12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í D-deild Alþingistíðinda. (3849)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var kannske ekkert að undra, að það kæmi við hjartað í hv. síðasta ræðumanni að minnast á skuldamálin fyrir 1959, enda tók hann það mjög óstinnt upp. Ég hafði ekki gert það að fyrra bragði að fara að gera samanburð í þeim efnum, heldur aðeins að gefnu tilefni frá hv. 6. þm. Reykv. og ég sagði, að ég áliti og ekki aðeins áliti, heldur er sannfærður um, að aðstaða okkar til þess að standa undir 15% greiðslubyrði er a.m.k. sízt lakari, en hún var þá til að standa undir 11% greiðslubyrði, vegna þess að skuldir okkar eru nú allt annars eðlis en þær voru þá.

Ég skal taka undir það með hv. þm., að það er erfitt að ræða um þetta í einstökum atriðum nú, vegna þess að við höfum ekki allar þær tölur, sem til þarf til að meta þetta. En ég hygg þó engum efa bundið, að rétt er, að skuldum okkar er nú háttað á þann veg, að aðstaðan til að standa undir greiðslubyrðinni er allt önnur.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég sagði aldrei, að ég áliti, að það væri allt í lagi að hafa. 15% greiðslubyrði. Ég álít, að það sé ekki í lagi og það sé til langframa allt of þung byrði fyrir þjóð að hafa 15% greiðslubyrði. Hitt er annað mál, eins og ég sagði áðan, að greiðslubyrðin var fram á árið 1967 á milli 7 og 8%, sem ég hygg, að hafi verið mjög viðráðanlegt miðað við eðli skuldanna eins og þær voru þá og hafa verið á þessum árum. Það, sem gerzt hefur á þessum síðustu 2 árum, er ekki það, að skuldum hafi verið safnað, heldur hitt, sem öllum landslýð er kunnugt, að tekjur okkar hafa stórkostlega minnkað og það gildir auðvitað það sama um þjóðarbúið og bú hvers einstaklings, að það verður þeim mun erfiðara að standa undir skuldum sem tekjurnar minnka. Þetta liggur í augum uppi og ætti ekki að þurfa skýringar við. Hitt skal ég gjarnan segja, ef það huggar eitthvað hv. þm., að ég álít, að til langframa sé það allt of mikil greiðslubyrði að þurfa að láta 15% af gjaldeyristekjum til þess að standa undir erlendum lánum. Það þarf ekki að merkja það, að við getum það ekki, og það þarf ekki að merkja það, að allt sé í kalda koli hjá okkur, en það hlýtur að leiða til þess, að við þurfum mjög að draga að okkur með aðrar þarfir þjóðarinnar og það er þess vegna engum efa bundið, að til langframa er þessi greiðslubyrði of mikil. En ég vildi aðeins að lokum leggja aftur á það áherzlu, að af þessari greiðslubyrði okkar núna eru 3.700 millj. kr., sem skila sérstökum gjaldeyristekjum, sem ekki voru til staðar áður en í þá skuldaaukningu var ráðizt og stendur þar af leiðandi undir sínum gjaldeyrisútgjöldum í framtíðinni. Landsvirkjunin er ekki farin að skila neinum gjaldeyristekjum, en þar er um öruggar gjaldeyristekjur að ræða í sambandi við 25 ára samning við álbræðsluna, þannig að skuldir sem þessar eru ekkert áhyggjuefni fyrir þjóðina. Ég álít ekki heldur, að skuldir vegna flugvélakaupanna séu það, a.m.k. ekki eins og ástatt er nú og við verðum að vona, að áfram muni horfa bærilega í þeim efnum. Ég hygg því, að það væri fullkomlega raunhæft að segja, að það mætti draga frá hinni almennu greiðslubyrði þessar fjárhæðir, en ég skal ekkert vera að gera það. Það er alltaf hægt að leika sér fram og aftur með tölur, en ég tel þó rétt, að þetta komi fram, til þess að mönnum verði ljóst, að síðustu 5 árin hafa engar aukningar orðið á gjaldeyrisskuldum þjóðarinnar á erlendum vettvangi, nema í sambandi við nýjar gjaldeyrisskapandi framkvæmdir, og það álít ég, að sé kjarni þessa máls. Við verðum svo að reyna að komast yfir þessa erfiðleika að þessu sinni. Það getur auðvitað enginn lækkað greiðslubyrðina eða borgað upp öll erlend lán í einu, þannig að greiðslubyrðin hlaut að hækka, þegar þessi áföll urðu. En við verðum að vona, að okkur auðnist að auka okkar gjaldeyristekjur mjög verulega á næstu árum, þannig að hlutfallið geti aftur orðið mjög svipað og það var, þegar það var á milli 7—8%, sem ég tel, að sé alveg hættulaus skuldabyrði. Að öðru leyti get ég einnig lagt á það áherzlu, að ég álít, að við verðum að sýna fullkomna varúð, meðan svo standa sakir sem nú, um töku erlendra gjaldeyrislána. Það verður að fylgja þeirri meginstefnu, að ekki séu tekin frekari gjaldeyrislán nema til nýrra gjaldeyrisskapandi framkvæmda.