13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

1. mál, fjárlög 1969

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er maður íhaldssamur og varkár, og því þótti mér hann tala furðu gáleysislega hér áðan um skuldabyrði Íslendinga um þessar mundir. Hæstv. ráðh. talaði um það, að því væri haldið fram, að greiðslubyrði okkar væri orðin ískyggilega hár hluti af útflutningstekjunum. En skýring hans var sú, að menn þyrftu ekki að undrast þetta, vegna þess að útflutningstekjurnar hefðu dregizt mjög stórlega saman á stuttum tíma. En skýringin er ekki svona einföld. Útflutningstekjur okkar á þessu ári munu verða mjög svipaðar því og þær voru 1963 reiknað á sama gengi hvort tveggja. En 1963 hygg ég, að greiðslubyrðin hafi verið rúmlega 5% af gjaldeyristekjunum. Nú er hún komin allmikið yfir 10%. (Fjmrh.: Hún var 8.5%.) Jæja, en hún er komin allmikið nú yfir 10%, og það er um sama grundvöll að ræða í bæði skiptin. Þessi hækkun er ákaflega ískyggileg, ekki sízt vegna þess að hún gerist á sömu árum og útflutningstekjur okkar fara stórlega vaxandi. Á örfáum árum jukust þessar tekjur um meira en 10 milljarða miðað við það meðaltal, sem áður var, og það er á sama tíma og þessi stórfellda tekjuaukning rennur inn í þjóðfélagið, sem hæstv. ríkisstj. heldur áfram að hlaða upp erlendum skuldum. Ég minnist þess, að 1. desember 1959 flutti aðalráðgjafi hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz ræðu, sem vakti mjög mikla athygli. Þá benti hann á það, að skuldabyrði Íslendinga væri rúmlega 10%. Hann taldi, að engin þjóð í Evrópu að Júgóslavíu undanskilinni væri jafn illa á sig komin, og hann varaði þá alvarlega við ríkisgjaldþroti af þessum sökum. Ég undrast mjög, að þessi ágæti sérfræðingur og hæstv. ráðh. skuli ekki túlka sams konar sjónarmið nú. Hins vegar eru aðrir, sem hafa opinskátt rætt um ríkisgjaldþrot af þessum sökum. Mér þótti það ákaflega lærdómsríkt, þegar ég horfði á sjónvarp fyrir nokkrum vikum. Þar var viðtal við hæstv. fjmrh., og þá segir þulurinn ósköp rólega við hæstv. fjmrh.: Hvað þarf eiginlega til þess, að ríkið verði gjaldþrota. Erum við ekki að verða gjaldþrota? Og hæstv. ráðh. varð hvorki undrandi né reiður. Hann svaraði þessu afar rólega. Honum fannst þetta ekkert undarleg spurning. Sams konar sjónarmið hafa komið fram erlendis. Það hefur gerzt á þingmannafundi Atlantshafsbandalagsins, að rætt hefur verið um almenna aðstoð handa Íslendingum, vegna þess að við værum að verða gjaldþrota. Hliðstæð skrif hafa einnig birzt í dönskum blöðum, um almenna norræna samvinnu til þess að bjarga okkur, svo að mér finnst, að hæstv. ráðh. eigi ekki að tala um þetta af neinni léttúð, enda er léttúð ekki eiginleiki, sem fer honum vel.

Mér þótti einnig undarlegt að heyra hæstv. ráðh. tala um atvinnuleysi, sem fram undan kynni að bíða. Hann sagðist vilja vefengja það, að stefna ríkisstj. mundi leiða til atvinnuleysis, og hann sagði, að fjárlagafrv. væri miðað við það, að ekki yrði atvinnuleysi á Íslandi. Það er mjög alvarlegt atvinnuleysi á Íslandi núna. Ég hygg, að nú séu um 1000 atvinnuleysingjar skráðir um allt land. Og þetta er ákaflega alvarleg staðreynd, ekki sízt vegna þess, að allt bendir til þess, að á næstu vikum muni þessi tala enn halda áfram að aukast. Það stoðar ekki að standa hér án þess að viðurkenna það, sem er að gerast í þjóðfélaginu umhverfis okkur. Þetta er staðreynd, og hjá því verður ekki komizt, að lagðar verði fram mjög verulegar upphæðir til lausnar á þessum vanda. Hæstv. ráðh. vildi heldur ekki andmæla till., sem stjórnarandstæðingar hafa flutt um stórfelldar upphæðir í þessu skyni. Hann taldi, að vel kæmi til greina að leggja fram slíkar upphæðir eftir einhverjum leiðum.

Annars ætlaði ég ekki að taka þátt í þessum almennu umr., sem hér hafa farið fram til þessa, heldur ætlaði ég að taka til við þann klassíska þátt í afgreiðslu fjárlaga, sem heitir þingmannatillögur. Að vísu má segja, að slíkar till. hafi smátt og smátt verið að breytast í eins konar forngripi á undanförnum árum, vegna þess að það er orðin föst hefð að taka ekkert mark á þeim. Sú var hins vegar tíðin, að afgreiðsla fjárlaga þótti býsna miklum tíðindum sæta á Íslandi og var umlukt talsverðri óvissu. Flokkabönd riðluðust einatt, einmitt þegar fjárlög voru afgreidd, og menn tóku þar oft afstöðu gegn meiri hl. í flokkum sínum. Í frásögnum um þinghald frá fyrri dögum er oft greint sérstaklega frá því, hvernig menn hafi lýst stuðningi og hrundið fram ýmsum nauðsynjamálum einmitt á þennan hátt. En þetta hefur smátt og smátt verið að breytast á undanförnum áratugum. Æ fleiri atriði hafa verið ákveðin með flokkasamþykktum, þar sem mönnum er gert að hegða sér í samræmi við það, sem ákveðið er á flokksfundum. Og seinustu árin hefur þetta gengið svo langt, að nú fást ekki einu sinni, samþykktar smátill. eins og tíðkaðist hér áður fyrr. Seinustu árin hygg ég, að engin þingmannatill. hafi verið samþ. hér á þingi. Afgreiðsla málsins er orðin svo vélræn, að skrifstofa Alþingis gæti hæglega gengið frá handriti til prentunar, áður en afgreiðsla fer fram hér á þingi. Á því mundi ekki verða nokkur breyting.

Ég rak mig einmitt á það á seinasta ári, hversu afdráttarlaus þessi regla er. Þá kom til mín einn þm. úr stjórnarflokkunum, sem hafði áhuga á ofurlítilli till. um menningarmál. Hann bað mig að gerast meðflm. með sér að þessari till., og ég féllst á það. Og honum tókst meira. Honum tókst að tryggja það, að till. var flutt af einum manni úr hverjum flokki. Þarna var ekki um stóra upphæð að ræða, og vegna þess að tillagan var flutt af mönnum úr öllum flokkum, þá átti þessi till. að hafa allverulegar líkur á því að ná samþykki. En nóttina áður en atkv. skyldu greidd gerðust þau tíðindi, að einn þm. stjórnarliðsins kom upp í þennan ræðustól og taldi það vera firn mikil, að þm. úr stjórnarliðinu leyfðu sér að taka upp þvílíkt samneyti við stjórnarandstöðuna. Og hann lýsti yfir því, að ef þessi till. ætti að ná fram að ganga, teldi hann sig óbundinn af öllu því samkomulagi, sem stjórnarflokkarnir hefðu gert um afgreiðslu fjárlaga. Þetta leiddi til þess, að stjórnarþm., sem átti upptökin að þessari till., taldi óráðlegt að halda fast við hana, og hún kom aldrei til atkv. Slík vinnubrögð eru komin út í hreinar öfgar.

Með þessu er ég auðvitað ekki að segja, að þm. hafi ekki tök á því að hafa áhrif á einstök atriði í fjárl. fyrir tilstilli fulltrúa sinna í fjvn. eða með því að ræða beint við ráðh. og embættismenn. Auðvitað gerist slíkt á hverju þingi. Engu að síður tel ég, að þetta kerfi sé orðið allt of ósveigjanlegt. Það er bæði ósæmilegt og gersamlega ástæðulaust að fjötra þm. á þennan hátt. Mér er það að vísu ljóst, að ríkisstj. hverju sinni verður að taka ákvörðun um allt meginefni fjárl. og tryggja það, að þar standist endar á, tekjur og gjöld, og eðlilegt samhengi sé þar í ákvörðunum. En það er algerlega ástæðulaust að binda hvert einasta smáatriði á þennan hátt. Hafi hæstv. ríkisstj. og hv. þm. í rauninni áhuga á því að auka virðingu Alþ. eins og oft er rætt um og auka áhuga almennings á störfum þessarar stofnunar, þá held ég, að þeir ættu að gefa þessu atriði gaum. Það mundi á engan hátt torvelda hæstv. fjmrh. störfin, þótt hann gæfi þm. t.a.m. frelsi til þess að úthluta örlitlum hluta af heildarupphæðinni, ég nefni svo sem 1–2%, á meðan þm. væru að venjast frelsinu.

Þessar starfsaðferðir hafa leitt til þess, að þm. eru farnir að flytja þingmannatill. með mjög hangandi hendi síðustu árin. Menn telja þetta algerlega tilgangslaust; með því séu þeir að berja höfðinu við steininn. Hvað stoðar að leggja vinnu í það að undirbúa mál og vekja athygli á þeim, ef enginn þm. má taka neitt mark á till.? En þrátt fyrir þessa þróun hef ég leyft mér að flytja hér ásamt nokkrum þm. öðrum fáeinar till. af þessu tagi, og þær eru fyrst og fremst bundnar við menningarmál. Það er með ráðum gert að velja þann málaflokk sérstaklega. Nú er erfitt og versnandi efnahagsástand í landinu, og fyrir því er löng reynsla, að einmitt á slíkum tímum sækir það viðhorf mjög á stjórnarvöld að láta samdrátt og niðurskurð sérstaklega bitna á menningarmálum. Ég legg áherzlu á það, að einmitt nú er nauðsynlegt að fara öfuga leið. Menningarmálin hafa einnig notið þess á undanförnum árum, að mikið fjármagn hefur verið í þjóðfélaginu og hafa getað notið framtaks einstaklingsins á ýmsum sviðum, en ég er hræddur um, að í þau skjól fari nú mjög að fjúka og þess vegna verði forysta ríkisins mun mikilvægari en hún hefur verið seinustu árin.

Á þskj. 159 flyt ég brtt. um lið þann, sem varðar Kennaraskólann. Mér er að vísu ljóst, að meiri hl. fjvn. og hæstv. ráðh. ætla við 3. umr. að leggja fram till. um byggingarframkvæmdir við skóla, en ástandið hjá Kennaraskólanum er svo alvarlegt, að ég taldi rétt að vekja sérstaka athygli á því þegar við 2. umr. Árið 1962 flutti Kennaraskólinn í ný húsakynni. Það voru mikil og ánægjuleg umskipti, því að áður hafði um langt bil verið búið mjög hraklega að þessum skóla. Nýja skólabyggingin við Stakkahlíð var aðeins hálfgerð 1962. Það var aðeins helmingurinn af byggingunni, sem komst upp það ár. Samkv. teikningu arkitekta á skólinn fullbúinn að rúma 250–300 nemendur, þ.e.a.s. í þeim helmingi, sem komst upp 1962, ættu samkv. því að rúmast um 150 nemendur. En í haust, þegar skólinn var settur, kom í ljós, að í honum voru hvorki meira né minna en 826 nemendur. Þar við bættust á 2. hundrað börn, sem eru í Æfingaskóla Mennaraskólans, þannig að alls voru nemendur í skólanum um 1000, sex eða sjö sinnum fleiri en eiga að vera samkv. þessu húsnæði. Þarna er drepið í hvern afkima, en auk þess hefur orðið að leigja húsnæði utan skólans. Þarna er sem sé um augljóst neyðarástand að ræða. Fyrir skömmu birtist viðtal við skólastjóra Kennaraskólans, dr. Brodda Jóhannesson, í aðalmálgagni hæstv. ríkisstj., Morgunblaðinu, og hann komst þar svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það liggur í rauninni alveg ljóst fyrir, að allar bollaleggingar um breytingar á vinnubrögðum í skólunum eru fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Það er t.d. húsnæðis- og bókaskortur, sem háir Kennaraskólanum meira en allt annað. Hér eru nú um þúsund nemendur í skólabyggingu, sem fullgerð er áætluð fyrir um 254–300 nemendur, en er nú aðeins hálfbyggð. Þessir tæplega þúsund nemendur geta t.d. ekki stundað sínar íþróttir á skaplegum tíma. Aðstaða til félagsstarfs í skólanum er mjög slæm, þar sem samkomusalur er óbyggður og engin stofa í skólanum, sem getur rúmað heilan árgang vandræðalaust. Ef mönnum er alvara og þeir hafa einlægan vilja á að leysa vandamálin betur en verið hefur, er það óvíða, sem skólakerfið sjálft hindrar það, enda þótt fjárskortur geri það. Ef ráðamenn vilja sýna vilja sinn í að koma fram bótum, er það fyrst og fremst með auknum fjárframlögum. Kennaraskólann skortir t.a.m. a.m.k. 100 millj. í aðkallandi mannvirki, tæki og bækur.“

Mér er kunnugt um það, að skólastjóri Kennaraskólans fór fram á það við hæstv. ríkisstj. og fjvn., að til framkvæmda við skólann yrði varið 6 millj. kr. Till. mín er aðeins um 5 millj., þannig að ég verð ekki ásakaður fyrir það, að ég sé að fara fram úr mati þeirra manna, sem bezt þekkja aðstæðurnar. Þetta er vandamál, sem margir hafa veitt athygli. T.d. var þetta mál rætt á seinasta borgarstjórnarfundi í Reykjavík. Þar kom fram till. um það, að borgarstjórn skoraði sérstaklega á hæstv. ríkisstj. að halda byggingarframkvæmdum áfram við Kennaraskólann. Þessi till. náði að vísu ekki samþykki, en fulltrúar Alþfl. í borgarstjórninni stóðu með henni. Því vil ég mega vænta þess alveg sérstaklega, að hæstv. menntmrh. leggi þessu máli lið.

Á sama þskj. flyt ég ásamt hv. þm. Jónasi Árnasyni og Sigurði Grétari Guðmundssyni nokkrar aðrar till. um menningarmál. Þar er fyrst að telja, að við leggjum til, að gjaldfærður stofnkostnaður Landsbókasafns hækki úr rúmlega 11/2 millj. í 3 millj. En þarna er átt við fjármuni til bókakaupa og annarra hliðstæðra þarfa fyrir Landsbókasafn. Á undanförnum árum hefur sú undarlega þróun verið að gerast, að bókakaup á vegum opinberra aðila hafa færzt hlutfallslega frá Landsbókasafninu til annarra aðila í þjóðfélaginu. Hæstv. menntmrh. skýrði frá því í viðtali, sem hann átti við Samvinnuna fyrr á þessu ári, að hann teldi, að bókakaup opinberra aðila væru nú 8 millj. kr. á ári. Hlutur Landsbókasafns, þjóðbókasafnsins, er aðeins 11/2 millj. Þetta hlutfall er auðvitað óeðlilegt með öllu. Á sama tíma og þm. eru að klípa utan af lítilli upphæð til Landsbókasafnsins eru ýmsar opinberar stofnanir, sem hafa fjármagn til þess,að kaupa bækur án íhlutunar Alþ., þ. á m. bankarnir. En auðvitað verður þjóðbókasafnið að hafa algera forystu um slík bókakaup. Og þessi þróun er þeim mun bagalegri sem hæstv. menntmrh. hefur algerlega vanrækt að framkvæma það fyrirheit sitt að láta koma upp skráningarmiðstöð fyrir vísindarit, sem til eru í íslenzkum söfnum. Um þetta hefur verið rætt árum saman, en framkvæmdir hafa engar orðið. Þess vegna hefur hlotizt sívaxandi glundroði af þessari skipan. Við leggjum þarna til, að hlutur Landsbókasafnsins verði bættur nokkuð, en þarna er um tiltölulega litla upphæð að ræða.

Önnur till. okkar er um Listasafn ríkisins. Fyrir allmörgum árum var sett löggjöf um Byggingarsjóð Listasafnsins, og þá féllu um það fögur orð hér á þingi, að að því skyldi stefnt eins fljótt og auðið væri að reisa sérstaka listasafnsbyggingu. Fjárframlögin hafa hins vegar verið fjarskalega lág, 400 þús. síðustu árin, og við vitum allir, hvernig slík fjárframlög eru leikin. Verðbólga og gengislækkanir rýra þessi fjárframlög jafnt og þétt, þannig að sum árin hygg ég, að framlög Alþ. hafi alls ekki nægt til þess að halda í horfinu. Hins vegar er aðstaða Listasafnsins, þar sem það er staðsett, orðin ákaflega erfið. Húsakynni eru orðin svo þröng, að þarna er aðeins hægt að sýna örlítinn hluta af þeim listaverkum, sem í safninu eru. Meginhluti listaverkanna er lokaður niðri, og enginn maður kemst til þess að sjá þau. Og hitt er þó enn þá háskalegra, að geymslurnar eru svo lélegar, að listaverkin liggja undir skemmdum. Ég vil minna hv. þm. á það, að fyrir ekki ýkja löngu varð þarna slys í sambandi við hitunarkerfi hússins, vatn komst í ein 10 málverk, og þau skemmdust mjög verulega. Þau voru send til Danmerkur til viðgerðar, og ég hygg, að viðgerðarkostnaður sé um 300 þús. kr. Það getur hefnt sín að spara fjármuni til menningarstarfsemi. Í þessu sambandi er líka vert að minna á það, að Þjóðminjasafnið þarf nú orðið á öllu sínu húsnæði að halda. Það þarf óhjákvæmilega á því að halda næstu árin að geta tekið við þeim húsakynnum, sem Listasafn Íslands er nú í. Hins vegar hefur undirbúningur verið svo grátlega seinn, að það er ekki enn þá einu sinni búið að ákveða lóð undir væntanlega listasafnsbyggingu, og hefði þó átt að vera auðvelt að finna byggingunni stað, ef einhver áhugi hefði verið fyrir hendi.

Enn flytjum við till. um það, að framlag til listamanna, hinir svo kölluðu listamannastyrkir, hækki allverulega, að í staðinn fyrir 4.2 millj. kr. komi 8 millj. 1 því sambandi vil ég minna á það, sem ég sagði áðan, að einmitt á erfiðleikatímum verður slík fyrirgreiðsla opinberra aðila mikilvægari en hún er á tímum, þegar rýmra er um fjárráð. Á undanförnum árum hafa rithöfundar og myndlistarmenn átt kost á því að koma verkum sínum á almennan markað og fengið fyrir allgóðar greiðslur oft og einatt. En ég óttast, að mjög fari að þrengjast um á þessum markaði og að einmitt þess vegna verði forysta ríkisins að aukast verulega á þessu sviði. Ég vil einnig minna hv. þm. á það, að úthlutun listamannalauna er árlega til sárra leiðinda. Þessi atburður, sem ætti að vera ánægjulegur jafnt fyrir listamennina sem fyrir aðra, er í staðinn afar leiðinlegur, og ástæðan er fyrst og fremst sú, að heildarupphæðin er svo lág, að það er ekki unnt að skipta henni svo að nokkurt vit sé í. Eigi úthlutun listamannalauna að verða sú viðurkenning, sem til er ætlazt, verður að hækka þessa upphæð mjög verulega. Einnig er vert að minna á það í þessu sambandi, að þegar sett voru lög um úthlutun listamannalauna á sínum tíma, hét hæstv. menntmrh. því, að tekið skyldi upp nýtt kerfi, starfsstyrkir til ungra listamanna. Um þetta var gefið hátíðlegt loforð af hæstv. ráðh., og það loforð hefur verið ítrekað síðan. En efndir hafa engar orðið. Samt var það svo, að listamannasamtökin, sem spurð voru um álit sitt á þessu frv., bundu dræmt fylgi sitt við það, að þessi fyrirheit um starfsstyrki til ungra listamanna yrðu efnd. Þessari hækkunartill. er einnig ætlað að tryggja nokkurt fjármagn til þessara þarfa.

Þá er hér lítil till., 1 millj. kr. til listkynningar um landið samkv. ákvörðun menntamálaráðs. Fyrir nokkrum árum beittu menntamálaráð og ríkisútvarpið sér fyrir listkynningu úti um land. Sendir voru myndlistarmenn, rithöfundar, leikarar og söngvarar í leiðangra til ýmissa staða, sem ekki höfðu haft mikil tengsl við þvílíka starfsemi í Reykjavík, og þessi starfsemi mæltist mjög vel fyrir, og hún er alveg tvímælalaust mjög gagnleg. Það veltur á miklu, að okkur takist að tryggja sem bezt menningarleg tengsl á milli höfuðborgarinnar, þar sem helztu menningarstofnanirnar eru, og strjálbýlisins, þar sem öll aðstaða er erfiðari. Og slík tengsl ýta einnig undir menningarstarf á stöðunum sjálfum. Ég held, að það væri mjög skynsamlegt að taka upp svolítil drög að slíkri starfsemi á nýjan leik, og þessi till. gerir aðeins ráð fyrir drögum. Þarna er um l millj. að ræða. Þetta er ein af þessum litlu till., sem kannske hefðu getað náð samþykki fyrir nokkrum árum, áður en sú algilda regla var tekin upp, að ekki mætti samþykkja neitt.

Önnur till. af svipuðu tagi, mjög smávaxin, fjallar um hækkun á upphæð í fjárlögum, 530 þús. kr., sem varið yrði til vísinda- og fræðimanna. Hér er um að ræða upphæð, sem menntamálaráð hefur úthlutað. Annars vegar er þarna um að ræða ferðastyrki til náttúrufræðinga, litlar upphæðir til hvers yfirleitt, en engu að síður mjög nauðsynlega starfsemi. Mér er kunnugt um það, að margir náttúrufræðingar okkar hafa átt í miklum erfiðleikum með að komast á þá staði, sem þeir þurfa að athuga á Íslandi að sumri til. Þeir hafa kannske þurft að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fá að sitja í bílum eða flugvélum með kunningjum sínum, jafnvel þegar upp hafa komið óvæntir atburðir eins og eldgos. Þó að þarna hafi verið um frekar smávaxna starfsemi að ræða hjá menntamálaráði, þá er hún engu að síður gagnleg. Hinn þáttur þessarar starfsemi er sá, að menntamálaráð hefur úthlutað svo kölluðum fræðimannastyrkjum til ýmissa manna úti um land, einkanlega manna, sem ástundað hafa þjóðlegan fróðleik. Þarna er um að ræða menn, sem margir voru áður á fjárlögum, en það þótti réttara að fella þá út af fjárlögum og hafa í staðinn heildarupphæð, sem menntamálaráð úthlutaði. Ég er hræddur um, að þróunin hafi orðið sú, að sumir þessir menn hafi ekki fylgzt með þeirri almennu verðlagsþróun, sem orðið hefur hjá þeim, sem eru á fjárlagafrv., þannig að þeir hafa orðið afskiptir í samanburði við aðra. Þess vegna held ég, að þessi litla hækkunartill. sé mjög eðlileg.

Að lokum er hér á þskj. 163 brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristjáni Thorlacius. Hún er af stærra tagi. Þar leggjum við til, að framlag í Lánasjóð ísl. námsmanna hækki um 25 millj. ofan á þá hækkun, sem lögð er til af meiri hl. fjvn. Það er varla nokkur samfelldur hópur, sem hefur orðið jafnharkalega fyrir áhrifum gengislækkana, tveggja gengislækkana á einu ári, eins og þeir námsmenn, sem stunda nám erlendis. Um það hafa birzt margar og ýtarlegar skýrslur í blöðum að undanförnu frá ýmsum samtökum stúdenta. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi lesið þær og þekki deili á þessu vandamáli, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þær í einstökum atriðum. Ég tek sem dæmi, að nú nýlega greindi Bandalag háskólamanna frá því, að það hefði verið algengt í fyrra, að námskostnaður manna í Bandaríkjunum og Bretlandi hefði verið 200 þús. kr. og menn hefðu þá fengið 50 þús. í lán. Eftir tvöfalda gengislækkun er þessi sami kostnaður kominn upp í 400 þús. Hins vegar er þessi upphæð, sem veitt er úr Lánasjóðnum, aðeins aukin þannig, að hún nægi fyrir sömu gjaldeyrisupphæð og áður, þ.e.a.s. sá maður, sem hafði 50 þús. kr. fyrir ári, fengi 100 þús. nú. En í stað þess að hann varð sjálfur að bera 150 þús. fyrir einu ári, er honum nú gert að bera 300 þús. Þetta er tvímælalaust ákaflega alvarlegt vandamál fyrir mörg hundruð námsmanna. Erlendis eru stúdentar einir saman á 6. hundrað. Auk þeirra eru aðrir námsmenn, þannig að ég hygg, að talan nálgist 1000. Margir þessir menn byrjuðu nám fyrir 1– 2– 3 árum, og þeir eiga á hættu að verða að gefast upp í miðjum klíðum og breyta algerlega áformum sínum um lífið og tilveruna. Ég hygg, að það séu ákaflega fáir í þessum stóra hópi, sem geta af eigin rammleik tekið á sig þessar þungu byrðar. Og í rauninni tel ég það vera siðferðilega skyldu ríkisins að bæta þessum ungu mönnum, sem farið hafa utan í góðri trú, í þeirri trú, að þeir yrðu aðeins að bera þær byrðar, sem þá var kunnugt um, það, sem á þá er lagt á þennan hátt, en það verður ekki gert með öðru en því að stórhækka þessi framlög. En hér er raunar ekki aðeins um það að ræða, hver er siðferðilegur réttur þessara manna, heldur einnig um nauðsyn þjóðfélagsins. Við vitum það vel, að það verður brýnna og brýnna, að við komum okkur upp sem fjölbreyttustum og fjölmennustum hópi menntamanna og veitum þeim aðstöðu til starfa hérna heima. Ef það gerist ofan á allt annað, að nokkur hundruð manna verði að hætta við nám sitt í miðjum klíðum, þá er þar um að ræða afleiðingar gengislækkunarinnar, sem kunna að hafa áhrif langt fram í tímann.

Ég hef hér vikið lítillega að þeim þingmannatill., sem ég flyt hér, og eins og ég sagði áðan, bendir reynsla síðustu ára til þess, að þær muni ekki fá mikið brautargengi hjá stjórnarflokkunum, þó að ég geri mér að sjálfsögðu vonir um, að einhver hugarfarsbreyting kunni að geta orðið á þessu þingi. En trúlega er það þetta viðhorf mitt, sem veldur því, að ég hef ekki við þessa umr. flutt neina brtt. um annað mál, sem ég ber allmikið fyrir brjósti, og þar á ég við safnahúsið, sem við höfum rætt hér á þingi, bæði á síðasta þingi og nokkrum sinnum nú í vetur. Á síðasta þingi fékkst því áorkað, sem betur fór, að fjárveiting til safnahúss var tekin upp í fyrsta skipti, 10 árum eftir að Alþ. hafði samþykkt einróma að að því skyldi stefnt að sameina söfnin og byggja yfir þau. Þessi upphæð var fjarskalega lág, háif millj., en engu að síður var þarna um mjög veigamikil Umamót að ræða. Ég gerði mér vonir um það þá, að þessi upphæð yrði miklu hærri í ár, og mér urðu það vonbrigði, að í fjárlagafrv., eins og það var lagt fyrir, var þessi upphæð látin halda sér, hálf millj. kr., og mér urðu það einnig vonbrigði, að ekki skyldi koma nein till. um þetta frá hv. meiri hl. fjvn. Engu að síður vildi ég mega vænta þess, að þessi upphæð hækki, áður en frv. verður endanlega samþ. Mér er það að vísu ljóst, að þarna er um miklu hærri fjárhæðir að ræða en svo, að fjárveitingar á fjárl. einum saman nægi til þeirra. Þarna verða að koma til lán, en mér hefði einnig þótt eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. greindi frá því fljótlega, hverjar eru fyrirætlanir hennar á þessu sviði. Það hefur verið rætt mjög um það af ýmsum aðilum, að bygging safnahúss væri mjög tilvalið verkefni til þess að minnast 1100 ára afmælis Íslands byggðar 1974. Ef slíkt á að gera og ef einhver umtalsverður áfangi safnahússins á að vera kominn upp það ár, þá er algerlega óhjákvæmilegt, að ákvörðun um þetta efni verði tekin hér á þingi í vetur. Og eins og ég hef áður sagt, er þetta mál þess eðlis, að hæstv. ríkisstj. verður að hafa frumkvæði um það. Því verður ekki hrundið fram nema hæstv. ríkisstj. fallist á það og beiti sér fyrir því. Því vildi ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. eða hæstv. menntmrh., sem báðir eru hér viðstaddir, hvort ekki megi vænta þess, að ríkisstj. fari senn að móta stefnu sína í þessu máli.