05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (3840)

276. mál, Vesturlandsvegur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi talaði um, að hér hafi verið gengið inn á hættulega braut að láta fjármagnið ráða, láta þann eina aðila fá þetta verk, sem gat útvegað lán til framkvæmdanna. Og hv. fyrirspyrjandi sagði, — ég skrifaði það orðrétt eftir honum, — að láta vinna þetta skilyrðislaust, án þess að bera saman, hvort Vegagerðin hefði getað unnið verkið á jafnhagkvæman hátt. Ég held, að það sé ekki sæmandi fyrir hv. fyrirspyrjanda að orða þetta þannig, því að það kom fram í mínu svari, að það hafði verið borið saman, hvort þetta verktilboð Aðalverktaka væri hagkvæmt eða óhagkvæmt. Það er unnið eftir einingarverði og Vegamálastjóri og verkfræðingar hans reiknuðu þetta út og báru það saman og töldu þetta tilboð mjög hagkvæmt, töldu að þetta væri unnið á kostnaðarverði. Það var þess vegna ekki um það að ræða, hvort Vegagerðin gæti unnið þetta á hagkvæmari máta, en hér er um að ræða. Þótt Vegagerðin hefði haft fjármagn undir höndum, hefði hún ekki að mati þeirra fróðustu manna getað unnið þetta ódýrara heldur, en nú er til stofnað. Þetta finnst mér skipta höfuðmáli, og það er vitanlega aðeins um misskilning að ræða hjá hv. fyrirspyrjanda frekar, en hann hafi ekki viljað hafa það, sem sannara reyndist í þessu. Þetta var borið saman. En ef Vegagerðin hefði haft fjármagn undir höndum, þá kom vel til mála, að hún ynni þetta verk og hefði sjálfsagt gert það, en þar sem hún hafði ekki fjármagn undir höndum, var ekki um það að ræða og verkið hefði ekki orðið ódýrara, þótt Vegagerðin hefði unnið að málinu.

Hitt er svo vafamál, hve hættulegt það er að láta Aðalverktaka fá þetta verk með þeim kjörum, sem hér er um að ræða, af því að þeir geta lánað til þessara framkvæmda. Hv. Alþ. hefur lýst vilja sínum og samþykkt lántökuheimildir til þess að flýta þessu verki. Og meira að segja hafa margir hv. alþm, látið þá skoðun sína í ljós, að það ætti að flýta gerð hraðbrauta með því að taka erlend lán. Og ég er einnig þeirrar skoðunar, en þá þurfum við vitanlega að fá hagstæð lán. Hér er um að ræða innlent lán hjá innlendu fyrirtæki og ég sé ekki þá hættu, sem af því stafar að taka lán hjá þeim. Hitt er svo annað mál, að það er eðlilegt, að verk séu boðin út og öllum gert jafnt undir höfði, en það er búið að lýsa því áður, að hér var um sérstakt tilfelli að ræða og ég tel, að það hafi verið vel gert að ýta þessu af stað. Með því hafa ýmsir haft atvinnu í vetur, sem annars hefðu verið atvinnulausir. Þetta verk er nú komið af stað og það verður til þess, að því miðar fyrr áfram.