12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í D-deild Alþingistíðinda. (3854)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir ánægjulegt að heyra, að við hv. 4. þm. Austf. eru sammála um það, sem ég hef verið að segja í mínum orðum í dag, að það sé nauðsynlegt að meta, þegar talað er um greiðslubyrði og þunga hennar, hvers eðlis skuldirnar séu. Þar er ég honum nákvæmlega sammála og það var það, sem ég átti við, þegar ég var að tala um, að 11% greiðslubyrði á einum tíma kynni að vera óeðlilegri og hættulegri, en 15% greiðslubyrði á öðrum tíma, enda þótt ég sé sammála um, að í báðum tilfellunum er um háa greiðslubyrði að ræða.

Það er rétt hjá hv. þm., að það voru ekki 11%, sem greiðslubyrðin var 1958 eða 1959. Það var upplýst af hv. 1. þm. Austf., að það var ekki fyrr en á árinu 1961, sem hún komst upp í þá upphæð, en það stafaði fyrst og fremst af skuldum, sem stofnað var til á þeim tíma, enda kom greinilega fram hjá hv. 1. þm. Austf., að hann taldi, að skýringarinnar væri að leita lengra aftur í tímann. Ég skal ekkert orðlengja um það frekar. Við getum látið það alveg liggja á milli hluta, og ég skal ekki fara lengra út í það mál.

En það voru aðeins örfá atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem ég vildi gera að umtalsefni mjög stuttlega. Hann sagði í sinni ræðu, að það væri dæmalaust, hve skuldir hefðu vaxið á mesta velmegunartímabili í sögu þjóðarinnar. Ég held, að það væri fullkomið rannsóknarefni að gera sér grein fyrir, að hve miklu leyti sú velmegun stafaði af þessum skuldum, sem við höfum stofnað til, því að lántökurnar, sem teknar hafa verið einmitt á þessu tímabili, hafa lagt grundvöllinn að þeirri stórkostlegu eflingu sjávarútvegsins, sem varð á þessu skeiði. Og það hefði verið okkur algerlega óviðráðanlegt að ráðast í þá miklu aukningu síldveiðiflotans, sem gerð var á skömmum tíma, ef við hefðum ekki fengið veruleg erlend lán. Til þess var ekkert innlent fjármagn til. Og það veit ég, að okkur hv. þm. greinir ekki á um.

Það er svo aftur annað mál, þegar talað er um, að öllum gjaldeyristekjum hafi verið eytt og stofnað til stórskulda og mælt um það æði miklum hneykslunaryrðum í dag, þá verður mér hugsað til þess, að undanfarin ár hefur ríkisstj. verið að reyna eftir megni að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð, einmitt að leggja til hliðar hluta af þeim mikla gjaldeyri, sem þjóðinni áskotnaðist vissulega og sá sjóður var kominn upp í um 2.000 millj. kr., en hins vegar var það gegn mjög harðri andstöðu beggja hv. stjórnarandstöðuflokka, að þeirri stefnu var fylgt.

Þá vék hv. þm. einnig að því, að kannske mætti bjarga þessu áfram með því að fá einhver óeðlileg lán og reikna ég þá með því, að hann eigi við einhver hjálparlán eða samskotalán. Ég er honum alveg sammála um, að það er fráleitt, að íslenzka þjóðin taki slík lán og við verðum að reyna að bjarga okkur með öðrum hætti. Hitt er annað mál, að það er ekkert óeðlilegt, þegar þjóð verður fyrir meiri áföllum, heldur en þekkt eru um nokkra sambærilega þjóð, eins og við höfum orðið fyrir nú, að það þurfi að grípa til ýmiss konar aðstoðar frá alþjóðlegum stofnunum, sem við erum aðilar að og er engin hneisa í því fólgin. En þessi ríkisstj. hefur ekki tekið nein slík lán og hefur ekki í hyggju að taka nein slík lán, sem tekin eru með óeðlilegum hætti, a.m.k. ekki lán, sem á sínum tíma voru tekin hér og hv. þm. kannske kannast svolítið við, — voru veitt úr sjóði, sem Bandaríkjaforseti hafði til sérstakra umráða til þess að tryggja öryggi Bandaríkjanna. En það voru aðrir, sem tóku þau lán.

Hv. 1. þm. Austf. sagði, að það væri ekkert nýtt, að gjaldeyrisskapandi lán væru tekin. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það er ekkert nýtt. En það er þó eitt nýtt og það eru þau lán, sem tekin eru vegna Búrfellsvirkjunar og Straumsvíkur, sem eru langstærstu lánin, sem Ísland hefur nokkru sinni tekið og eru algerlega ný að því leyti til, að það er tryggð endurgreiðsla þessara lána í erlendum gjaldeyri með samningi langt fram í tímann. Þetta höfum við, held ég, aldrei áður gert.

Að lokum fsp. hv. 4. þm. Austf. Ég skil ósköp vel, að hann varpi henni fram og eigi erfitt með að fá enda til að ná saman með hliðsjón af þeim tölum, sem hér voru birtar áðan af hálfu hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég hef heldur ekkert við þær að athuga, svo langt sem þær ná, en staðreynd málsins er sú, ég hef ekki nákvæmlega tölurnar fyrir 1968, en þá var hins vegar gert ráð fyrir því, ég vil taka það fram, að þetta eru bráðabirgðatölur, einnig fyrir 1958, það eru ekki öll kurl þar komin til grafar, að greiðslubyrðin hefði á því ári numið 15.4% af heildargjaldeyristekjum og ætti þá að vera hægt nokkurn veginn að finna það út, en samkv. innflutnings— og gjaldeyristekjuáætlun fyrir árið 1969 er gert ráð fyrir því, að gjaldeyristekjurnar nemi 14.360 millj. og greiðslubyrðin verði 15.7%.