13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

1. mál, fjárlög 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir vinnu sína við undirbúning till. til 2. umr. Það hefur verið mikið verk að vinna, og ég tel ástæðu til þess að þakka n. það, af hversu ríkum skilningi hún hefur tekið á þeim mikla vanda, sem við eigum nú við að glíma í sambandi við fjárhagsmál ríkissjóðs, eins og þjóðfélagsins yfirleitt, og hversu till. hennar hafa mótazt af mikilli hófsemi og ábyrgðartilfinningu. Það hefur á engan hátt í till. n. verið raskað þeirri meginstefnu, sem ég taldi við 1. umr. fjárlagafrv. að þyrfti að ríkja og frv. væri mótað af, en það er að reyna að takmarka sem mest útgjöld til allrar rekstrarstarfsemi ríkissjóðs. Það var ekki talið fært að taka upp fjárveitingar til neinnar nýrrar starfsemi á vegum ríkisins, en hins vegar var ekki farið inn á þá braut að skerða í kr. fjárveitingar til verklegra framkvæmda svo kallaðra. Siðan ég mælti þessi orð hefur vitanlega sú breyting gerzt, að gengislækkunin hefur haft veruleg áhrif til aukningar á útgjöld ríkissjóðs, rekstrarútgjöldin, og jafnframt vitanlega dregið úr gildi fjárveitinga til verklegra framkvæmda. Í sambandi við gengisbreytingar áður hefur það aldrei verið talið fært að auka að neinu ráði og jafnvel ekki að neinu leyti fjárveitingar til verklegra framkvæmda í sambandi við gengisbreytingarnar. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, að um nokkra hækkun til þeirra verði nú að ræða, þó að það liggi ekki fyrir á þessu stigi, en þar er fyrst og fremst um að ræða skóla og hafnir, sem verður gerð till. um fyrir 3. umr.

Ég tel því eftir atvikum, að þá hafi verið reynt að haga útgjaldatill. fjárlagafrv. á þann veg, að naumast verði miðað við núverandi starfsemi ríkisins lengra gengið, og svo sem upplýst hefur verið hér við þessar umræður og ég gerði grein fyrir í haust, þá var sérstök undirnefnd fjvn. starfandi í allt sumar, eða frá því s.l. vor, að ég fór þess á leit við flokkana, sem fulltrúa eiga í fjvn., að slík n. yrði sett á laggirnar, og þessari n. hefur verið gefinn kostur á að fylgjast með bæði undirbúningi fjárlagafrv. og hafa aðstöðu til að athuga þá þætti ríkisrekstrarins, sem hún teldi ástæðu til, með það í huga, að einnig minnihlutaflokkarnir hefðu aðstöðu til þess að gera raunhæfar till. til sparnaðar á ríkisútgjöldum, en þeir hafa jafnan borið því við, raunar hverjir sem hafa verið í stjórnarandstöðu, að sá stutti tími, sem væri til umræðu við meðferð fjárlaga á Alþingi, væri of skammur til þess, að hægt væri að kryfja þessi flóknu vandamál til mergjar. Ég tel því vera komið á það stig, að það sé aðstaða fyrir minni hl. að gera sínar tillögur og ábendingar engu síður raunhæfar en meiri hl., og ég tel sjálfsagt, að þessi aðstaða sé sköpuð, en þá samtímis verður sjálfsagt að ætlast til þess, að minni hl. hagi þá till. sínum með hliðsjón af þessari aðstöðu, sem hann hefur fengið til þess að fylgjast með ríkiskerfinu.

Ég sé síður en svo ástæðu til að gagnrýna minni hl. fyrir viðbrögð hans í þessu sambandi, og ég fagna því, að báðir frsm. minnihlutaflokkanna hér í fjvn. tóku undir það, sem ég lýsti sem skoðun minni, þegar 1. fundur í undirnefndinni var haldinn, að við ættum, eða fjárveitingavaldið, bæði fjmrn. og fjvn., að geta haft náið samstarf út yfir flokkalínur um það að kryfja til mergjar ríkisbúskapinn sjálfan, þ.e.a.s. ríkiskerfið og kostnáð við það, og lagt áherzlu á sameiginlega að leggja grundvöll að till. til úrbóta. Eftir sem áður mundu auðvitað flokkarnir hafa mismunandi skoðanir um lausn efnahagsvandamála. Það væri allt annað mál og ekki hægt að gera ráð fyrir, að menn væru sammála um það, hvorki gengisbreytingu eða annað slíkt, um það mundu menn hafa sömu aðstöðu til að vera ósammála áfram. En ef þessir aðilar, fjmrn. annars vegar og fjvn., gætu sameiginlega markað stefnu varðandi aðhald í ríkisrekstrinum, þá væri geysimikið unnið. Og ég tel þegar mikið unnið í þessu efni með því samstarfi, sem hafizt hefur, og mér sýnist, að allir gangi að með góðan hug. Og vitanlega var forsenda þess samstarfs sú, að það væri lagður grundvöllur að athugun þessara vandamála eða skilyrði yrðu sköpuð til þeirra athugana, og það hefur verið gert með stofnun fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn., sem ég hygg, að allir séu sammála um, sem hafa kynnzt starfsemi þeirrar stofnunar, að þar hafi verið rétt stefnt og að þar hafi verið grundvöllur lagður að því, að það væri hægt að taka á þessum vandamálum öllum með meira raunsæi og með von um meiri árangur heldur en — eins og því miður oft hefur orðið að vera — að sparnaðarn. hafa verið settar á laggirnar, þó að þær hafi ekki haft aðstöðu til þess að koma með nægilega raunhæfar till., skort aðstæður til að láta rannsaka alla þætti vandamálanna, þannig að forstjórar stofnana og aðrir, sem hafa haft með þessi mál að gera, hafa með tiltölulega auðveldum hætti getað komið þessum till. fyrir kattarnef. Nú er ný aðstaða í þessu efni, sem ég tel sjálfsagt að framfylgja, og það gleður mig, að þessir nefndarmenn, talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna, hafa lýst því yfir, að þeir hafi áhuga á að halda slíkrí samvinnu áfram. Ég tók það fram í haust, að ég vildi að mínu leyti stefna að því, og tel þá, að það geti orðið.

Ég skal nú ekki fara langt út í þær ræður, sem talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa hér flutt, þó að það væri full ástæða til þess, og nál., sem þeir hafa hér birt. Ég vil ekki lengja umræðurnar. Og m.a. sé ég ekki ástæðu hér til að fara að taka upp almennar umr. um efnahagsmál, sem aðstaða er til að ræða á öðrum vettvangi, þó vitanlega sé ekkert við því að segja, að það sé rætt einnig við meðferð fjárlaga. En það voru ýmis atriði í orðum fyrst og fremst frsm. minni hl., sem gefa mér tilefni til að segja nokkur orð, og mun ég þá fyrst víkja að ýmsum atriðum, sem snerta frv. sjálft og ríkisreksturinn í þrengri merkingu, en síðan mun ég á eftir aðeins víkja nokkuð að nál. þeirra félaga, sem er mjög merkilegt af ýmsum ástæðum, og þó merkilegast fyrir eina sök: Ég held það sé í fyrsta skipti, sem við sjáum hér sameiginlega stefnu í efnahagsmálum frá þessum tveimur flokkum. Þetta er, held ég, fyrsta skjallega staðfestingin á þeirri sameiginlegu stefnu, þannig að þetta plagg, nál. þessara tveggja flokka nú, hlýtur af þessum sökum að vekja sérstaka athygli og verða krufið til mergjar og það á miklu betri hátt heldur en ég hef tök á að gera hér í stuttri ræðu. En þetta held ég, stjórnmálalega séð, vera eftirtektarverðan atburð. Þar er ekki aðeins um að ræða skoðun hv. þm. eða þessara manna í minni hl. fjvn. á fjárlagafrv. sem slíku, heldur er lýst skoðunum þeirra, sem þeir hafi haft og hafi um, hvernig hafi átt að leysa þann efnahagslega vanda, sem þjóðin á nú við að glíma. Þetta tel ég sérstaklega merkilegt.

Ég vil þá leyfa mér að víkja örlítið að ræðu hv. 3. þm. Vesturl. varðandi fjárlagamálin sjálf. Hann sagði, að verklegar framkvæmdir, eða hlutur þeirra, hefði stöðugt verið að minnka. Þetta er vitanlega rétt. Ef hann tekur heildarútgjöld ríkissjóðs, þá gefur það auga leið, að hlutur verklegra framkvæmda hlaut að minnka. vegna þess að það hafa komið inn í rekstur ríkissjóðs margvíslegir nýir þættir, og útgjöld vegna margvíslegrar þróunar í þjóðfélaginu hlutu að leggjast á ríkissjóð með vaxandi þunga. Og ef allir útgjaldaliðir hefðu átt að vaxa samhliða, í sömu hlutföllum, verklegar framkvæmdir og annað, þá hefði þetta auðvitað verið gjörsamlega óviðráðanlegt dæmi.

Hitt er rangt, að hlutur verklegra framkvæmda hafi með hliðsjón af verðlagi minnkað, það er kjarni málsins. Í mörgum greinum hefur hlutur verklegra framkvæmda vaxið mjög verulega, bæði innan fjárlagadæmisins og einnig utan þess, þ.e.a.s. í sambandi við vegamál.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið of mikið fljótræði í sambandi við sparnaðartill. ríkisstj. fyrr á þessu ári. Ég tel nú ekki, að það hafi verið neitt fljótræði í þeim till. Það lá nú þegar fyrir strax í byrjun, að sumt af því mátti reikna með, að væri örugglega hægt að framkvæma á þessu ári. Annað tók ég fram, að væri mjög vafasamt og væri meira um stefnumörkun að ræða fyrir framtíðina, vegna þess að ljóst væri, að eins og horfur væru, þá var sennilegt og raunar öruggt, að halda yrði svipaðri samdráttarstefnu á þessu sviði á næsta ári. Allt það, sem var reiknað með, að mundi sparast þarna, hefur sparazt, og ég hef ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum að því leyti, að undanskildum einu eða tveimur atriðum, sem ekki skipta veigamiklum fjárhæðum. Hitt er ég hv. þm. sammála um, að vitanlega er það alltaf erfitt að eiga svo skyndilega að taka slíkar ákvarðanir. Og þær gátu ekki orðið teknar nema með samdrætti ýmissar þjónustu. Þetta hefur alltaf komið á daginn. Og það er þess vegna eftirtektarvert og raunar nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, að sparnaði svo neinu nemi verður ekki komið á nema með slíkum samdrætti í þjónustu, sem ýmsir telja mikils virði. Hv. þm. vék að bíla- og vélanefnd og með þeim hætti, sem mér fannst dálítið óviðkunnanlegt. Hann sagði, að af þeim mönnum, sem hefðu unnið að till. um bílamál ríkisins, væri ekki við neinu góðu að búast, vegna þess að þeir hefðu allir ríkisbíl, þess vegna mundi það hafa orkað á þeirra till. Ég vil leyfa mér í fyrsta lagi að upplýsa, að þessir menn hafa ekki ríkisbíl. Einn þeirra mun hafa að vísu bíl til umráða frá sinni stofnun, en hinir hafa ekki ríkisbíl. Hins vegar tel ég ekki, að þetta skipti neinu meginmáli, því að ég álít, að allir þessir menn hafi gert raunsæjar till. í þessu og bent á þau vandamál, sem þarna er við að glíma. Og ég vil ekki leyfa mér að telja, að það hafi orkað á þeirra till., eða að þeir hafi forðazt að gera nauðsynlegar till. vegna þess, að það snerti þeirra hagsmuni. Ég held, að það megi á sama hátt segja, að það sé erfitt fyrir þingmenn yfirleitt að gera þá till. eða yfirleitt að treysta á nokkuð, sem þeir gera, ja, við skulum segja í sambandi við skattamál og annað slíkt. Það snertir yfirleitt alla, sem þær till. gera. En þó að þetta geti átt við í ýmsum tilfellum, þá finnst mér ekki sæmandi, að við séum að halda slíku fram, nema því aðeins að annað reynist svo.

Að bílamálunum skal ég annars víkja í sambandi við athugun, sem ég mun gjarnan vilja segja nokkur orð um vegna þeirra beinu till. um sparnað, sem hv. minni hl. er með. Varðandi stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar hafði það slegið allmiklu felmtri á hv. þm. að sjá, að stjórnarnefndarmennirnir, sem þar höfðu verið settir, hefðu hálf forstjóralaun. Ég get upplýst hv. þm. um það, að hann getur farið að róast, vegna þess að þétta var aðeins fyrsta árið, sem byggðist á því, að þessir menn urðu að vinna þarna stöðugt miklu meira en venjulegir nefndarmenn gera vegna skipulagsbreytinga, sem varð að gera á Skipaútgerðinni. Ég ætla hér ekki, og tel ekki viðeigandi, að fara að ræða um starfsemi forstjóra Skipaútgerðarinnar eða hugmyndir hans fyrr eða síðar, en ég hef mínar skoðanir á þeim, og þær skoðanir m.a. birtast í því, að það þótti rétt að setja þarna stjórnarnefndarmenn til þess að athuga rekstur þessa fyrirtækis. Þessir stjórnarnefndarmenn fá nú eðlileg laun í samræmi við það, sem nefndarmenn yfirleitt fá í slíkum stjórnum.

Hv. þm. sagði, að hann yrði þess var, að hjá nýjum stofnunum ríkisins væri minni festa í útgjöldum en hjá hinum eldri. Ég held, að það sé ákaflega erfitt að fullyrða svona, án þess að það sé kannað betur. Vitanlega er aukin útþensla hjá nýju stofnununum, vegna þess að þær hafa verið að vaxa upp á mjög skömmum tíma, en hinar hafa verið að þróast á mun lengri tíma, og það má auðvitað um það deila, hversu nýtilegar allar þessar stofnanir séu. Þær eru nú að vísu ekki margar. En ég býst við, að fyrst og fremst sé þar átt við stofnun eins og Efnahagsstofnunina, sem er nú eina nýja stofnunin, sem vaxið hefur upp fyrir utan Seðlabankann og fyrir utan deild þá í fjmrn., sem ég vék að, fjárlaga- og hagsýslustofnunina. Það hefur stöðugt verið hlaðið verkefnum á Efnahagsstofnunina, og ég held í dag, að þá séu menn sammála um það, að hún sé í rauninni ómissandi til þess að gera sér grein fyrir þeim vandamálum, sem við er að fást. Hvort þar hefur verið bætt við mönnum óeðlilega, það er álitamál, en. ég bendi aðeins á það, að það hefur ekki verið minni kröfugerð uppi frá hv. stjórnarandstæðingum um að fá upplýsingar um ótalmarga hluti langt umfram það, sem starfsmannahald þessarar stofnunar hefur gert henni mögulegt að vinna.

Hv. þm. vék að því, að skuldabyrði ríkissjóðs væri orðin mikil og hefði farið sívaxandi og að síðasta árið hefðu þessar skuldir vaxið mjög mikið. Og ég hef séð því haldið fram, og vitanlega eru það ekki rangar tölur, sem með er farið, að frá tímabilinu frá septemberlokum 1967 til septemberloka 1968 hafi skuldir ríkissjóðs hækkað um 12 hundruð millj. Þessi tala,er út af fyrir sig rétt, en það má ekki draga af henni rangar ályktanir, vegna þess að hér er raunverulega um tveggja ára lántökur ríkissjóðs að ræða, vegna þess að það stendur þannig af sér, að lán vegna framkvæmdaáætlunarinnar hafa verið tekin á þessu tímabili fyrir bæði árin, og enn fremur ber að gæta þess, að þarna er um að ræða lántökur, sérstakar, verulegar lántökur, vegna láns Landsvirkjunar, sem er sérstaks eðlis, og jafnframt kemur þarna inn, sem er sérstakt á þessu ári, brezka framkvæmdalánið, sem er um 280 millj. kr., og svo einnig hækkun vegna gengisbreytingar 210 millj., lán vegna Landsvirkjunar 190 millj. Töluvert af þessu fé hefur einnig verið endurlánað aftur, þannig að hér er ekki um beina skuldaaukningu ríkissjóðs að ræða. Þetta tel ég rétt, að komi fram. Varðandi það, að undanfarin ár hafi þróazt í ógæfuátt um skuldasöfnun hjá ríkinu, þá getur það auðvitað alltaf verið álitamál. Hins vegar vill nú svo til, að ég held, að hvert einasta ár hafi talsmenn hv. stjórnarandstöðuflokka borið fram ótal till. um það að taka miklu meiri lán heldur en við höfum þó lagt í að taka. Það er mál út af fyrir sig, en það verður þó að hafa í huga. En ég tel rétt, að það komi hér fram til þess að sýna, hvort hér hefur verið stefnt í hreina ógæfu og þessi lán hafi verið notuð sem eyðslueyrir, að gera grein fyrir því, að skuldir ríkissjóðs voru í árslok 1960 1343 millj. kr., og þá voru eignir umfram skuldir 1148 millj. En samkv. ríkisreikningi frá 1967, sem er síðasti reikningur, sem fyrir liggur, þá voru skuldir í árslok 2 milljarðar 368 millj., en eignir umfram skuldir 5 milljarðar 614 millj., þannig að skuldaauki á þessu tímabili var 1000 millj., en eignaauki var um 4500 millj. Auðvitað má endalaust ræða um tölur fram og aftur og draga af þeim mismunandi ályktanir, en það a.m.k. sakar ekki, að þessi hlið málanna sé einnig skoðuð.

Mig langar þá til að víkja aðeins að þessum sparnaðartill. hv. stjórnarandstæðinga, sem fram eru settar í nefndaráliti þeirra og eru töluvert eftirtektarverðar. Báðir talsmenn minni hl. n. lögðu áherzlu á það, að ríkisbáknið hefði stöðugt verið að þenjast út, og í nefndaráliti þeirra er þessi útþensla ríkisbáknsins talin vera meginorsök þess vanda, sem við eigum nú við að glíma í okkar efnahagslífi. Þetta er vitanlega mjög alvarlegt, ef svo er, og það gerir auðvitað því nauðsynlegra að kryfja til mergjar, hvernig sé hægt að losna við þetta óskaplega bákn, og hvort það megi þá ekki með tiltölulega skaðlausum hætti, úr því að þetta er meinsemd í þjóðfélagskerfinu. Þess vegna vitanlega hefði mátt gera ráð fyrir því, að það kæmu fram stórvirkar niðurskurðartill. frá þessum ágætu vinum mínum í sambandi við þetta vandamál, ekki sízt þar sem þeir, eins og ég sagði, slá því föstu í þessari sameiginlegu efnahagsmálastefnu sinni, að þetta sé höfuðbölvaldurinn. Hv. 6. landsk. þm. sagði líka í sinni ræðu, þegar hann lýsti þessu óskaplega ferlíki, sem allt hefur verið að gleypa á undanförnum árum, að það hefði aldrei verið hlustað á till. um að draga úr eyðslu ríkissjóðs. Ég verð nú að segja, að ég man ekki eftir þessum till. nema till., sem ég held að hafi gengið aftur þing eftir þing, um að draga úr kostnaði við löggæzlu á Keflavíkurflugvelli og að leggja niður tvö eða þrjú sendiráð. Ég held nú sannast sagna, að við höfum alltaf verið sammála um það svona innst inni, enda hver maður getað gert sér grein fyrir því, hversu miklu þessar till. hefðu fengið áorkað til þess að leysa þennan mikla vanda, ef það er svo, að ríkiskerfið sé orsök allrar verðbólgu í þjóðfélaginu. En sleppum því. Það getur vel verið, að þetta hafi gerzt, að þessar till. hafi verið svona smávægilegar vegna þess, að þessir ágætu menn hafi ekki haft aðstæður til þess að forma till., en úr því að sú aðstaða hefur nú skapazt, þá vitanlega má gera ráð fyrir, að till., sem hér eru settar fram í fyrstu sameiginlegu stefnuskrá í efnahagsmálum frá þessum tveimur flokkum, séu ekki af lakari endanum. Nú skal ég taka það skýrt fram, að ég hef ekkert við þessar till. að athuga, þannig að það er óþarfi fyrir okkur að deila um það, en ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, að hér er auðvitað um till. að ræða, sem, þó að allt reyndist nú rétt, sem þarna er sagt, mundu auðvitað hafa í för með sér ákaflega lítinn sparnað miðað við ríkiskerfið í heild og gætu auðvitað á engan hátt orðið til þess að leysa þann mikla vanda, sem í efnahagsmálum er við að glíma, enda tóku þeir það báðir fram, báðir hv. þm., sem ég hef ekkert við að athuga, að einmitt þyrfti að vinna að þessu kerfisbundið. Þetta tæki langan tíma, og það væri margt í þessu flókið og þyrfti þess vegna að vinna með sameiginlegum átökum að þessu í lengri tíma. Mig langar aðeins til að hlaupa á þessum till.:

1. Áð sameina rekstur ríkisskipa. Þetta hefur verið samþykkt, og er verið nú að vinna að því að koma þessu í framkvæmd í sambandi við Skipaútgerðina.

2. Að sameina verkstæði og viðgerðarþjónustu fyrir ýmsar ríkisstofnanir. Þetta hefur einnig verið ákveðið, og það er n. starfandi í því og hefur verið það síðan í sumar. Og einnig sérstaklega að athuga starfsemi Landssmiðjunnar, sem þarna er bent á, og nota hana í þágu þessara ríkisstofnana. Það er einnig verið að vinna að því þessa dagana.

Þriðji liðurinn hefur ekki verið tekinn enn til sérstakrar athugunar. Það er rétt að setja upp sameiginlega verkfræði- og tækniþjónustu. Ég tel ekki nema sjálfsagt, að það sé skoðað.

4. Að Landnám ríkisins verði sameinað Búnaðarfélagi Íslands hefur auðvitað sáralitla þýðingu sem sparnaður. Það má vel vera, að það sé rétt að gera þetta, en auðvitað mundi ekki Búnaðarfélagið taka þetta að sér án þess að fá greiðslur fyrir það, þannig að sparnaðurinn, sem í þessu fælist, væri fyrst veigamikill, ef ætti að draga úr starfi landnámsins. Þá gæti þetta munað verulegum fjárhæðum, en eins og kunnugt er, þá var það einn þáttur sparnaðarráðstafananna í ár að lækka fjárveitingu til landnámsins um 7.5 millj.

5. Það er einnig gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, að Orkustofnun og ríkisrafveitur sameinist í eina stofnun. Þessum stofnunum var skipt í tvær stofnanir á síðasta þingi, vegna þess að það var skoðun þeirra, sem að athugun þeirra mála hafa unnið, að það væri hagkvæmara og mundi auðvelda traustari skipulagningu þessarar starfsemi og væri líklegra til þess að draga þar úr eyðslu fremur en öfugt.

6. Að hraða endurskoðun utanríkisþjónustunnar. Hún er nú í endurskoðun eftir till., sem samþykkt var hér á síðasta þingi, og ég get vissulega tekið undir það, að það sé rétt að hraða þeirri endurskoðun.

7. Að hraðað verði endurskoðun á framkvæmd skattalaga. Skattal. eru í heild í veigamikilli endurskoðun, eins og ég hef áður skýrt frá, en framkvæmd þeirra hefur líka verið í athugun á vegum yfirmanna skattkerfisins. Ég hef skýrt frá því, að um þetta hafi verið haldnar ráðstefnur sérstakar milli þeirra manna, sem eiga að sjá um framkvæmdina. Það hefur verið unnið að sérstökum till. um það að endurskipuleggja og bæta skattálagningu og skatteftirlit, og nú síðast er í þessum fjárlagatill. gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu til embættis ríkisskattstjóra eða skattrannsóknardeildarinnar, til aukins bókhaldseftirlits og til þess að bæta aðstöðu þessarar starfsemi í ýmsum greinum. Þetta er eftir ákveðnum till. skattrannsóknarstjóra og byggt á þeirri reynslu, sem þegar er fengin í þessu starfi. Hins vegar gerist þetta auðvitað ekki með neinu skyndiáhlaupi, heldur verður að sækja hér á jafnt og þétt og læra af því, sem gert er, um framhaldið, og ég hygg, eftir því sem ég hef getað fylgzt með þessu starfi, að þá sé það allt unnið með skynsamlegum hætti, og ég hef lýst því yfir hér margoft, bæði hér í þ. og við menn, sem að þessum málum vinna, að ég mun fyrir mitt leyti, meðan ég sit í þessu embætti, leggja mig fram um það að veita þeim alla nauðsynlega aðstöðu til þess að vinna þetta þýðingarmikla verk.

8. Eftirlit og innheimta með skilum á söluskatti. Að því hefur verið unnið nú um lengri tíma að athuga þetta mál, og það er nú verið að vinna að skipulagsbreytingum. Ég veit, að það er hluti af söluskatti, sem ekki kemur til skila, en hins vegar hafa verið gerðar á því sérstakar athuganir, sem auðið er að gera, að vísu ekki nákvæmlega, en þó tiltölulega með auðsæjum hætti, og ef gengið er út frá sömu forsendum fyrir öll undanfarin ár, þá hefur undanskot á söluskatti minnkað mjög verulega. Og þeir menn, sem um þau mál hafa fjallað, telja, að undanskot frá söluskatti séu miklum mun minni en undanskot frá tekjuskatti og sé í rauninni ótrúlegt, að það skuli ekki vera um meiri fjárhæðir að ræða, en vitanlega verður að stefna að því, að þær geti orðið enn minni.

9. Varðandi leigumála ríkisins um húsnæði þá er stefnt að því — og það var ákveðið í fyrra, og ég skýrði frá því í minni fjárl.-ræðu — að enga leigusamninga mætti nú gera nema bera þá undir hagsýslustjóra með það í huga að samræma þessa leigumála. Vitanlega er það sjálfsagt, þar sem það er auðið — ekki sízt með hliðsjón af því, að það er nú meira framboð á húsnæði en verið hefur — að segja upp leigumálum, þar sem þeir reynast vera óhagkvæmir, og stefna að því að lækka þá, en ég tel, að þegar hafi verið sett upp kerfi til þess að tryggja þessa framkvæmd mála.

10. Nýtt stjórnarform póst- og símamálastjórnarinnar sé ég ekki ástæðu til að ræða um. Ég hef lýst því oft yfir áður, að ég tel, að Póstur og sími eigi ekki að vera ráðuneyti eins og það er í dag, heldur eigi að leggjast undir samgmrn. Það tel ég sjálfsagt, en veit að öðru leyti ekki, hvort sérstök stjórnarn. yfir þessa stofnun mundi hafa mikla þýðingu.

11. Þá vil ég víkja að miklu vandamáli, sem ég hef margoft sjálfur gert hér að umtalsefni, og það eru hlunnindi embættismanna, forstjóra og annarra, sem hafa bifreið við embætti sín eða stofnun, sem ríkið á. Till. um þetta efni, fleiri en ein hugmynd að þeim, voru lagðar fyrir undirnefnd fjvn. í sumar, og ég hygg, að n. hafi verið með þær í athugun. Ég hef fyrir fram ekki neitt við það að athuga, að komið verði á þeirri framkvæmd í þessum málum, að allar ríkisbifreiðar verði seldar og menn fái bifreiðastyrki. Það getur verið, að það sé einfaldasta aðferðin. Þetta er flókið vandamál, en ég vil hins vegar minna á það, sem ég hef áður gert hér, að málið er vandasamara en þetta, vegna þess að það hefur reynzt í mörgum greinum ákaflega erfitt að fá sem forstjóra nægilega góða menn fyrir ýmsar ríkisstofnanir vegna þess, hve forstjórarnir eru illa launaðir, og ef við ætlum að svipta þá þessum hlunnindum, verður ekki hjá því komizt að taka launamál þessara manna til endurskoðunar. Það er grundvallaratriði, ef á að vera hægt að halda uppi sparnaði í ríkiskerfinu og krefjast virkni í starfsemi ríkisstofnana, að það sé hægt að fá úrvalsmenn til að vera forstjóra þeirra, og því miður er ríkið þarna verr sett en einstaklingar, því að það getur ekki launað menn eftir starfi þeirra og afköstum, heldur verður að vera bundið af mjög þröngum launareglum ríkiskerfisins, og þetta hef ég sjálfur lent í vanda með hvað eftir annað með ráðningu á starfsmönnum, sem ég hef talið grundvallaratriði að ráða, og þess vegna verður ekki hjá því komizt að benda á þennan vanda, en vitanlega er hægt að hugsa sér að leysa þetta með hækkun á launum þessara manna með einhverjum öðrum hætti. Og ég skal fúslega játa það, að æskilegasta skipan þessara mála væri sú, að ríkið ætti engar bifreiðar til þessara nota. Það verður auðvitað að eiga allmargar bifreiðar til margvíslegra þjónustustarfa, en þá á að gilda um þær bifreiðar það, að þær séu eingöngu notaðar í þágu stofnunarinnar og þeim sé lagt, en starfsmennirnir hafi þær ekki til ráðstöfunar, eins og því miður er núna allt of mikið um. Þessu er ég nákvæmlega sammála, þannig að það verða ábyggilega engir árekstrar milli okkar um það að kanna þetta vandamál, og mér finnst það aðeins styrkur, ef hv. fjvn. getur sameiginlega komizt að einhverri hugmynd um, hvernig eigi að taka á þessu vandamáli.

12. liðinn um sameiginlega bifreiðastöð hér í Reykjavík hef ég ekki skoðað, þannig að ég geti neitt um það fullyrt, hvort það er hagkvæmt eða ekki, en það er sjálfsagt að kanna það.

Að eftirlitsstörf með verklegum framkvæmdum verði sem mest sameinuð, tel ég sjálfsagt að gera, og nú liggur hér fyrir Alþ. frv. um undirbúning og skipulag verklegra framkvæmda, sem ég tel einnig mjög mikilvægt, að hægt sé að samþykkja og leggja grundvöllinn að því, sem er einnig veigamikið, hvernig upphaf verklegra framkvæmda er.

Að gætt verði hófs um utanfarir á vegum ríkisins er stefna, sem ég tel sjálfsagt að fylgja, og tel, að hafi verið fylgt eins og hægt er, þó að megi alltaf deila um einstök atriði í því. Það var ákveðið í byrjun þessa árs og gerðar ýmsar breytingar, sem drógu verulega úr utanferðum, sem ríkið hefur kostað til þessa. Sé hægt að gera það meira, þá er það sjálfsagt, en hins vegar komumst við ekki fram hjá þeirri staðreynd, að við þurfum að eiga samskipti við marga og ekki hvað sízt kannske, þegar erfiðleikar steðja hér að, þannig að það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að ganga lengra í þessu efni.

Að setja reglur um opinberar veizlur og móttökur hef ég heldur ekki nokkurn hlut á móti, ef það er hægt. Ég hef lagt á það áherzlu hvert ár, að það verði reynt að gera þetta með öllu því hófi, sem hægt er að koma við. Það kann vel að vera, að það sé hægt að koma því í meira hóf en nú er, en allt er þetta einnig vandamikið, m.a. fyrir þá sök, að það hefur komizt á sú venja, sem er mjög eftirsótt, að jafnvel heilar stofnanir, sem halda hér almenn fjöldaþing; panti beinlínis, að ríkisstj. eða forseti hafi boð fyrir þessar stofnanir, og það þykir eiginlega varla hægt að halda svona þing, án þess að slíkt boð sé. Allt kostar þetta sína peninga, en ég tel, að það geti komið til greina, að við leggjum þetta allt saman niður, ef menn eru sammála um það.

Að lög um lögreglumál verði endurskoðuð til að draga úr kostnaði. Þetta var ákveðið í sparnaðarl. frá í vor, og þá var gert ráð fyrir að stefna að því að lækka um 10% kostnaðinn við löggæzlumál. Það er gert ráð fyrir því sama nú í fjárlagafrv., þannig að vitanlega verður að gera þá endurskipulagningu í þessum efnum, og það liggja fyrir till. um það efni, sem ég hef einnig óskað umsagnar hv. fjvn. um.

Sem sagt ég hef ekkert við neina af þessum till. að athuga. Það er eitt atriði enn, sem hv. frsm. minni hl. vék að. Það var kostnaður við ýmis fógeta- og sýslumannsembætti, og það kann vel að vera, að það sé eitthvert ósamræmi þarna á milli. Hins vegar hafa öll þessi embætti kvartað mörg undanfarin ár um, að þau hefðu allt of lítinn mannafla. Og þetta hefur allt frá árinu 1957 eða að ég hygg 1958 verið undir eftirliti nefndar hvað mannaráðningar snertir, og yfirleitt hefur rignt yfir mann kvörtunum frá fógetum og sýslumönnum; að þeir hafi ekki fengið að ráða starfsfólk eins og þeir þyrftu. Hins vegar kann hér að vera ósamræmi á, og það, sem hv. þm. nefndi sem dæmi, er kannske táknrænasta dæmið um þetta, sem ég get vel búizt við, að sé rétt, og ég hef þegar óskað eftir fyrir alllöngu, að væri athugað, og það er með Siglufjörð, vegna þess að Siglufjörður var á sínum tíma miklu umfangsmeira embætti, þegar síldin var þar í blóma sínum,. en það mætti segja mér, að þarna væri kannske dálítið „rudimentalt organ“, ef svo má segja, að það hafi ekki fækkað starfsliðinu, þegar dró úr þessari þjónustu, sem þarna þurfti að veita, þannig að ég hygg, að hv. frsm. hafi kannske þarna drepið á þetta atriði, sem er líklegast, að sé hægt að segja, að sé um of mikið mannahald að ræða á þessu sviði.

Ég vil svo ekki taka undir það algjörlega, sem hv. þm. sagði, að þessi dæmi, t.d. við skulum segja um Siglufjörð og samanburð þess við Patreksfjörð og annað þess konar, sanni það, að allt þetta kerfi þurfi að endurskoða. Það sannar ekkert um það efni, vegna þess að hér hefur verið drepið á t.d. fógetaembættið, kannske það atriði, sem er aðallega að. Og það sannar auðvitað ekki, að það sé alls staðar eitthvað að, en það breytir ekki því, að þessi dæmi öll, sem hv. minnihlutamenn benda á, öll þau, sem ég benti á í minni fjárlagaræðu og vafalaust mörg önnur, eru þess eðlis, að þau vísa okkur veginn, og ég vonast til, að við getum sameiginlega stefnt að því marki, ef við eigum eitthvað með þessi mál saman að sælda einhvern tíma, að endurskoða þetta í ljósi þeirrar stefnu, sem við virðumst allir vera sammála um.

Það hefði verið fróðlegt að ræða hér um skuldirnar við útlönd og annað þess konar, það tæki bara of langan tíma, það væri alveg mál út af fyrir sig að ræða. Það dæmi hefur verið sett upp ákaflega villandi á síðustu tímum, m.a. verið reynt að slá því fram, að gengisbreytingin hafi aukið stórkostlega greiðslubyrði okkar við útlönd, og settar upp risavaxnar tölur í því sambandi. Það er auðvitað rétt, að erlendar lántökur geta haft slæm áhrif á afkomu einstakra fyrirtækja, sem hafa tekið þessi lán, svo fremi að tekjuöflun þeirra vaxi ekki að sama skapi, sem á sér að vísu stað um allmarga aðila, en vitanlega hefur gengisbreyting ekki nokkur minnstu áhrif á magn erlendra skulda fyrir þjóðarbúið. Þó að gengisbreytingin hafi hækkað þessar skuldir um 5 þús. millj. eða eitthvað nálægt því, þá hefur þetta ekki falið í sér raunverulega hækkun um eina krónu, ég vil ekki orða það þannig. Það hefur auðvitað hækkað um meira en eina krónu, en ekki hækkað í erlendri mynt, sem neinu nemi eða að neinu leyti. Og að svo miklu leyti, sem gengisbreytingin hefur verkað örvandi á framleiðslu, sem henni er ætlað að gera, og lagt grundvöll að því, að þjóðarbúið geti haldið henni gangandi með eðlilegum hætti, þá vitanlega verkar gengisbreytingin beint til þess að bæta aðstöðu þjóðarinnar til að borga sínar erlendu skuldir. Það er svo allt annað mál, sem er ástæðulaust að neita, að skuldabyrðin hefur auðvitað vaxið mikið nú síðustu tvö árin, sérstaklega nú á þessu ári, og það er vegna þeirrar einföldu staðreyndar, að tekjur okkar til að standa undir þessum skuldum hafa minnkað um helming á tveimur árum. Þá auðvitað gefur það auga leið og skilur hver maður úr persónulegum búskap sínum, að það eykur auðvitað skuldabyrðina og skapar mikinn vanda, en það sannar ekkert um það, að óskynsamlega hafi verið haldið á um lántökur, og sannleikurinn er sá, að þegar verið er að reikna það, að þetta merki útgjöld, þetta merki tekjur allra frystihúsa og þar fram eftir götunum, þá er þetta allt meira og minna villandi, vegna þess að geysistórar fjárhæðir af þessum skuldum síðustu árin eru í sambandi við sérstakar gjaldeyrisskapandi framkvæmdir. Við skulum taka Búrfell og Straumsvíkurhöfn, þar sem er um feiknamiklar lántökur að ræða, en þetta er enginn baggi á þjóðinni, vegna þess að þarna eru tryggðar á móti gjaldeyristekjur, sem í framtíðinni standa straum af þessum lánum. Hin miklu flugvélakaup falla á þessi ár, sem skipta geysilegum fjárhæðum, meginhlutinn af tekjum þessara flugvéla er í erlendum gjaldeyri, og þar af leiðandi vaxa þær í samræmi við gengisbreytingarnar, og hér er vitanlega ekki verið að leggja neinn bagga á þjóðfélagið almennt, heldur hafa þarna skapazt skilyrði til stóraukinnar vinnu fyrir mikinn fjölda þjóðfélagsborgara.

Og allur fiskiflotinn, sem var vitnað í, að væri í miklum skuldum. Það er rétt, en þennan fiskiflota hefði ekki verið hægt að kaupa síðustu árin, ef ekki hefðu verið tekin erlend lán, og vitanlega, ef allt hefði gengið að óskum, hefði það skilað þjóðarbúinu margföldum gróða að hafa tekið þessi lán og er þegar búið að gera það að vissu leyti, því að síldveiðin, sem var t.d. á s.l. ári, hefði ekki orðið nein, ef þessi floti hefði ekki verið til staðar, og sáralítil einnig á árinu þar áður. Það er því mjög villandi, þegar talað er um, að þessar lántökur sýni eitthvert skelfilegt ástand, sem sýni, að yfirvofandi sé hjá okkur gjaldþrot vegna þessara ógætilegu lántaka. Hitt er svo annað mál, og því skal ég á engan hátt draga úr, að ef heldur áfram þessi mikli samdráttur í okkar þjóðartekjum eða útflutningstekjum, þá auðvitað verðum við að fara ákaflega varlega, og þá verður þetta okkur þungur baggi næstu ár. Það er fjarri mér að mótmæla því.

Því er haldið fram af báðum hv. talsmönnum minni hl., að ríkisstj. stefni sýnilega með fjárlagaboðskap sínum að atvinnuleysi, og þetta byggist á því, að bent er á, að það sé gert ráð fyrir svo miklum samdrætti á tekjum ríkissjóðs, að það hljóti að leiða til atvinnuleysis. Vitanlega væri mjög slæmt, ef þetta væri rétt, og þá yrði í fullri alvöru að gera sér grein fyrir því, en á þessu máli eru tvær hliðar. Sú hliðin, sem þessar áætlanir byggjast á, er fyrst og fremst varðandi stöðuna út á við. Það er auðvitað alveg tilgangslaust fyrir okkur að segja, að við þurfum og megum ekki draga úr neyzluvöruinnflutningi nema svona og svona mikið, ef við höfum ekki peninga til að kaupa þessar vörur, og ef verið er að tala um það, að það sé hættulegt, að við séum komnir á yztu nöf með það að verða háðir öðrum þjóðum eða jafnvel gjaldþrota fyrir skuldasöfnun erlendis, þá tjóar ekki að halda áfram innflutningi eins og ekkert hafi í skorizt, þó að við höfum misst helming okkar gjaldeyristekna, það tjóar ekki, og þess vegna verðum við að reikna með samdrætti og vitanlega eru þessar aðgerðir, sem gerðar hafa verið nú miðaðar við það, að það verði allverulegur samdráttur í innflutningi. Og hv. stjórnarandstæðingar hafa bent á það sjálfir, að það væri sjálfsagt að banna innflutning á einum og öðrum vörum. Þrátt fyrir það að gert sé ráð fyrir þeim samdrætti, sem tekjuáætlun fjárl. er byggð á, þá er samt gert ráð fyrir, að halli verði á viðskiptum út á við um í kringum 500– 600 millj. á næsta ári, og auðvitað verður að brúa það bil með gjaldeyrislántökum, vegna þess að það er ekki talið með neinu móti hægt að ganga lengra í þessari skerðingu á innflutningi á neyzluvörum.

Þó að þannig sé gert ráð fyrir samdrætti í neyzluvöruinnflutningi, þá þarf það auðvitað ekki að merkja atvinnuleysi, vegna þess einmitt að það má gera ráð fyrir, að vegna stórbættrar aðstöðu íslenzks iðnaðar verði miklum mun meira keypt af innlendum varningi í landinu og það komi beinlínis fram aukin atvinna á þeim vettvangi.

Ég tek alveg undir það með þessum ágætu mönnum, að það verður að beina að því allri orku að koma í veg fyrir atvinnuleysi, og ríkisstj. hefur stefnt með sínum aðgerðum í þá átt að reyna að tryggja atvinnu jafnhliða jafnvægi í viðskiptunum út á við, sem er okkur auðvitað alveg óumflýjanlegt að tryggja. Till. um 350 millj. kr. í þessu skyni sem fjárveitingu úr ríkissjóði skal ég ekki mikið um segja. Ég vil aðeins taka það fram, að ríkisstj. hefur gert sér fullkomna grein fyrir því, að það geti þurft að útvega fé, ég skal engar upphæðir nefna þar, til þess að örva atvinnulífið á ýmsum sviðum. Hvort það verður þessi upphæð eð a einhver önnur, skal ég ekkert um segja, um það fara fram eða væntanlega munu fara fram um það viðræður, ekki hvað sízt þennan þátt vandans, milli stéttasamtaka og ríkisvaldsins, hvernig tryggja eigi gegn atvinnuleysi, og það er tímabært að taka ákvörðun um það efni þá, og verður þá að sjálfsögðu að leita eftir fjáröflun í því skyni, ef á að leggja á ríkissjóð þar auknar byrðar.

Sú röksemd, að það þurfi ekki að útvega fé til þess að mæta þessu, vegna þess að ef atvinnuleysi skelli á, muni draga miklu meira úr tekjum ríkissjóðs.. en gert er ráð fyrir í frv., stenzt ekki fyrir þá sök, að frv. er byggt á því, að það verði ekki atvinnuleysi, þannig að ef atvinnuleysi yrði stórfellt, þá mundi enn þá versna hagur ríkissjóðs frá því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég hef þá vikið að þeim atriðum, sem snerta fjárlagafrv. sem slíkt; og öðrum, sem óbeinlínis snerta það, en að lokum langar mig til að segja aðeins örfá orð um hina sameiginlegu efnahagsmálastefnu stjórnarandstöðuflokkanna, sem hér birtist í fyrsta skipti á prenti, ekki vegna þess að ég geti gert henni nein fullnægjandi skil. Það þarf til þess miklu meiri athugun á þessum einstöku stefnuatriðum, sem fram eru sett, heldur en hægt er að gera á þeim stutta tíma, sem liðinn er síðan ég las þessa eftirtektarverðu yfirlýsingu. Hv. frsm. minni hl. ræddi hér nokkuð um stjórnarviðræðurnar í haust eða viðræðurnar milli stjórnmálaflokkanna og sagði, að fulltrúar stjórnarflokkanna hefðu mætt eins og ólesin börn til þessara viðræðna, vegna þess að engar upplýsingar hefðu verið til. Vitanlega er það mikill misskilningur, að þeir hafi mætt á nokkurn hátt ólesnir og upplýsingar hafi ekki verið til, því sannleikurinn er sá, að á mjög stuttum tíma var aflað upplýsinga og lagðar fyrir viðræðun. upplýsingar, sem voru miklu fullkomnari heldur en nokkru sinni hafa verið til hér í okkar þjóðfélagi áður og sýndu, að vissulega hafi af mörgum verið unnið og margt verið kannað, en það lá fyrir þegar í upphafi, að það væri ekki til hlítar hægt að gera sér grein fyrir vandamáli sjávarútvegsins fyrr en við sæjum betur, hvernig útkoma síldveiðanna yrði, og væri betur búið að gera upp frystihúsadæmið. Það hefur aldrei verið gert fyrr en í árslok og var því óvenjulegt, að skyldu á þessum tíma liggja fyrir jafnnákvæmar upplýsingar og þar var um að ræða.

En hvort sem menn hafa mætt þarna ólesnir af stjórnarliðinu eða ekki. þá er það auðvitað slæmt, ef svo hefur verið, en það er þó enn þá verra að fara úr skóla ólæs, það er enn þá verra, og það er það, sem hv. stjórnarandstæðingar virðast hafa gert, eða a.m.k. fara þeir ákaflega dult með sína leskunnáttu, ef hún er þá einhver.

Það nefnilega gerðist þarna, að stjórnarandstæðingar fengu á þessum tíma nákvæmlega allar þær sömu upplýsingar og ríkisstj. hefur haft til að byggja sínar till. á um lausn vandamálanna, og þetta er alveg nauðsynlegt að komi skýrt fram. Undanfarin ár hefur því verið haldið fram af stjórnarandstöðunni, að hún hafi ekki getað gert till. í efnahagsmálum vegna þess, að hún hafi ekki fengið að fylgjast með, stjórnin sitji með sína sérfræðinga, sem vinni fyrir hana, og stjórnarandstæðingar geti þar af leiðandi ekki formað neinar till. Nú er engin slík afsökun fyrir hendi, ekki á nokkurn hátt, þannig að þessar till. hefðu átt að geta legið alveg jafn vel fyrir eins og till. stjórnarliðsins og jafn snemma. Þær hafa ekki sézt hér á Alþ. nema ég held það eina atriði í þeim að fella niður söluskatt á fiski og einhverjum vörum, sem sáust hér. Ég held, að ég fari rétt með það, að það sé eini þáttur þessara efnahagsvandamála, sem hér hefur sézt í þskj., þangað til núna, að við sjáum það hér, að lausnin yrði að tryggja fulla atvinnu, ja, hvaða lausn, og tilfærslan milli stéttanna yrði sem minnst og legðist á sem breiðustu bökin. Hvaða millifærsla? — Og aðgerðinni fylgdi sem minnst áhætta fyrir fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar. Vitanlega eru allir sammála um það og í rauninni um þetta allt. Og það, sem þó satt er, ef ég má með leyfi hæstv. forseta aðeins vekja athygli á því, er stjórnarandstaðan lagði til, að byrjað yrði á að minnka vandann með því að draga úr rekstrarkostnaði, draga úr eyðslu með því að nota fjármuni með stjórnsemi og samkv. skipulagi, beina fjárfestingu að þeim verkefnum, sem þjóðina skipta mestu, og með stjórn á notkun erlends gjaldeyris. Þegar þjóðin breytir um stefnu frá því sem nú er, tekur hún upp stjórn á efnahagsmálum í stað stjórnleysis, snýr frá verðbólgustefnu að festu og sparnaði. Sú stefnubreyting á fyrst að eiga sér stað í ríkisbúskapnum sjálfum. Útþensla, eyðsla og ofsköttun undanfarin ár hefur haft meiri áhrif á verðbólguna og almenna eyðslu í landinu en hægt er að gera grein fyrir í nál. eins og þessu. Þetta er mjög eftirtektarvert. En hvernig í ósköpunum átti með þessum úrræðum, jafnvel þó að vextir hefðu verið lækkaðir eins og hér hefur verið talað um, útflutningsgjöld afnumin og tekið upp breytt tryggingakerfi, að leysa þann vanda, sem var þarna við að fást? Þetta eru allt mál, sem taka miklu lengri tíma, alveg á sama hátt og hv. frsm. sagði alveg réttilega um sparnað í ríkisbúskapnum. En að það hefði nægt til þess að bjarga atvinnuvegum, sem voru að stöðvast eða stöðvaðir, það er mér hulinn leyndardómur. Dagblaðið Tíminn hefur sjálft sagt í ritstjórnargrein, sem átti að draga upp, hversu hrakleg myndin væri, náttúrlega hjá stjórninni, að það hefði legið fyrir og lægi fyrir á borðinu, að það vantaði 1400 millj. kr. tilfærslu til sjávarútvegsins til að hægt væri að leysa vandann. Hvernig menn geta látið sér hugkvæmast, að þessar óljósu bollaleggingar hefðu getað leyst vandann, það er mér hulinn leyndardómur. Ég er ósköp hræddur um, að eftir að þessi sameiginlega stefna hefur hér birzt, þá verði það hulið æðimörgum, hvernig hefði átt að koma í veg fyrir það, að atvinnulífið stöðvaðist og það atvinnuleysi skylli yfir, sem við öll erum sammála um, að hefði verið skelfilegt, og því vildi ríkisstj. ekki bera ábyrgð á, að gerðist. Það er öllum vitanlegt, og við skulum ekkert vera að vefja fyrir okkur, að það voru ekki til nema þrjár leiðir í þessum vanda — þetta eru allt aukaleiðir, sem hér er talað um, sem gátu hjálpað til, en alls ekki leyst höfuðvandann — það var annað hvort gengisbreyting, stórfelld uppbótastefna eða stórfellt nýtt uppbótakerfi eða niðurfærsla verðlags og launa. Þetta eru þær einu þrjár meginleiðir, sem komu til greina, og það hefur enn þá ekki fengizt sagt frá hv. stjórnarandstæðingum og ekki heldur í þessari sameiginlegu stefnu þeirra, hverja þessara þriggja leiða þeir vildu fara. Hefðu þeir tekið við stjórninni í haust, þá er ég ósköp hræddur um, að þeir hefðu neyðzt til þess að forma þetta með einhverjum hætti öðruvísi en hér er gert.

Þessa sameiginlegu stefnu eigum við eftir að skoða og vafalaust margt um hana að segja, og ég skal ekki eyða þessum tíma lengur í að fjalla um hana, það er ástæðulaust. Ég óska aðeins þeim stjórnarandstæðingum til hamingju með að hafa sett þessa stefnu niður á blað og undirskrifað hana sameiginlega, að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess að tefja tímann frekar með athugasemdum um einstök atriði málsins.