18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í D-deild Alþingistíðinda. (3783)

269. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Sementsverksmiðja ríkisins hefur starfað í liðlega 12 ár og reynzt hið mesta þjóðþrifafyrirtæki. Hún hefur framleitt mikið af góðri nauðsynjavöru, sparað þjóðinni mikinn gjaldeyri og veitt mikla atvinnu. Þegar verksmiðjunni var ákveðinn staður á Akranesi mun varla nokkrum manni hafa komið annað til hugar en skrifstofur og stjórn verksmiðjunnar ættu einnig að vera þar.

Nú hefur farið svo, að Sementsverksmiðjan hefur ekki eina skrifstofu, heldur tvær, skrifstofu á Akranesi og aðra skrifstofu í Reykjavík. Skrifstofan í Reykjavík, sem er í dýru leiguhúsnæði skammt frá höfninni, mun vera stærri, en skrifstofan á Akranesi og mun æðsta stjórn verksmiðjunnar að jafnaði hafa setið í höfuðhorginni. Augljóst er, að þetta er bæði dýrt og óhentugt fyrir verksmiðjuna. Sementsverksmiðjan hefur byggt ágætt skrifstofuhús á Akranesi og getur þar leigt út skrifstofuhúsnæði, en fyrir það fær hún aðeins brot af því, sem hún borgar sjálf fyrir leiguhúsnæði í höfuðborginni. Auk þess hlýtur þetta að leiða til óhagræðis og kostnaðar, m.a. ferðakostnaðar. Mér er tjáð, að stjórn Sementsverksmiðju ríkisins hafi samþykkt a.m.k. einu sinni að leggja skrifstofuna í Reykjavík niður og hafa skrifstofuhald og stjórn á Akranesi. En þessi skipting helzt enn þann dag í dag að því er ég bezt veit. Ég vil taka fram, að eðlilegt er, að Sementsverksmiðjan hafi sölu– og dreifingarskrifstofu hér í Reykjavík og það hefur verksmiðjan haft óháð þeirri aðalskrifstofu, sem hér um ræðir.

Í tilefni af þessu ástandi hef ég leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. iðnrh., hvað líði flutningi skrifstofu Sementsverksmiðju ríkisins frá Reykjavík til Akraness?

2. liður fsp. er á þá leið, að spurt er, hvort hið nýja gengi krónunnar skapi möguleika á því að flytja út sement. Sementsverksmiðjan mun hafa flutt lítið magn af sementi út á undanförnum árum og er af þeirri reynslu augljóst, að sementið er samkeppnisfært hvað gæði snertir. En um verð hefur verið önnur saga og flutningskostnaður erfiður.

3. liður fsp. er í beinu framhaldi af 2. lið. Ef það reynist hugsanlegt að flytja út sement, þá er spurt, hve mikill sá útflutningur þyrfti að vera til þess að mynda grundvöll að stækkun Sementsverksmiðjunnar?