19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í D-deild Alþingistíðinda. (3814)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég er sammála þeim tveim hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, um það, að náið samband hlýtur að vera á milli aðildar okkar að EFTA og möguleika okkar á því að gerast aðilar að norrænni efnahagssamvinnu, og hef ég ekki neinu við það að bæta. En ég hef ekki getað stillt mig um það að standa hér upp og lýsa sérstökum fögnuði mínum yfir þeim áhuga, sem hv. 6. þm. Reykv. virðist hafa á einhvers konar aðild Íslands að norrænni samvinnu á sviði efnahagsmála og ég tel enga ástæðu til að draga í rauninni í efa, að sá áhugi sé einlægur. Ég hafði raunar, áður en hv. þm. fór að hreyfa þessu máli á hv. Alþ. staðið í þeirri trú, að hv. þm. væri mjög eindreginn einangrunarsinni á sviði efnahagsmála og sá er grunur minn, að e.t.v. hafi hann ekki gert sér fyllilega ljóst, hvaða afleiðingar virk þátttaka Íslands í norrænni efnahagssamvinnu mundi hafa á öðrum sviðum og vil ég leyfa mér að fara um það örfáum orðum.

Mér eru ljósir, eins og kom fram í ræðum hæstv. ráðh., ýmsir annmarkar á aðild okkar að norrænni efnahagssamvinnu. Að vísu finnst mér, að of mikið hafi að undanförnu verið gert úr vandkvæðum okkar á því að gerast aðilar að sameiginlegum vinnumarkaði Norðurlanda. Og ég hugsa, að þær hættur, a.m.k. eins og ástæður eru nú, sem slíkt mundi hafa í för með sér, væru í miklu ríkara mæli í því fólgnar, að slíkt mundi leiða til þess, að útstreymi yrði úr landinu til Norðurlanda. En ég held, að hættan sé mjög lítil á því, þó að hún kunni að hafa verið fyrir hendi fyrst eftir stríðið, að hingað verði mikið aðstreymi frá Norðurlöndunum. Og ekki má gera sér of miklar vonir um það heldur að mínu áliti, að við fáum mikla markaði á Norðurlöndunum, þó að einhverjir möguleikar kunni að vera í því efni. Samt sem áður er ég í þessu efni samherji hv. 6. þm. Reykv. að því leyti, að ég tel, að þetta mál eigi vandlega að athuga og teldi að ýmsu leyti mjög æskilegt, að við gætum orðið virkir þátttakendur í þessari samvinnu. En meginkosturinn, sem að mínu áliti er við það, er sá, að gerðumst við aðilar að slíkri samvinnu, mundi það knýja okkur til þess að reka áfram svipaða stefnu í peninga– og viðskiptamálum og hefur verið rekin í öllum löndum V.–Evrópu undanfarin ár, einnig hér. Ég veit, að hv. stjórnarandstæðingar eru þessu ekki sammála. Einmitt stefnubreytingin, sem þeir tala svo mikið um, að sé nauðsynleg, byggist á allt öðrum skoðunum, nefnilega hinni gömlu skoðun, sem var svo mikið rædd á kreppuárunum fyrir stríðið og nefndist innilokun kaupgetunnar. Það eigi að auka útlán hér innanlands, lækka vexti o.s.frv. og koma í veg fyrir, að þessi aukna kaupgeta beinist út á við, heldur eigi að loka hana inni og það hefur verið gert með því að setja á fót gjaldeyris úthlutunarnefnd og annað slíkt. Meginatriði stefnubreytingarinnar er í rauninni, þegar öllu er á botninn hvolft, endurreisn n. frægu og stóru á Skólavörðustígnum, sem allir kannast við. Nú ætla ég síður en svo að fara að ræða þessa að mínu áliti mjög vanhugsuðu kenningu um innilokun kaupgetunnar, en á því er rétt að vekja athygli, af því að þessi fsp. kemur frá hv. stjórnarandstæðingi, að ef okkur er alvara með einhvers konar þátttöku í alþjóðasamvinnu, þá samrýmist það ekki kenningunni um innilokun kaupgetunnar. Algert skilyrði fyrir slíkri samvinnu, hvort sem það er norræn samvinna innan EFTA o.s.frv., er, að um frjálsa utanríkisverzlun sé að ræða í þeim skilningi, að ekki sé beitt beinum innflutningshöftum eða slíkum takmörkunum. Ég er ekki alveg viss um, að hv. flm. þessarar fsp. hafi gert sér þetta ljóst, en hafi hann gert sér það ljóst og sé hann reiðubúinn að færa slíka fórn fyrir aðildinni, þá mundi það gleðja mig mjög.