12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í D-deild Alþingistíðinda. (3847)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég er síður en svo á móti því að ræða þessi mál örlítið meira, þó að ég hafi kosið að hafa svör mín í þessu stutta formi, sem spurningarnar gáfu tilefni til og tel að það sé rétt og eðlilegt, að þannig sé spurt og þannig svarað og erum við fyrirspyrjandi alveg sammála um það, en það er vitanlega ástæða til þess að ræða þessi mál allmiklu meira og án þess að ég ætli að fara of langt út í þá sálma hér, nema frekara tilefni gefist til, þá vildi ég ekki láta hjá líða að ræða þetta örlitið betur í tilefni af fyrirspurn hv. 6. þm. Reykv.

Hann vitnaði í ummæli Jónasar Haralz um skuldabyrði þjóðarinnar 1958 að mig minnir eða 1959, sem hann mun hafa samið grg. um og reyndar talað um á sínum tíma, að væri mjög geigvænleg og hefði numið 11% af gjaldeyristekjum. Hv. 6. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hver væri skoðun mín á þessum orðum Jónasar Haralz, hvort þau væru röng eða þá hvort landið stæði andspænis gjaldþroti, vegna þess að skuldabyrði þess væri orðin þyngri. Ég álít hvorugt. Ég álít, að orð Jónasar Haralz hafi haft fullkomlega við rök að styðjast. Ég álít ekki heldur, að við stöndum andspænis neinu ríkisgjaldþroti, enda þótt prósentutala okkar af gjaldeyristekjum sé hærri en hún var þá. Prósentutalan, sem þá var nefnd og mun vera rétt með farið, var 11%. Skuldabyrði okkar nú nemur um 15% eða rúmlega það á næsta ári. Það, sem hér verður að hafa í huga, er að meta aðstæður og hvers konar skuldir er um að ræða. Skuldirnar, sem við áttum við að stríða, þegar Jónas Haralz flutti sina grg., voru að stórum hluta til lausaskuldir og yfirdráttarskuldir hér og þar í bönkum út um heim, sem voru meira og minna óumsamdar og voru þess eðlis, að það er rétt, að 1959 höfðu bankarnir notað allar sínar yfirdráttarheimildir til þess að kaupa brýnustu nauðsynjar til landsins. Það hefur ekkert átt sér stað í þessa átt enn sem komið er.

Það er rétt, að greiðslubyrðin hefur vitanlega vaxið mjög mikið og er orðin 15%, sem stafar af hinni geigvænlegu lækkun á útflutningstekjum. Áður en þessi lækkun kom til, var greiðslubyrðin ekki nema 7–8% og að meginhluta til í föstum lánum, t.d. voru allar opinberar skuldir í löngum lánum, sem ástæðulaust var að hafa nokkrar áhyggjur af þannig lagað séð og þær lögðu ekki óeðlilega þungan bagga á þjóðina. Greiðslubyrðin hefur hækkað um nærri helming á nærri 2 árum, en ekki vegna þess að skuldirnar hafa hækkað, heldur vegna þess, að tekjur okkar hafa lækkað stórlega, sem við höfum til að standa undir þessum skuldum. Þá er það samt svo, að við höfum ekki safnað lausaskuldum erlendis. Þær yfirdráttarheimildir, sem við höfum fengið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum eru allt annars eðlis. Þær yfirdráttarheimildir hafa ekki heldur verið notaðar enn, þannig að gjaldeyrisstaðan hefur batnað það mikið, að ekki hefur þurft að nota þessar heimildir að öðru leyti en því, að þær eru notaðar að vissu marki til að greiða af lánum, en það eru að sjálfsögðu ekki nein ný lán, sem skapast við það. Hitt er alveg ljóst, að til langframa er það auðvitað allt of þungur baggi á þjóðina að þurfa að borga 15% sinna gjaldeyristekna til afborgana af erlendum lánum, nema því aðeins, að nýjar gjaldeyristekjur komi til og það áfall jafni sig, sem þjóðin hefur orðið fyrir. Við þetta höfum við að sjálfsögðu ekki getað fengið ráðið með neinum hætti, að greiðslu geta okkar hafi minnkað, sem þessu nemur, en ég álít og vil láta það koma skýrt fram, að það er mat þeirra alþjóðlegu lánastofnana, sem við höfum mest samband við og mat þeirra erlendu aðila, sem við höfum leitað til varðandi lántökur, – og ég vil taka fram lántöku með algjörlega eðlilegum hætti, ekki neinu hjálparlánaformi heldur eðlilegum lánagrundvelli, — að Ísland sé land, sem sé fullkomlega fært um að standa undir sínum skuldbindingum, enda hefur það ekki enn komið fyrir, að landið hafi ekki gert það.

Ég sé sérstaka ástæðu til þess að láta það koma fram og legg á það áherzlu, vegna þess að jafnan er flaggað með þessum háu tölum, 12—13 þús. millj. kr., sem skuldabyrði þjóðarinnar sé eftir tvær gengislækkanir, að vitanlega hefur gengislækkunin sem slík ekki þyngt greiðslubyrði þjóðarinnar að neinu marki, og skuldir þjóðarinnar út á við hafa ekki vaxið á neinn hátt, þó að þær séu hærri í krónutölu og þær séu nú um 12 þús. millj. kr., en fyrir 2 árum hafi sambærileg tala verið innan við 6.000 millj. kr. Hér hefur ekki orðið um neina greiðslu þyngingu út á við að ræða.

Það er enn annað, sem ég vildi leggja áherzlu á í þessu sambandi til þess að gefa örlítið ljósari mynd af þessu og það er, — og þá nota ég þær krónutölur, sem nú er við miðað, — að frá 1963 hafa skuldir þjóðarinnar aukizt um 3.220 millj. kr. miðað við núverandi gengi. En þegar við athugum, hvernig þessar skuldir eru til komnar, þá kemur í Ijós, að vegna Landsvirkjunar hafa verið tekin lán, sem nema 2.083 millj. og vegna flugvélakaupa, fyrst og fremst flugvéla Loftleiða, hafa verið tekin lári, sem nema 1.725 millj. Hér er því um að ræða 3.700 millj. kr. á þessu tímabili til þessara tveggja þjóðfélagsþarfa eða meira en nemur allri skuldahækkuninni á þessu tímabili. Þetta tel ég ástæðu til að benda á, vegna þess að hvor tveggja þessara framkvæmda er með þeim hætti, að þær tryggja nýjar og auknar gjaldeyristekjur. Búrfellsvirkjun og Straumsvíkurhöfn, andvirði orkunnar þaðan og afnot hafnarinnar er tryggt með samningum við Swiss Aluminium, þannig að það greiðist með nýjum gjaldeyristekjum. Varðandi flugvélakaupin er það sama að segja, að hvað snertir flugvélar Loftleiða eru þær nær 100% á erlendum flugleiðum og færa okkur þar af leiðandi auknar gjaldeyristekjur, sem þessu nemur og raunar meira en þessu nemur og þota Flugfélags Íslands fær einnig að mjög verulegu leyti erlendar gjaldeyristekjur. Loks má bæta því við, að á sama tíma hafa skuldir vegna fiskiskipa hækkað um 300 millj, kr., en það eru fyrst og fremst þau skip, sem eru að flytja að landi þann afla, sem mest berst af að landi þessa dagana og hefur gert okkur fært að stunda síldveiðarnar síðustu árin. Skuldaaukning vegna nýrrar gjaldeyrisöflunar er því samtals um 4.000 millj. kr. eða nær 800 millj. kr. meira en nemur skuldaaukningunni á þessu tímabili. Þetta tel ég rétt, að komi fram, til þess að ótti grípi ekki fólk vegna hárra talna í þessu sambandi, vegna þess að vitanlega er það áhyggjuefni, ef við værum það illa staddir, að við stæðum andspænis því að geta ekki lengur staðið við okkar skuldbindingar. Hér er sem sagt um það að ræða, að aukning skulda okkar undanfarin ár hefur lagt grundvöll að nýjum gjaldeyristekjum, sem einmitt gera okkur mögulegt að standa betur að vígi varðandi greiðslu erlendra skulda á næstunni.