19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (3819)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér finnst, að þessum mjög nytsamlegu umr. megi ekki ljúka, nema andmælt sé þeim skoðunum á viðskiptum Íslands og hinna Norðurlandanna, sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssonar. Hann taldi þann halla, sem hefur verið og er á viðskiptum Íslands við hin Norðurlöndin, vera fullkomna sönnun þess, að við ættum ekkert erindi í neins konar viðskiptasamstarf eða efnahagssamstarf við þessi lönd, og hafði um þetta allstór og þung orð. Þessu vil ég ekki láta ómótmælt. Það er algjörlega úrelt sjónarmið, fullkomlega úrelt sjónarmið, að meta viðskipti milli einstakra þjóða á þann mælikvarða einan, hvort um svokallaðan viðskiptahagnað eða viðskiptahalla sé að ræða í viðskiptum þjóðanna. Ef fylgja ætti þessari algjörlega úreltu reglu hv. þm., þá ætti það að vera meginmarkmið í viðskiptum okkar Íslendinga, að við hefðum fullkominn viðskiptajöfnuð í viðskiptum okkar við allar þjóðir, þ.e.a.s. við hverja einstaka þjóð. Við gætum eflaust haft þetta að markmiði. Þetta var markmið mjög margra þjóða á kreppuárunum til að mæta alveg sérstökum erfiðleikum, sem þá dundu yfir. Þá var reynt að vinna bug á slíkum erfiðleikum með atriðum sem þessum, enda þurfti ekki nema nokkurra ára reynslu til þess að sýna öllum vitibornum mönnum fram á, að hér var um að ræða stórkostlegt spor aftur á bak. Ef þessi regla hv. þm. yrði tekin upp hér á landi og við stefndum næsta áratug að því að hafa fullkominn jöfnuð í viðskiptum okkar við allar þjóðir, — kaupa ekki meira af nokkurri þjóð en hún keypti af okkur, — þá mundi það verða stærsta spor aftur á bak, sem stigið hefði verið á þessari öld í íslenzkum efnahagsmálum. M.ö.o. sú kenning, sem hv. þm. boðar og skal ég ekki fjölyrða um hana meira að öðru leyti, hún væri stefnubreyting í íslenzkum viðskiptamálum, sem hefði í för með sér stórkostlega lífskjaraskerðingu á Íslandi. Hún yrði stórkostlegt spor aftur á bak í íslenzkum viðskiptamálum og íslenzkum efnahagsmálum yfir höfuð að tala. Sem betur fer er frekar sjaldgæft, að slíkar kenningar séu boðaðar á Íslandi, annars staðar heyrast þær alls ekki lengur.

Og þá vildi ég, fyrst ég er kominn hérna á annað borð, segja örfá orð um það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði síðast. Það er ekki rétt, sem hann sagði, að samstarf EFTA—landanna sé strandað. Það er ekki rétt, að fyrirhugað efnahagssamstarf Norðurlandanna beri vott um það, að þau telji samstarfið innan EFTA ekki hafa borið nægilega mikinn og góðan árangur. Hitt var rétt, sem hann sagði, að samstarfið innan EFTA hefur að mjög verulegu leyti náð þeim árangri, sem því var ætlað að ná. Það er enginn vafi á því, að EFTA–löndin öll hyggja á áframhaldandi samstarf sín á milli, ef þau eiga ekki kost á því að auka og stækka verksvið sams konar samstarfs. En EFTA er ekki að klofna í tvennt. Það, sem er að gerast er og ég vék að því í fáum orðum í upphafsorðum mínum í svari mínu, að EFTA—samstarfið út af fyrir sig hefur ekki fullnægt óskum um aukin markaðsskilyrði fyrir landbúnaðarvörur þeirra, einkum Dana, af ýmsum ástæðum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja til þess að lengja þessar umr. ekki um of. Þess vegna hafa Danir freistað þess að fá bættan markað fyrir sínar landbúnaðarafurðir með því að gerast aðilar að Efnahagsbandalaginu. Þær tilraunir hafa strandað, svo sem kunnugt er. Þess vegna hafa einmitt Danir haft forustu um að bæta skilyrði sín til sölu á landbúnaðarvörum með því að fá hin Norðurlöndin til að opna markaði sína fyrir dönskum landbúnaðarvörum. Þetta er í mjög einföldum, ég vona ekki í of einföldum orðum sagt. Þetta er meginskýringin á þeirri þróun, sem nú er að verða varðandi efnahagssamstarf Norðurlandanna. Inn í þetta blandast svo auðvitað óskir hinna Norðurlandanna, sem eiga að taka við dönskum landbúnaðarvörum, að Danir láti í té viss gagnfríðindi og þannig þróast málið koll af kolli og gerir það jafnflókið og það í raun og veru er. Þess vegna vildi ég líka andmæla þeim skoðunum, sem komu fram hjá hv. þm., að fyrirætlanirnar um norrænt efnahagssamstarf séu vegna þess, að samstarf EFTA sé strandað og hinu, að EFTA sé að klofna í tvennt, þó að til slíks efnahagssamstarfs komi.

Ég tel það tvímælalaust rétt, sem við forsrh. höfum látið í ljós í þessum umr., að okkur er nauðsyn á því að auka efnahagssamstarf okkar við aðrar þjóðir. Það, sem mest liggur á í þeim efnum, er að auka samstarf okkar við Fríverzlunarbandalags þjóðirnar og síðan í næsta áfanga við hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að Norðurlandasamstarfið er víðtækara en EFTA—samstarfið. Að svo miklu leyti, sem skoðanamunur kynni að vera á milli okkar hv. 6. þm. Reykv. um það, hvort samstarfið eigi að ganga fyrir í augum Íslendinga, þ.e. hvort þjóni hagsmunum okkar betur að taka Norðurlandasamstarfið fyrst og EFTA—samstarfið á eftir, eins og mér skilst vera hans skoðun, skal ég ekki segja margt, en það er skoðun ríkisstj., að við eigum að taka EFTA—samstarfið fyrst og Norðurlandasamstarfið á eftir. Í sambandi við þetta má segja og það vil ég sérstaklega undirstrika, að Norðurlandasamstarfið er víðtækara en EFTA–samstarfið, þ.e. með fullri þátttöku í efnahagsbandalagi Norðurlanda tökum við á okkur meiri skuldbindingar og fáum minni fríðindi en ég vona, að við eigum kost á í sambandi við inngöngu í EFTA. M.ö.o aðild að EFTA felur þannig í sér minni skyldur fyrir okkur Íslendinga og von um meiri fríðindi en aðildin að efnahagssamstarfi Norðurlandanna. Það er einmitt af þessum sökum, sem við í ríkisstj. teljum tvímælalaust, að leiðin eigi að vera EFTA fyrst og NORDEK, efnahagssamstarf Norðurlandanna, á eftir. Þetta styðst auðvitað líka af þeirri augljósu staðreynd, að höfuð útflutningsmarkaður okkar í EFTA—löndunum er utan Norðurlandanna, þ.e. í Bretlandi og okkar megin keppikefli í sambandi við aukna efnahagssamvinnu við önnur lönd hlýtur auðvitað að vera að fá sem frjálsastan og mest bættan aðgang að okkar stærsta útflutningsmarkaði, að fá aflétt þeim hömlum, sem nú eru á viðskiptum okkar við Bretland. Leiðin til þess er augljóslega aðild að EFTA, en ekki aðild að NORDEK.

Ég tel þessar umr. hafa verið mjög gagnlegar, það sé nauðsynlegt og ánægjulegt, að menn skiptist á skoðunum um jafnmikilvæg efni og hér er um að ræða.

Ég vil taka undir það að síðustu, sem kom fram hjá öðrum ræðumönnum hér, að mér þykir vænt um áhuga hv. 6. þm. Reykv. á auknu efnahagssamstarfi Íslands við hin Norðurlöndin og vona og þykist raunar vita, að það stafi fyrst og fremst af almennum stjórnmálaáhuga hans á auknum samskiptum við hin Norðurlöndin, en ég vona, að aukin umhugsun af hans hálfu um þessi efni og aukin þekking af hans hálfu færi honum heim sanninn um, að ef hann vill meta rétt viðskiptahagsmuni Íslendinga, hreina viðskiptahagsmuni Íslendinga, þá verði röðin í atburðarásinni að vera sú, að fyrst leitum við aðildarinnar að EFTA og síðan komi aðild að NORDEK sem beint og eðlilegt framhald af því.