13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

1. mál, fjárlög 1969

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um fjárlagafrv. rakti ég ítarlega, hversu ríkan þátt verðbólgustefna ríkisstj. á undanförnum árum á í þeim vanda, sem við er að etja í efnahagsmálum. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur nú í framsöguræðu fyrir nál. því, sem ég er aðili að ásamt fulltrúum Framsfl., einnig gert þessum málum rækileg skil og gert grein fyrir þeirri stefnu, sem fram kemur í nál. okkar, sem skipum minni hl. fjvn. Tel ég því ekki ástæðu til að leggja ýkja mörg orð í belg nú við þessa umr.

Við umr. og skrif um efnahagsmál að undanförnu hefur það komið fram hjá efnahagssérfræðingum ríkisstj., að þau kjör, sem við búum nú við í viðskiptamálum og að því er tekur til aflamagns, sé það, sem þjóðin megi búast við að jafnaði. Við séum ekki staddir í sérstökum öldudal, heldur búum við nú við þær ytri aðstæður, sem eðlilegar og venjulegar megi teljast. Nú sé að baki tími óeðlilega hagkvæmra viðskiptakjara og aflabragða. Samkv. því eru þau 12 þús. millj. kr. verðmæti samkv. núv. gengi, sem árin 1963–1966 færðu þjóðinni umfram það, sem fengizt hefði í meðalárferði, alger viðbótarverðmæti. Þessu höfum við stjórnarandstæðingar jafnan haldið fram, en almennt mun mönnum nú vera þetta ljósara en fyrr, nú þegar þetta tímabil hinna sérstöku 12 þús. millj. kr. aukaverðmæta er að baki. En þegar það meðalárferði, sem við erum nú að sigla inn í aftur, birtist almenningi í stórfelldum, efnahagslegum kollsteypum, tveim gengislækkunum á einu ári og 100% hækkun erlends gjaldeyris samtímis verulegum samdrætti í atvinnu og beinu atvinnuleysi, þá fer ekki hjá því, að augu sífellt fleiri og fleiri eru nú sem óðast að opnast fyrir því, að illa hafi verið á málum þjóðarinnar haldið á þeim sérstöku og samfelldu veltiárum, sem nú eru nýliðin hjá. Mönnum er nú ljósara en fyrr, að sífelldar neyðarráðstafanir hæstv. ríkisstj. til þess að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi á þessum veltiárum voru hið skýrasta merki um meingallað og hættulegt stjórnarfar og sjúkt efnahagskerfi. Á þessum uppgripaárum 12 þús. millj. kr. aukaafrakstursins bentum við stjórnarandstæðingar þjóðinni stöðugt á hættuna af verðbólgustefnu ríkisstj., hættuna af stjórnleysinu í fjárfestingar-, innflutnings- og verðlagsmálum og hömruðum á því, hver lífsnauðsyn þjóðinni væri á því að tryggja samfélagslega stjórn á atvinnulífinu, fjárfestingunni og innflutningsmálunum og hversu mjög riði á því, að afrakstur þessara sérstöku veltiára yrði notaður til þess að tryggja rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna og til þess að stórauka hinar nauðsynlegustu félagslegar framkvæmdir. Á meðan þessi ár aukaafrakstursins liðu hvert af öðru, töluðum við því miður fyrir of daufum eyrum stjórnarflokkanna og einnig meiri hl. kjósenda, sem létu sér í of ríkum mæli sjást yfir það, að hverju stefndi um grundvöll framleiðsluatvinnuveganna og atvinnuöryggið um leið. Hefði það þó átt að vera hverju mannsbarni ljóst, hvað gerast myndi, ef aftur yrði meðalárferði um aflamagn og viðskiptakjör, þegar haft var í huga, að jafnvel þegar aflaaukningin var örust og verðlag útflutningsafurða hækkaði mest, varð ríkisstj. hvað eftir annað að grípa til neyðarráðstafana til þess að fleyta útgerðinni áfram. Nú hafa aukaafrakstursárin liðið hjá um sinn a.m.k., og um leið er spilaborg viðreisnarstefnunnar hrunin til grunna. Og samtímis er það orðin staðreynd í huga svo til hvers manns, að á annan veg hefði þurft að halda á málum þjóðarinnar en gert var þessi mestu veltiár, sem þjóðin hefur lifað.

Það er að vísu svo, að stjórnvöldum, hver svo sem þau eru, mun að jafnaði ekki takast að fullnægja þeim kröfum, sem þjóðin gerir um félagslegar framkvæmdir í hinum ýmsu málaflokkum, svo sem menntamálum, heilbrigðismálum og samgöngumálum, enda eru kröfur umfram framkvæmdir á hverjum tíma hin eðlilega driffjöður framþróunarinnar. En hitt mun þó jafnan verða talin ömurleg staðreynd, þegar saga undanfarinna ára verður metin, saga áranna, sem gáfu þjóðinni 12 þús. millj. kr. aukaverðmæti, að þá skuli að þeim loknum blasa við öngþveiti í svo til hverjum þessara málaflokka og stórfelldar skuldir ríkissjóðs vegna þeirra framkvæmda, sem þá voru unnar. Hún mun að jafnaði verða talin furðuleg stefna, viðreisnarstefnan, sem gat komið í veg fyrir það þessi ár, að stórfelldir áfangar yrðu unnir í þessu efni, áfangar, sem væru svo verulegir, að þjóðin hefði jafnvel getað leyft sér að slaka aðeins á, á meðan hún væri nú að umþótta sig inn í venjulegt árferði, ef svo mætti að orði komast. Furðuleg mun hún jafnan verða talin sú stefna, sem á mestu veltiárum í sögu þjóðarinnar birtist í því, að framkvæmdir ríkisins til nauðsynlegustu félagslegra framkvæmda voru beinlínis skornar niður með sérstökum lagaákvæðum. Það mun jafnan verða talið furðulegt, hvernig gullin tækifæri þessara ára til stórátaka í félagslegum framkvæmdum voru látin renna þjóðinni úr greipum. En það mun jafnframt segja sína sögu og skýra það, sem ella væri torskilið, að fyrir aðeins einum þætti byggingarframkvæmda hefur verið séð svo vel með stórfelldum áföngum á veltiárunum, að fullnægt hefur verið þörfum um alllangt árabil, en það á eins og allir vita við um banka-, verzlunar- og skrifstofuhúsnæði. Munu jafnvel þúsundir fermetra af skrifstofuhúsnæði og verzlunarhúsnæði standa ónotaðir í Reykjavík á sama tíma og sjúklingar fá ekki sjúkrahúsvist vegna skorts á sjúkrarými og tví- og þrísett er í skólana. Undanfarin ár hafa þannig verið notuð til þess að auka umsvif fjáraflamannanna á kostnað samfélagslegra framkvæmda og búa í haginn fyrir þá, sem fjármagninu ráða, á kostnað hinna efnaminni. Skattheimtukerfi ríkissjóðs hefur m.a. verið sveigt meir og meir í þá átt að afla sem mests af ríkistekjunum með neyzlusköttum, sem lenda þyngst á stærstu heimilunum, en draga að sama skapi hlutfallslega úr beinum sköttum, sem lagðir eru á í hlutfalli við tekjur manna og eignir. Það er t.d. fróðlegt að bera saman í þessu efni fjárlagafrv. norska ríkisins fyrir næsta ár og það frv., sem hér liggur fyrir. Séu tekju- og eignarskattar lagðir saman annars vegar og neyzluskattar hins vegar kemur í ljós, að af heildarsummu þessara skatta nema tekju- og eignarskattar á Íslandi 12%, en í Noregi 37.8%. Neyzluskattar á sama hátt 88% á Íslandi, en 62.2% í Noregi. Ef við athugum síðan, hvaða áhrif það hefði á skattheimtu íslenzka ríkisins, að sömu hlutföll giltu hér og í Noregi með óbreyttum heildarupphæðum, kemur það í ljós, að neyzluskattar í okkar fjárlagafrv. mundu lækka um 1.600 millj. kr., eða um 8 þús. kr. á hvern mann í landinu, en tekju- og eignarskattur hækka að sama skapi. Að sjálfsögðu mundi slík hækkun tekju- og eignarskatts leiða til þess, að uppfylla yrði kröfur um, að þeim ráðum, sem unnt er að beita til þess að tryggja rétt skattframtöl og stuðzt er við í öðrum löndum, yrði beitt hér. Allt sýnir þetta ljóslega, hvers konar þjóðfélag Alþfl. er að aðstoða Sjálfstfl. við að skapa á Íslandi. Á sama tíma veldur verðbólgustefna þessara flokka því, að tryggingabætur og tekjujöfnunarráðstafanir verða sífellt haldminni til þess að vega á móti þeirri þróun, að stöðugt falli meir og meir á hina efnaminni í þjóðfélaginu. Efnahagskollsteypurnar í fyrra og nú, tvær gengislækkanir á einu ári, leggjast svo af öllum þunga á hina efnaminnstu, þá, sem lægstar hafa tekjurnar, og þá, sem hafa fyrir stærstum fjölskyldum að sjá, en verðbólgubraskararnir fá með þessum efnahagsaðgerðum hámarksgróða með stórhækkun þeirra eigna, sem þeir hafa náð tangarhaldi á, ýmist með sparifé almennings úr bönkum eða lánsfé úr almannasjóðum, sem þeir endurgreiða svo með sífellt verðminni krónu.

Alþýða manna, sem með þrotlausri eftir- og næturvinnu undanfarin ár hefur tekizt að eignast þak yfir höfuðið, mun í vaxandi mæli missa þessar eignir sínar í hendur hvers kyns fjárplógsmanna, jafnvel fyrir lítinn hluta af raunverulegu verðgildi. Þessi óheillaþróun er þegar hafin, og sú hætta blasir við almenningi, að sú þróun haldi áfram, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir í atvinnumálum og útrýmt því atvinnuleysi, sem nú þegar er til staðar hvarvetna um landið. Samkvæmt innflutningsáætlun þeirri, sem meiri hl. fjvn. miðar tekjuhlið fjárlagafrv. við, er gert ráð fyrir 25.5% samdrætti í neyzluvöruinnflutningi þjóðarinnar á komandi ári til viðbótar við 15-16% samdrátt á þessu ári. Miðað við gengi krónunnar á árunum 1961–1967 nemur áætlaður neyzluvöruinnflutningur samkv. þessu 1.595 millj. kr. á næsta ári, en var 2.593.6 millj. kr. árið 1966, þ.e.a.s. að gert er ráð fyrir um 40% samdrætti á innflutningi neyzluvarnings á næsta ári miðað við árið 1966.

Verður naumast annað séð en þessar áætlanir meiri hl. fjvn. miðist við atvinnuleysi í landinu á næsta ári, en samkv. upplýsingum ríkisútvarpsins í gær eru nú skráðir atvinnulausir á fimmta hundrað manna í Reykjavík og 160 menn á Akureyri. Það er því sýnt, að sérstakar ráðstafanir verður að gera til þess að uppræta atvinnuleysi. Hv. 3. þm. Vestf. gerði hér áðan grein fyrir þeirri till., sem við, sem skipum minni hl. fjvn., flytjum um 350 millj. kr. framlag, sem varið yrði í því skyni að tryggja fulla atvinnu í landinu, og ég legg áherzlu á mikilvægi þess, að fjárlög verði ekki afgreidd, án þess að sú till. verði samþ. eða aðrar ráðstafanir gerðar, sem að fullu gagni komi.

Eins og ég minntist á áðan, blasir það nú ljósar við öllum almenningi en fyrr, að illa var á málum þjóðarinnar haldið í mestu góðærunum, og kemur sú stefna, sem þá var beitt, þjóðinni nú í koll með margvíslegum hætti. Á veltiárunum birtist óstjórnin m.a. í óhemjulegri útþenslu ríkisbáknsins, sem engin leið reyndist til að fá dregið úr á þeim árum, þegar tekjur ríkissjóðs jukust um hundruð millj. kr. á ári með stórauknum innflutningi og hvers kyns vaxandi skattheimtu. Kostnaður við mörg dýrustu embættin hjá þjóðinni hækkaði t.d. þannig um 40–50% á einu saman árinu 1967. Nú, þegar harnað hefur í ári, situr þjóðin uppi með allan þennan útþanda, árlega kostnað, sem illkleift reynist að draga úr, eftir að hann er einu sinni orðinn staðreynd. Það hefur jafnan verið mín skoðun, að sparnaði í ríkisrekstri og lækkun á beinum rekstrargjöldum verði naumast við komið með stórum skyndiáhlaupum, heldur verði jafnan við hverja einustu fjárlagaafgreiðslu að viðhafa hið strangasta aðhald og íhaldssemi í þessu efni, með því einu móti fæst viðunandi og varanlegur árangur. Og staðreyndin er sú, að jafnvel væru slík skyndiáhlaup til stórniðurskurðar erfiðust, þegar afkoman er lökust, og þá oft og tíðum um atvinnuleysi að ræða.

Það var því ófyrirgefanlegt stjórnleysi og ámælisvert bruðl með almannafé, þegar rekstrarliðir í fjárlögum voru látnir þenjast hömlulaust út í vímu veltiáranna, þegar í raun og veru var hvað heppilegasti tíminn til að taka á ýmsum málum í sparnaðarskyni. Á þessum árum var engu líkara en hæstv. ríkisstj. væri að reyna að sýna í verki þá kenningu efnahagssérfræðinga sinna, að til þess að tryggja, að velmegun geti vaxið í landinu, þurfi, eins og stendur á bls. 47 í EFTA-skýrslunni, aukning umsvifa að verða „umfram allt í þjónustuflokknum.“

Á meðan þessi útþenslustefna á rekstrarliðum ríkti ómenguð hjá stjórnarflokkunum og á engar sparnaðartillögur var hlustað, þær verkuðu nánast eins og dónaskapur á þeim árum, var ekki um annað að gera en flytja þessar till. við fjárlagaafgreiðslu og leyfa stjórnarflokkunum að drepa þær eins og flugur, sem þeir og gerðu af röggsemi. Vissulega hefði öll þessi ár átt að geta ríkt samstaða milli allra stjórnmálaflokkanna á Alþ. um að afgreiða fjárlög á þann hátt, að tryggilega væri gætt fyllstu hagsýni í fjárframlögum til embættiskostnaðar og annars rekstrarkostnaðar í ríkiskerfinu, hvað svo sem liði stjórnmálaágreiningi að öðru leyti, en því var ekki að heilsa af hálfu stjórnarflokkanna. Nú virðist mér, að grundvöllur hafi verið að myndast og sé að verða fyrir slíkri samstöðu og till. um sparnað og aðhald í rekstri muni fást athugaðar í því næði, sem til þess þarf, að árangur náist. Því tel ég rétta og viðeigandi þá ákvörðun minni hl. fjvn. að reyna á þann vilja, sem nú virðist fyrir hendi til athugunar á leiðum til sparnaðar í ríkisrekstrinum, og flytja því ekki að þessu sinni þær till., sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa áratugaæfingu í að drepa, en miða nú við, að lengra tóm verði gefið til að taka afstöðu til þeirra atriða, sem við nefnum dæmi um í nál. okkar. Þótt ég telji þannig ekki ástæðu til þess fyrir minni hl. fjvn. að flytja þessar till. formlega við atkvgr., mun ég að sjálfsögðu taka afstöðu til þeirra, ef þær verða eftir sem áður fluttar af einstökum hv. þm., svo að afstaða mín til efnisatriða málsins verði ekki misskilin eða mistúlkuð. Fjárlög spegla nú sem fyrr stjórnarstefnuna í landinu og þá þróun í verðlagsmálum, sem hún veldur. Í fjárlagatill. stjórnarflokkanna speglast nú afleiðingarnar af gjaldþroti viðreisnarstefnunnar, hruninu, sem verður, þegar þjóðin nýtur ekki lengur sérstakra góðæra, heldur verður að búa við venjulegt árferði. Þótt lausn þess vanda, sem rekstur útflutningsatvinnuveganna var kominn í hafi nú verið velt milliliðalaust yfir á bak almennings í landinu með tveimur gengislækkunum á einu ári, er framkvæmdagildi þeirra fjárhæða, sem varið er til verklegra framkvæmda, stórminnkað með enn frekari samdráttaráhrifum, sem af því leiðir, á atvinnulífið í landinu. Stuðningur við hvers kyns félagslega starfsemi er skorinn niður, en á sama tíma eru tekjukröfur ríkissjóðs auknar um tæpar 800 millj. frá núgildandi fjárlögum, með þeim óhjákvæmilegu verðbólguáhrifum, sem því munu fylgja. Ferill viðreisnarstjórnarinnar er ferill sóunar og stjórnleysis á mesta góðæristímabili í sögu þjóðarinnar og tafarlausrar stöðnunar, samdráttar og hruns í venjulegu árferði, sannkallaður ólgaferill. Í því sambandi á við vísa Páls lögmanns Vídalíns, sem svo kvað:

Forlög koma ofan að,

örlög kringum sveima,

álögin úr ýmsum stað,

en ólög fæðast heima.

Það er nú að verða þjóðinni fullkomlega ljóst, að þessi ólög, það dæmalausa öngþveiti í efnahagsmálum, sem nú ríkir í kjölfar mestu góðæra í sögu þjóðarinnar, þau ólög, sem nú ríða yfir almenning í landinu, hafa fæðzt heima. Þau eiga rætur sínar í þeirri stjórnarstefnu, sem ríkt hefur á undanförnum árum. Stórfelld áföll dynja nú yfir almenning í landinu, strax og viðreisnarstjórnin þarf að beita stefnu sinni í venjulegu árferði. 40–50% verðhækkanir á algengustu nauðsynjavörum fylgja í kjölfar almenns samdráttar í atvinnulífinu, og vofa atvinnuleysisins þrengir sér æ víðar inn um gættina. Augu þeirra, sem nú taka á sig þungbærustu afleiðingar viðreisnarstefnunnar, eru nú að opnast æ betur fyrir því, að stefna stjórnarflokkanna á góðærum hefur reynzt þjóðinni hættuleg og dýr. Strax og svo er komið, að þjóðin býr við venjulegt árferði, vegur stjórnarstefnan beinlínis að lífshagsmunum hvers alþýðuheimilis. Í þessum aukna, almenna skilningi á eðli og áhrifum viðreisnarstefnunnar felst von þjóðarinnar um bætta stjórnarhætti, sem leysir stefnu núverandi stjórnarflokka af hólmi.