12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (3791)

124. mál, lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég get tekið undir flest af því, sem hv. fyrirspyrjandi hefur sagt um þetta mál. Ég tel mjög eðlilegt, að þessi fsp. hafi komið fram. Hins vegar er staða mín í þessu máli sú, að ég er í þeirri n., sem vinnur að því að semja frv. um almennan lifeyrissjóð samkv. þál. og ákvörðun ráðh. og þess vegna ætla ég ekki á þessu stigi að hefja neinar almennar umr. um þetta efni. Í aðalatriðum og í öllu, sem máli skiptir, er það rétt, sem hæstv. ráðh, hefur haft um störf n. að segja. En ég vil aðeins bæta því við, að nefndarstörf voru hafin í haust og nokkrir fundir haldnir og við vorum komnir allvel á veg með mörg atriði í sambandi við samningu frv., þegar formaður n., Sverrir Þorbjörnsson, veiktist og það hefur orðið til þess að tefja störf n. Þetta tók hæstv. ráðh. réttilega fram, en ég vil líka undirstrika þetta. Og sem sagt, þess er að vænta, að n. taki nú aftur til starfa, enda eru þm. allir komnir saman, sem í n. eru og ég verð að segja fyrir mína parta, að ég tel, að þetta mál sé af n. hálfu komið það langt á veg, að það sé engan veginn ómögulegt, að hægt verði að skila áliti, áður en þessu þingi lýkur, þ.e.a.s. ef ríkisstj. gerir okkur ekki þann greiða að rjúfa þing sem allra fyrst. En fari svo, að þing dragist fram á vorið, þá þykir mér hins vegar mjög líklegt, að það ætti að vera hægt að leggja slíkt frv. fyrir þingið, ef vel yrði að málinu unnið til vors.