19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (3808)

109. mál, perlusteinsvinnsla í Loðmundarfirði

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka fróðlegar upplýsingar um þetta mál frá hæstv. iðnrh. Eins og tilkynnt var áðan, hefur verið útbýtt hér í d. í dag þáltill., sem ég flyt varðandi rannsóknir á þessu máli, en ég hef af sérstökum ástæðum haft með þessi mál að gera á undanförnum árum fyrir eigendur þeirra jarða, sem hér eiga hlut að máli. Og ég vildi sérstaklega fagna þeirri ákvörðun ríkisstj., að hún hefur samþykkt að rannsaka til hlítar þá möguleika, sem kunna að vera til staðar varðandi perlusteininn. Það liggur fyrir, að slíkar rannsóknir eru nokkuð viðamiklar, en þó að fyrirtækið Johns Manville hafi lýst því yfir, að það vilji ekki standa að vinnslu á þessu stigi málsins, þarf það alls ekki að útiloka möguleika á því, að hafin verði vinnsla á perlusteini með öðrum hætti. Og ég vil láta í ljósi ánægju yfir því, sem hér hefur komið fram og vonast til þess, að rannsóknum verði hraðað, eftir því sem föng eru á.