18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í D-deild Alþingistíðinda. (3784)

269. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. „Hvað líður flutningi á skrifstofu Sementsverksmiðju ríkisins frá Reykjavík til Akraness?“ Um það er þetta að segja:

Stjórn verksmiðjunnar hefur ákveðið að láta í byrjun næsta árs koma til framkvæmda fyrri ákvörðun um að flytja aðalskrifstofu verksmiðjunnar upp á Akranes. Settur framkvæmdastjóri sagði upp leiguhúsnæði í Hafnarhvoli fyrst munnlega, en nokkrum dögum síðar var það staðfest með bréfi, 22. nóv. s.l., og kvittaði leigusali fyrir móttöku. Húsnæðinu er sagt upp frá 1. maí 1969.

Varðandi hina tvo liðina, um útflutning á sementi, er þetta að segja: Það hefur aldrei verið ætlunin, að útflutningur á sementi yrði þáttur í venjulegri starfsemi verksmiðjunnar. Hins vegar hefur verið flutt út sement, þegar afköst verksmiðjunnar voru meiri en notkunin innanlands. Hugsanlegt er, að svo geti orðið á næsta ári, og er það mál í athugun. Á árunum 1961, 1962 og 1963 voru alls flutt út rúmlega 50 þús. tonn og var andvirði þessa útflutnings alls 282 þús. sterlingspund.

Hið nýja gengi veldur stórhækkuðum rekstrargjöldum verksmiðjunnar, sérstaklega á innfluttum rekstrarvörum, svo sem gipsi, brennsluolíu, pokum, varahlutum, stálkúlum o.fl. og ennfremur á vöxtum af erlendum lánum og afborgunum af þeim. Hið nýja gengi gerir því útflutning lítt eða ekki hagkvæmari en ella, nema að svo miklu leyti, sem það yrði selt til útlanda, sem ekki er hægt að selja innanlands fyrir hærra verð, en nemur breytilegum kostnaði.

Við þetta vil ég svo aðeins bæta því, að þeir hafa verið erlendis til að athuga þetta mál nánar, formaður verksmiðjustjórnarinnar og settur framkvæmdastjóri, en eru nýlega komnir heim. Er of snemmt að gera grein fyrir, hvaða horfur séu nú á því, að hægt sé að flytja út sement, svo að hagkvæmt sé fyrir verksmiðjuna, en eins og áður segir, er það mál í athugun.