak. Ef það lendir nú í atvinnuleysi eða verulegri kjaraskerðingu, þá hlýtur það að leiða til þess, að það missir þessar íbúðir sínar. Það er ekkert, sem getur hjálpað því til þess að halda sínum íbúðum nema full atvinna. Okkur, sem til þekkjum, er fullkunnugt um það, að það hefur verið nógu erfitt að standa í slíkum framkvæmdum, þó að atvinna hafi verið í bezta lagi, hvað þá ef úr henni drægi. Afleiðingin af því yrði svo glundroði og ringulreið í viðskiptalífinu. Það yrði svo áframhald á því, sem gengisbreytingin, sérstaklega í haust, vann dyggilega að, að breikka bilið milli þeirra ríku og fátæku, þeirra, sem höfðu möguleika til þess að hagnýta sér biðtímann að gengisbreytingunni, og hinna, sem höfðu það ekki. Það er ekkert nema blóðgjöf til framleiðslu- og atvinnulífsins í landinu, sem getur komið í veg fyrir þetta. Þess vegna höfum við minni hl. í fjvn. lagt til, að 350 millj. kr. yrði varið til atvinnuöryggis og atvinnuauka í landinu. Við gerum ráð fyrir því, að Alþ. skipti þessum fjármunum síðar og munum leita eftir því milli 2. og 3. umr. að fá samstöðu í fjvn. um þetta mál.

Mér er ljóst, að hæstv. fjmrh. kemur hér og spyr, hvernig eigi að ná þessum peningum, því að það sé ekki baslbúskapur að dómi stjórnarandstöðunnar hjá hæstv. ráðh., fyrst við ætluðum honum þetta. Því er til að svara, sem ég hef áður vikið að, að þetta hafa verið þau svör, sem við höfum fengið, ef við höfum gert hér till., sem við höfum gert tiltölulega lítið af, nema við höfum undanfarin ár haldið okkur við till. um Vegasjóðinn, og væri nú betur farið, ef sú till. hefði náð fram að ganga. En ég vil benda á það, að það hefur venjulega verið svo, að þó að hv. stjórnarsinnar hafi hér á Alþ. nokkrum dögum fyrir jól fellt slíka till. frá okkur, þá hafa þeir tekið upp stóra fjármuni m.a. til atvinnuveganna nokkrum dögum eftir áramót, og það gerðist síðast í fyrra. Og það er vonlaust að leggja út núna án þess að hafa einhverja fjármuni til þess að bæta atvinnuástandið. Mér er það alveg fullkomlega ljóst, og ég er alveg viss um það, að hv. stjórnarsinnum hlýtur að vera það einnig ljóst, þó að þeir þrjózkist við málið í bili. Ég vil líka bæta því við, að ef atvinnuleysi heldur hér innreið sína í verulegum mæli, þá er tekjuáætlunin ekki trygg. Ef okkur hins vegar tekst að forðast slíkt og getum haldið hér uppi fullri atvinnu og fengið viðskipta- og atvinnulífið til þess að ganga með eðlilegum hætti, þá er 5% hækkun á aðflutningsgjöldum ekki mikil tala. Því er við að bæta, að auk þess sem gert er ráð fyrir þessum samdrætti, er einnig gert ráð fyrir því, að meðalprósenta aðflutningsgjalda lækki verulega. Þess vegna er það okkar mat, að þessir fjármunir gætu tryggt betur en flest annað, að fjárl. fengju staðizt og ríkissjóður fengi þær tekjur, sem til er ætlazt og betur þó. Ég er sannfærður um það, enda er það okkar höfuðstefna, eins og ég lýsti áðan, að atvinnuna verði að tryggja og við verðum að gera átak með fjármunum og á annan hátt til þess að gera það.

Herra forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt, en vil í lok ræðu minnar minna á nokkur atriði, sem ég hef hér fjallað um, til að undirstrika þau. Hér að framan hef ég sýnt fram á það, hvernig ríkisstj. hæstv. hefur reynzt á góðu árunum. Þá varð hún að styðjast við hækjur ríkisstyrkja og bráðabirgðaaðgerða, og var svo komið upp á síðkastið, að það leið ekki mánuður á milli aðgerða í efnahagsmálum. Þrátt fyrir stórfelldar tekjur umfram fjárlög í ríkari mæli heldur en nokkru sinni fyrr stendur ríkissjóður eftir nú með skuldir, og má segja, að hver og einn framkvæmdaliður sé með stórskuldir. Gjaldeyriseign þjóðarinnar er þrotin, og nýlega hefur verið tekið nýtt gjaldeyriseyðslulán. Erlendar skuldir eru nú geigvænlegri heldur en nokkru sinni fyrr, og það veldur þjóðinni kvíða. Viðbrögð hæstv. ríkisstj. við erfiðleikunum hafa svo verið með svipuðum hætti eins og framkvæmd hennar á góðu árunum. Gengisbreytingin í fyrra rann gersamlega út í sandinn um leið og hún var gerð. Framkvæmd á gengisbreytingunni 1968 er með eindæmum og allt á annan veg heldur en til þarf. Tekin er með þeirri ákvörðun öll sú áhætta, sem hægt er að hugsa sér. Ekki var í alvöru leitað eftir neinni samstöðu um lausn vandamálsins, svo að fram undan getur verið ófriður á vinnumarkaðinum og hvergi skjóls að vænta vegna ráðleysis ríkisstj. Gengisbreytingin er það gróf, að ekki verður séð, hvernig fólk á venjulegu tekjustigi á að mæta henni. Hækkanirnar streyma út í verðlagið dag frá degi í auknum mæli, og gert er ráð fyrir, að kjaraskerðingin verði um 18%. Afkoma fólksins er því í mikilli hættu. Með fjárlagaafgreiðslunni er stefnt beinlínis að atvinnuleysi, þar sem ekkert er tekið tillit til þess af hendi stjórnarliða, a.m.k. enn þá, hvernig á að koma í veg fyrir atvinnuleysi. En afleiðing þess verður fátækt og eignaupptaka.

Þjóðarskútan er nú stödd í brimgarði hallareksturs, skuldafens og gjaldeyrisskorts. Vaxandi atvinnuleysi er fram undan, og áhættusamar aðgerðir hafa verið gerðar, svo að ekki er séð, hvernig út úr þeim brimgarði hún kann að skila sér. En von okkar er, að þjóðarfleytan komist að landi, þó áð eitthvað kunni að fara fyrir borð.