05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í D-deild Alþingistíðinda. (3838)

276. mál, Vesturlandsvegur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Við 1. tölulið vil ég gefa þetta svar:

Sá hluti Vesturlandsvegar, sem nú er unnið að, er um 850 m langur og nær frá Rofabæ að Höfðabakka, en það eru nöfn á götum, sem komnar eru eða eiga að koma samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur á þessu svæði. Nánar til tekið má segja, að það sé frá austurbrún Elliðaárbrekku á Vesturlandsvegi að þeim stað, sem umferð er á Suðurlandsveg út af Vesturlandsvegi. Verk þetta var ekki boðið út af ástæðum, sem greindar eru í lið 2 í fsp., en sá liður hljóðar þannig, eins og hv. alþm. sennilega muna eða sjá: „Ef svo var ekki,“ þ.e. að bjóða út, „hver er þá ástæðan til þess, að Íslenzkir aðalverktakar voru ráðnir til að sjá um framkvæmd verksins án útboðs og hver tók þá ákvörðun?“

Sem svar við þessu vil ég taka þetta fram: Í vegáætlun fyrir árin 1965—1968 voru engar fjárveitingar til lagningar þess hluta Vesturlandsvegar, sem talinn er hraðbraut í vegáætlun, en það er frá vegamótum milli Miklubrautar og Reykjanesbrautar í Breiðholti vestan við Elliðaár að vegamótum Vesturlandsvegar og Þingvallavegar. Hins vegar voru í vegáætlun lántökuheimildir fyrir 62.5 millj. kr. til lagningar þessa vegar, sem síðar voru hækkaðar við endurskoðun á vegáætlun 1967 um 25.8 millj. kr., svo að lántökuheimildir voru alls fyrir 88.3 millj. kr. Þessar miklu lántökuheimildir í vegáætlun til þessa hluta Vesturlandsvegar, sem talinn er hraðbraut, er mjög ákveðin ábending Alþ. til ríkisstj. um, að nauðsyn sé að hefja lagningu þessa vegar fyrir lánsfé á vegáætlunartímabilinu, þó að engar fjárveitingar hafi verið teknar upp til verksins. Þar sem ekki reyndist unnt að afla lánsfjár til þessara framkvæmda innan ramma framkvæmdaáætlunar ríkisstj. á s.l. ári, var horfið að því ráði að semja við Íslenzka aðalverktaka um að taka að sér lagningu á hluta af þeim kafla Vesturlandsvegar, sem nauðsynlegt er að endurbyggja sem hraðbraut, en það er frá enda Miklubrautar vestan við Elliðaár inn að Höfðabakka, þar sem umferð eftir Suðurlandsvegi fer út af Vesturlandsvegi. Umferðaröngþveitið á þessum vegarkafla undanfarin sumur er kunnara en svo, að um það þurfi að fjölyrða. Ástæðan til þess, að samið var við Íslenzka aðalverktaka um þennan fyrsta vegarkafla var sú, að félagið bauðst til þess að lána allan kostnað við verkið til þriggja ára með svipuðu móti og þeir gerðu við lagningu Reykjanesbrautar. Er samið um framkvæmd verksins á einingarverðsgrundvelli á sama hátt og gert var við Reykjanesbraut.

Það var ekki kunnugt um annan verktaka, sem hefur fjárhagslegt bolmagn til þess að taka að sér verk sem þetta á ofangreindum grundvelli. Það, sem máli skiptir í þessu, er, að í sambandi við samningana var talið af verkfróðum mönnum og vegamálastjóra og öllum hans mönnum, að þetta væri tiltölulega hagstætt tilboð, þar sem reiknað var á einingargrundvelli hvert kostnaðarverðið væri og reynsla var fengin fyrir því, hvað sanngjarnt var að miða við. Í annan stað var augljóst fyrir fram, að tilgangslaust var að bjóða verkið út, þar sem ekki var vitað um neinn verktaka, sem hefði fjármagn til þess að lána. Það var því um tvennt að velja: Að byrja ekki á verkinu á s.l. hausti eða semja við þann aðila, sem fjármagn hafði undir höndum.

Liður 3: „Hafði ekki Vegagerð ríkisins sjálf möguleika á því að vinna verkið á jafnhagkvæman hátt. Hefur hún haft verkefni í haust og vetur fyrir vinnuvélar sínar og þá starfsmenn, sem þarf að sjá fyrir vinnu svo að segja allt árið eins og um fasta starfsmenn væri að ræða?“

Rétt er að taka fram, að Vegagerðin hefði að sjálfsögðu getað unnið þetta verk eftir kostnaði og hefði sjálfsagt ekki þurft að verða dýrara, en hjá Aðalverktökum. En þess ber að geta, að það var engin fjárveiting til verksins. Vegagerðin hafði ekki yfir fjármagni að ráða til þess að hefja þessar framkvæmdir. Vegagerðin hefur yfir talsverðum vélakosti að ráða, en vafasamt er að binda þennan vélakost á einum stað yfir vetrarmánuðina, þar sem oft þarf að grípa til þessara véla, þegar mikil snjóalög falla eða þegar skemmdir verða á vegum vegna náttúruhamfara. Það er því vafasamt, að vegagerðin hefði haft nægilegan vélakost til þess að vinna þetta verk. Það má einnig segja, að það fólk, sem er fastráðið hjá vegagerðinni, hafi haft atvinnu í haust og í vetur og hefur þess vegna ekki verið byrði hjá vegagerðinni út af fyrir sig.

Ég held, að ég hafi ekki fleira að segja að svo stöddu sem svar við þessari fsp., sem fram er borin í þrem liðum.