26.02.1969
Sameinað þing: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í D-deild Alþingistíðinda. (3827)

143. mál, fyrirhugaður flutingur á aðalviðhaldssviði Loftleiða til Keflavíkurflugvallar

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 260 að beina svo hljóðandi fsp. til hæstv. utanrrh. um fyrirhugaðan flutning á aðalviðhaldsstöð Loftleiða til Keflavíkurflugvallar:

„Hvenær er að vænta niðurstöðu frá utanrrn. við málaleitan Loftleiða frá 12. sept. s.l. um aðstoð og fyrirgreiðslu við fyrirhugaðan flutning á aðalviðhaldsstöð félagsins frá Bandaríkjunum til Keflavíkurflugvallar?“

Ástæðan til þess, að ég kem fram með þessa fsp., er sú, að hér er um talsvert stórt mál að ræða almennt séð og miklir hagsmunir við það bundnir, að þessi flutningur geti átt sér stað til Keflavíkurflugvallar, m.a. fyrir íbúa Suðurnesja. Það er talið, að ef hægt verður að flytja aðalviðhaldsstöð Loftleiða til Keflavíkurflugvallar, muni það spara þjóðinni gjaldeyri fyrir um 130—150 millj. kr. Talið er, að þarna gætu fengið góða atvinnu allt að 130 menn, en nú starfa þar aðeins um 20 manns.

Þessi flutningur getur ekki orðið nema viss fyrirgreiðsla fáist í þessum efnum og eftir henni hefur verið leitað til utanrrn. í bréfi frá 12. sept. s.l. Sú aðstaða, sem Loftleiðir þurfa að fá, felst m.a. í því, að félagið þarf að fá stóraukinn aðgang að flugskýlum þar syðra eða jafnvel byggja nýtt flugskýli og ennfremur hefur félagið talið nauðsynlega forsendu þess, að af þessum flutningi gæti orðið, að nokkrar tollaívilnanir fengjust á afgreiðslutækjum og viðhaldsverkfærum og ýmsum tækjum í sambandi við viðhaldið.

Þar sem þessar athuganir hafa nú staðið alllengi, hafa heyrzt um það raddir, að svo gæti farið, að Loftleiðir yrðu að fara með þessa viðhaldsstöð sína til Lúxemborgar og við Íslendingar yrðum þá af þessu tækifæri. Til þess að fá upplýst, hvað rétt er um afstöðu ríkisvaldsins um þessi málefni og hvað hefur verið gert af hálfu utanrrn. til þess að koma á móti óskum Loftleiða, er fsp. þessi borin fram.