05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (3841)

276. mál, Vesturlandsvegur

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði ekki sannazt, að það hefði verið óhagkvæmt að taka þessa ákvörðun, en í fyrri ræðu sinni vék hann að því, að verkefni hjá vinnuvélum vegagerðarinnar væru það takmörkuð, að þær væru ekki nýttar sem skyldi á þessum vetri og það er mér kunnugt um. Þess vegna held ég, að það hefði verið hagkvæmara undir þessum kringumstæðum, fyrst ekki var boðið út, að vegagerðin hefði sjálf unnið verkið og það, sem ég varaði við og vara ennþá við er, að þeir einir fái að vinna verkið, sem geta lagt til fjármunina. Það er stefna, sem vegagerðin á ekki að fylgja.