12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í D-deild Alþingistíðinda. (3853)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er einkum eitt atriði af því, sem hér hefur verið sagt, sem ég vildi, að kæmi ljósar fram.

Hæstv. fjmrh. sagði, að afborganir og vextir af skuldum þjóðarinnar við útlönd mundu verða um 2.260 millj. kr. á ári, og taldi því, að greiðslubyrðin mundi vera orðin um 15% af árlegum gjaldeyristekjum. Mér koma þessar tölur heldur spánskt fyrir. Mér sýnist, að þetta þýði, að árlegar gjaldeyristekjur þjóðarinnar séu taldar vera 15 þús. millj. kr. eða rúmir 15 milljarðar. Það er mun hærra, en ég hef nokkurs staðar séð og ég vildi gjarnan, að það kæmi skýrt fram hjá hæstv. fjmrh., hvort gjaldeyristekjur þjóðarinnar á nýliðnu ári hafi reynzt 15.000 millj. kr. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að hér sé reiknað með hærri fjárhæð hjá hæstv. fjmrh. í gjaldeyristekjum á ári, þó að reiknað sé með nýja genginu, en við höfum haft og því sé þetta raunverulega þannig, að hér sé um mun meiri greiðslubyrði að ræða miðað við árlegar gjaldeyristekjur en 15%.

Ég vildi svo aðeins, fyrst ég er kominn hér upp, undirstrika, að því fer fjarri, að þessi greiðslubyrði hafi árin 1958 og 1959 verið orðin svo há sem hér befur verið talað um, að hún hafi numið 11% af gjaldeyristekjunum þá. Í þeirri töflu, sem fylgdi frv. ríkisstj., þegar hún lagði fram frv. sitt um viðreisnarstefnuna, kemur skýrt fram, að þessi greiðslubyrði var talin nema árið 1958 5.7% af gjaldeyristekjunum, sem mun svo við endanlegt uppgjör hafa reynzt nokkru lægri og árið 1959 var talið, að þessi greiðslubyrði mundi nema 9.4%, en hún reyndist einnig nokkru minni, svo að það var ekki um það að ræða, þegar því var haldið fram í upphafi viðreisnar, að þessi greiðslubyrði væri orðin svo mikil, að hún ógnaði út af fyrir sig afkomu þjóðarinnar.

Ég vil fyrir mitt leyti taka undir það, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt, en hann og hans flokksbræður voru ekki fúsir að segja í upphafi viðreisnar, þegar þeir voru að slengja fram þessari kenningu, sem hér hefur verið rædd og Jónas Haralz var aðallega borinn fyrir. Ég álít, að það sé rétt að athuga skuldabyrðina eða greiðslur af skuldum þjóðarinnar með tilliti til þess, hvers eðlis skuldirnar eru.

Ef telja má nokkurn veginn víst, að greiðslur vegna erlendra skulda verði ekki til þess að íþyngja þjóðinni, þar sem erlendu skuldirnar hafi verið notaðar til þess að koma upp framleiðslufyrirtækjum í landinu, sem gefa af sér auknar tekjur, þá er ekki um ýkja mikið vandamál að ræða. Á þetta bentum við, sem nú erum í stjórnarandstöðu, árin 1958 og 1959, þegar þessi mál voru til umr. Þá voru skuldirnar, sem mest var talað um af þeim viðreisnarmönnum, vegna fiskiskipa og virkjana, sem ráðizt hafði verið í af fyrrv. stjórnum. En sem sagt, nú er komið annað hljóð í strokkinn í þessum efnum. En ég vildi vænta þess, að hæstv. fjmrh. upplýsti, svo að ekki færi á milli mála, hvort það er svo, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar allar hafi á s.l. ári reynzt rúmlega 15 þús. millj. kr. miðað við núverandi gengi eða hvort hér er um einhvern feil útreikning að ræða. Það vildi ég fá upplýst.