19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (3861)

277. mál, stækkun áburðarverksmiðjunnar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi virtist vera ánægður með þau svör, sem ég gaf við fsp., en af því að hann sagði, að freistandi væri að spyrja einnig að því. hvaða verð yrði á áburðinum í vor, tók ég það svona næstum því sem fsp., en því er til að svara, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur ekki enn sent till. til rn. um verðlagningu á áburðinum og get ég því ekki svarað því, enda er það sjaldan, að verðið á áburðinum sé ákveðið, fyrr en í apríi. En eitt tel ég rétt að upplýsa, til þess að menn séu ekki að gera sér gyllivonir, að það er alveg öruggt, að áburðurinn verður ekki greiddur niður, eins og sumir eru að tala um. Hann verður ekki greiddur niður. En hvaða ráðstafanir verða gerðar til þess að gera bændunum kleift að kaupa áburðinn? Raunhæfustu aðgerðina tel ég vera þá að gera mögulegt að gefa bændum gjaldfrest á talsverðum hluta áburðarverðsins til haustsins, — þangað til þeir fá peninga fyrir afurðirnar.

Það er óhjákvæmilegt, að áburðurinn hlýtur að hækka talsvert á þessu vori. Það hlýtur öllum að vera ljóst, en ég vænti þess, að þar sem bændur hafa fengið talsverða hækkun á sínu afurðaverði, þá geti þeir keypt áburðinn að þessu sinni eins og áður.