19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (3807)

109. mál, perlusteinsvinnsla í Loðmundarfirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir mjög glögg og ítarleg svör við fsp. minni. Ég verð að vísu að játa, að mér urðu það nokkur vonbrigði, að ekki var betri útkoma úr þessum rannsóknum á þeim sýnishornum, sem tekin voru og sérstaklega að dómi Johns Manville fyrirtækisins, en það er áreiðanlega rétt, að það er nauðsynlegt að gera meiri rannsóknir og eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh., þá hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um, að haldið verði áfram rannsóknunum. Ég er nú svo bjartsýnn í eðli mínu, að það er fjarri því, að ég hafi gefið upp von um, að þær kunni að gefa betri niðurstöðu, en enn þá virðist liggja fyrir og í raun og veru hef ég trú á því, að þarna verði um framtíðaratvinnu að ræða að vinna þessar námur.

Ég vil svo endurtaka þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir glögg og skýr svör.