19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (3821)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hefur oft komið í ljós, að virðulegur þm. sem hér talaði síðast, lifir í gömlum heimi, og varðandi það, sem hann sagði síðast, var auðsjáanlegt, að hann hélt, að hann lifði enn á dögum vinstri stjórnarinnar, þegar sá háttur var á hafður, að menn voru sendir út um alla heimskringluna til þess að leita eftir styrkjum, lánum og gjöfum og þegar það þótti helzt merkilegt, ef einhver góður framsóknarmaður kom til landsins og skrifaði í Tímann eða hafði þar viðtal, að þarna væri kannske hægt að fá lán eða styrk, þótt menn hefðu ekki tekið eftir því hingað til.

Um þetta ætla ég ekki að fara að deila. Þetta er einungis staðfesting á því, sem einn hv. samflokksmaður þm. sagði hér í vetur, að hv. þm. lifir í gömlum heimi og veit ekki, hvað er að gerast nú á dögum.

Varðandi það, að menn hafi hér viðskiptahalla, þá skulum við ræða það alveg hiklaust. Það er ljóst, að við erum að reyna að brjótast út úr þeim erfiðleikum, sem stórminnkaðar tekjur vegna aflaleysis, af lækkuðu verðlagi og af söluhindrunum hafa orðið hér valdandi. Og það er eðlilegt, að það taki nokkurn tíma að komast úr þeim vandræðum og ekki óeðlilegt, að menn leiti eftir venjulegum viðskiptalánum til þess að komast út úr þeim vandræðum, — þeim lánum, sem einmitt margar alþjóðastofnanir hafa verið stofnaðar til þess að veita til að greiða úr slíkum vandræðum. Og það er einmitt viðurkennt af þessum alþjóðastofnunum, að Ísland hefur orðið fyrir meiri óhöppum, án þess að stjórnvöld hér eða aðrir fengju við ráðið, heldur en þekkt er á síðari áratugum, að þjóðir á svipuðu þróunarstigi og við hafi orðið fyrir. Allt þetta hefur auðsjáanlega farið fram hjá þessum virðulega ræðumanni, sem hér talaði áðan, sem lifir enn í hinum horfna hugarheimi.

Það er hins vegar rétt að rifja upp, að samstarfið, hið aukna samstarf, sem er verið að leitast við að koma á, á Norðurlöndum, byggist fyrst og fremst á viðleitninni til þess að tryggja fulla atvinnu og stöðugt bætt lífskjör og öran vöxt þjóðartekna. Og þeir aðilar, sem að þessu samstarfi standa og beita sér fyrir, eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum á Norðurlöndum. Þeir telja, að þessu verði ekki náð með þröngri innilokunarstefnu, heldur með stöðugt vaxandi samstarfi þjóðanna. Sem sagt, alveg eins og hv. 12. þm. Reykv. sagði, með auknu frjálsræði í viðskiptum. Og það er alveg rétt skilið hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að Norðurlandasamvinnan stefnir fyrst og fremst að auknum samskiptum í viðskiptum. Hún stefnir að því að brjóta niður þær hömlur, sem hafa verið og þess vegna eru ný höft á þann veg, sem þessi hv. þm. telur vera lífsskilyrði, ósamrýmanleg þessum ráðstöfunum. Í þessu hefur hv. þm., þó að hann tilheyri horfinni tíð, — á þessu hefur hann gleggri skilning en hv. 6. þm. Reykv., sem ekki virðist átta sig á þessu meginatriði málsins. Þar kemur til hin góða náttúrugreind hv. 1. þm. Norðurl. v., sem sker úr, því að þótt hann að sumu leyti minni á nátttröll, þá er þó sá lífsandi, sem enn bærist með honum, ólíkt fjörugri og andríkari, ef svo má segja, heldur en andinn, sem innibýr hjá hv. 6. þm. Reykv. Þar er mikill mannamunur.

En við skulum játa, að það er því aðeins, að menn vilji horfast í augu við þessi auknu samskipti, að hömlur og höft séu brotin niður í miklu ríkara mæli, en við höfum enn talið okkur fært að gera, sem nokkurt viðlit er að gerast aðili að þessu aukna samstarfi. Og þeir góðu menn, sem fyrir því beita sér, hvort heldur það er sósíaldemókratinn Erlander eða danskir íhaldsmenn eða milliflokksmenn, eins og Baunsgård, þá segja þeir, að það sé frumskilyrði til þess, að við getum haft sambærileg lífskjör við aðra, að við getum eflt okkar fyrirtæki og þau eflast ekki, nema við fáum stærri markað. Jafnvel í þessum löndum, sem eru miklu mann fleiri, en við Íslendingar, þar sem við erum algert smáríki miðað við þá, segja þeir: Okkar markaðir eru of þröngir, til þess að við getum vænzt þess til lengdar að geta haldið til jafns við aðrar og stærri þjóðir, nema því aðeins, að við getum fengið stóran, sameiginlegan markað, þar sem við getum notið stærðarinnar og nútíma tækni. Og þeir segja: Þetta er ekki fyrst og fremst nauðsynlegt vegna þeirra stóru fyrirtækja, sem þegar eru til í okkar löndum. Þau eru orðin svo stór, að þau geta komizt inn á markaði erlendis án okkar aðstoðar. Það eru smáu fyrirtækin, fyrirtækin með innan við 10 manns, innan við 20 manns, sem ekki geta eflzt, nema því aðeins að við fáum fyrst þennan stærri markað, sameiginlegan á öllum Norðurlöndum, í tollabandalagi, eins og þeir nú segja. En við skulum einnig hafa það í huga, að a.m.k. fyrir sum þessara landa, — og ég hef fyrirvara um það, ég segi fyrir sum þessara landa, — er þessi aukna samvinna nú beinlínis gerð í því skyni að auðvelda þeim að komast inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Það er vitað mál, að afstaða landanna fjögurra er ólík í þessum efnum. Bæði Danir og Norðmenn telja sér mjög mikilsvert að komast inn í Efnahagsbandalagið. Svíar hafa talið sér mjög mikilsvert að fá eins konar aukaaðild, eins og við höfum talað um hér. Þeir gera það af öðrum ástæðum en við, en þeir telja sér nauðsynlegt að ná sérstökum samningum við Efnahagsbandalag Evrópu. Finnar hafa þarna sérstöðu. Það er vitað mál og þeir fara aldrei leynt með það. En það er alveg víst, að af hálfu a.m.k. tveggja ríkjanna er það alger forsenda, að ekkert verði gert í þessari nýju auknu samvinnu, sem geri það torveldara, en verið hefur hingað til, — og það hefur reynzt erfitt hingað til fyrir þá, — að komast inn í Efnahagsbandalag Evrópu og þetta aukna samstarf, viðleitnin til þessa samstarfs er hafin í þeirri veru að greiða fyrir því að komast þar inn. En ég ítreka, að Finnland hefur í þessu sérstöðu, enda er upphaflega til samstarfsins stofnað milli hinna landanna þriggja, hinna eiginlegu skandinavísku landa, og mönnum kom að vissu leyti á óvart hinn mikli áhugi, sem Finnar, a.m.k. núv. forsrh., hafa sýnt fyrir þessu samstarfi. En það er einnig vitað, að í Finnlandi er að vaxa upp mjög hörð andstaða á móti samstarfinu einmitt af þessum ástæðum, að talið er, að það muni leiða þá nær Efnahagsbandalaginu en þeir ella væru.

Þetta eru staðreyndir málsins, sem menn verða að gera sér grein fyrir. Það er ekki vegna þess, að þjóðirnar séu búnar að fá nóg af því víðtæka samstarfi, sem hefur tekizt innan EFTA, heldur af því, að þær telja sér þörf á enn þá víðtækara samstarfi, svo að það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, hvíldi allt á fullkomnum misskilningi. Hann og aðrir komast ekki heldur fram hjá því, ef verið er að tala um efnahagssamvinnu Norðurlandanna, að svara þeirri spurningu strax í upphafi, — ekki með því að svara út úr, heldur svara því efnislega, bæði gagnvart sjálfum sér og gagnvart þingheimi og þjóðinni: Treysta menn sér til þess sem fyrsta stigs að gerast fullkomnir aðilar að hinum sameiginlega vinnumarkaði á Norðurlöndum? Ef menn treysta sér ekki til þess, skulum við láta allt tal niður falla um það, að við getum gerzt aðilar að NORDEK, allt tal niður falla. Einmitt þetta, sem hv. þm. segir, að nú sé ekki sérstök hvöt til þess fyrir menn að sækja hingað til landsins, ætti að vera honum aukin hvöt til þess að segja skýlaust: Vill hann, að við gerumst aðilar að þessum sameiginlega vinnumarkaði eða er hann bara að skjóta sér undan vandanum með því að svara út í hött? Hitt er svo alger fjarstæða, þegar hv. þm. gefur í skyn, að lífskjör manna á Íslandi séu helmingi lakari en á hinum Norðurlöndunum. Jafnvel eftir það áfall, sem við höfum fengið, er ekki munur á lífskjörum manna hér á Íslandi og a.m.k. sumum hinna Norðurlandanna, ekki sízt í Finnlandi og a.m.k. hlutum í Noregi, þó að Svíar beri vitanlega af að auðæfum fram yfir aðra.