12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í D-deild Alþingistíðinda. (3788)

124. mál, lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Í meira en áratug hefur verið rætt hér á landi um að stofna lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og ekki hefur aðeins verið rætt um málið. Það hafa einnig verið framkvæmdar víðtækar athuganir í því sambandi. 1964 var t.d. Haraldi Guðmundssyni, fyrrv. forstjóra Almannatrygginga, falið að semja álitsgerð um, hvort ekki væri tímabært að setja löggjöf um almennan lífeyrissjóð, sem allir landsmenn, sem ekki eru nú þegar aðilar að lífeyrissjóðum, geti átt aðgang að, eins og stóð í bréfi ríkisstj. Haraldur skilaði skýrslu haustið 1965 og segir þar svo um niðurstöðu sína, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er fullkomlega tímabært að setja löggjöf um eftirlaunasjóð og eftirlaunatryggingu fyrir allt vinnandi fólk til viðbótar við gildandi lífeyristryggingar. Eftirlaunin séu miðuð við fyrri vinnutekjur og starfstíma, kaupmáttur þeirra tryggður og upphæð þeirra ákveðin með það fyrir augum, að ellibæturnar, þ.e. lífeyrir og eftirlaun samtals, nægi til þess að afstýra tilfinnanlegri kjaraskerðingu að loknu ævistarfi. Jafnframt lít ég svo á, að samtímis þessari lagasetningu þurfi að gera breytingar á gildandi lífeyristryggingum, svo að þær verði hæfilegur grundvöllur og undirstaða eftirlaunatryggingarinnar og lágmarksbætur við hæfi.“

Þetta varð niðurstaðan af þessari rannsókn Haralds Guðmundssonar, en síðan er liðið hálft fjórða ár. Þn. hefur starfað að undirbúningi málsins, en enn hefur ekkert frv. séð dagsins ljós. Enn virðist málið ekki vera komið á ákvörðunarstig svo að ég viti. Hins vegar hefur reynslan sannað æ betur, að það tryggingakerfi, sem nú er í landinu, er gersamlega óviðunandi orðið. Meiri hluti aldraðs fólks verður að sætta sig við stórfellda skerðingu á lífskjörum sínum um leið og starfsævinni er lokið og raunar við lífskjör, sem eru algerlega ósæmandi þjóðfélagi okkar. Raunin er einnig sú, að almannatryggingarnar hafa dregizt aftur úr. Þær hafa ekki fylgzt með hinni almennu efnahagslegu þróun í landinu. Og við höfum einnig dregizt aftur úr þróuninni annars staðar á Norðurlöndum. Bæturnar hér eru miklum mun lægri, en þær eru hjá grannþjóðum okkar. Ég held, að ellilaun á Íslandi nái ekki helmingi af ellilaunum í Danmörku, eins og nú er komið.

Verðbólgan hefur bitnað mjög harkalega á öldruðu fólki, sérstaklega vegna þess að verðhækkanir á brýnustu nauðsynjum, þar á meðal matvælum, hafa verið meiri en meðalverðhækkanir, þannig að þegar hér eru flutt frv. um að hækka slíkar greiðslur í hlutfalli við vísitölu, — eitt slíkt frv. liggur nú fyrir þinginu, — þá er þar um raunverulega skerðingu að ræða, vegna þess að nauðþurftartekjurnar eru notaðar til þess að kaupa þær vörur, sem hækka meira, en meðaltalið hefur hækkað. Þetta hefur verið reynslan um langt árabil, þannig að kaupmáttur þessara ellilauna og annarra slíkra greiðslna hefur farið sífellt lækkandi.

Að undanförnu hefur þetta vandamál einnig magnazt af öðrum ástæðum. Atvinnuskorturinn og atvinnuleysið á Íslandi hefur leitt til þess, að gömlu fólki hefur verið sagt upp störfum öðrum fremur. Það hefur verið háttur íslenzkra verkamanna að vilja vinna meðan þeim entist þrek, en nú er svo komið, t.d. hér í Reykjavík, að þess er varla nokkur kostur fyrir sjötugan mann að fá vinnu. Hér er um að ræða verulegt félagslegt vandamál, en einnig fjárhagslegt. Þessir menn eru dæmdir til að búa við lífskjör, sem eru eins og ég sagði áðan algerlega vansæmandi fyrir þjóðfélagið.

Áhuginn á almennri lífeyristryggingu hefur farið mjög vaxandi að undanförnu. Opinberir starfsmenn hafa lengi búið við þetta kerfi, en á undanförnum árum hafa margir starfshópar komið sér upp sérstökum lífeyrissjóðum. Þeir skipta orðið mörgum tugum núna og það kerfi er áreiðanlega ekki haganlegt fyrir þjóðfélagið að halda uppi aragrúa af smáum lífeyrissjóðum. Það væri miklu skynsamlegra að fella þetta saman í eitt samfellt kerfi.

Verkalýðshreyfingin hefur sýnt þessu máli vaxandi áhuga á undanförnum árum, gert um það samþykktir á þingum sínum og raunar hefur það komizt inn í kjarasamninga aftur og aftur, nú seinast í sjómannadeilunni, eins og menn vita, þannig að þetta mál er alltaf að verða brýnna og brýnna.

Fsp. mína ber ég fram til þess að vita, hvernig málið er nú á vegi statt hjá hæstv. ríkisstj., hvort það er komið á ákvörðunarstig, auk þess sem ég vildi nota þetta tækifæri til þess að hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að hraða þessu máli sem allra mest.