26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í D-deild Alþingistíðinda. (3866)

174. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Sú grg. frá konum, sem hér var lesin upp af hv. 6. þm. Reykv., þarf því miður á fleiri en einum stað leiðréttinga við. En það er ekki verkefni mitt á þessum vettvangi, heldur að svara þeirri fsp., sem fram var borin. Ég vil aðeins þó benda á t.d., að það er talað um, að fæðingardeildin hafi verið eldhúslaus frá upphafi, eins og þetta sé einhver vanræksla og það hafi ekki verið lokið við eldhúsið. Þetta er alger misskilningur. Það var alltaf frá öndverðu gert ráð fyrir því, að ekki væri eldhús í þessari deild, fæðingardeildinni, heldur að flutt yrði á milli spítalanna, eins og gert hefur verið. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, voru engar till. uppi um það þá, miðað við þær aðstæður, sem deildin var reist við, að hafa þetta öðruvísi. Það er þess vegna ekki rétt, að fæðingardeildin hafi aldrei verið fullgerð, því að hún var fullgerð, eins og ætlazt var til, að hún yrði. Það má kannske segja, að sú aðstaða, sem hefur verið lagfærð á allra síðustu árum í viðbyggingu við hana, hafi verið ráðgerð og dregizt lengur, en skyldi, en það snertir ekki aðstöðu fyrir fæðandi konur eða konur með sjúkdóma, heldur aðstöðu fyrir ljósmæðraskólann og aðra aðstöðu fyrir þá, sem vinna við fæðingardeildina.

Það er heldur ekki rétt, að það hafi í upphafi verið ráðgerð stækkun og tenging við Landsspítalann. Þetta fær ekki staðizt. Þetta er komið til miklu síðar, en eins og ég sagði, skal ég láta þetta liggja á milli hluta, en svara þeirri fsp., sem til mín hefur verið beint. Ég mun láta hinu beina svari fylgja nokkrar almennar upplýsingar til frekari glöggvunar fyrir hv. þm.

Allbreytilegt er, hve mörg sjúkrarúm fyrir kvensjúkdóma eru talin nauðsynleg, en í Svíþjóð, þar sem kröfur eru hvað mestar, er áætluð þörf 30—40 rúm á hverja 100 þús. íbúa. Miðað við þær tölur ættu hér á landi að vera 60—80 sjúkrarúm fyrir kvensjúkdóma. Fyrir höfuðborgarsvæðið sjálft þyrfti um 30—40 rúm og þar sem vissar aðgerðir á sviði kvensjúkdóma verða ekki gerðar nema í sambandi við sérdeildir fyrir kvensjúkdóma, þarf að áætla a.m.k. helming af þeim 30—40 rúmum, sem þá vantar, sem viðbót við sjúkrarúmin fyrir höfuðborgarsvæðið. Yrðu rúm þá alls um 45—60 í kvensjúkdómadeildum á höfuðborgarsvæðinu.

Í Fæðingardeild Landsspítalans eru 53 rúm. Þar af eru 27 ætluð fæðandi konum, en 26 konum með sjúkdóma, bæði sjúkdóma, sem stafa frá þungun og kvensjúkdóma almennt. Þau rúm skipast yfirleitt þannig, að 10 rúm eru fyrir sjúkdóma um meðgöngutímann, en 16 fyrir kvensjúkdóma.

Hús fæðingardeildarinnar var tekið í notkun á árinu 1949. Er það því 20 ára um þessar mundir. Var bygging þess kostuð af ríki og Reykjavíkurborg sameiginlega — að 2/3 hlutum af borginni en 1/3 af ríkinu. Báru þessir aðilar einnig kostnað af rekstri deildarinnar í þeim hlutföllum til ársins 1961, en síðan hefur ríkið staðið eitt að rekstri deildarinnar. Tók þá til starfa Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar með 25 rúmum og var um það samkomulag milli ríkis og borgar, að ríkið tæki þá að fullu við öllum kostnaði vegna Fæðingardeildar Landsspítalans.

Geislalækningar eru einungis framkvæmdar á einum spítala á landinu, Landsspítalanum og annast röntgendeildin þær. Þar eru framkvæmdar geislalækningar á illkynjuðum æxlum og öðrum þeim meinsemdum, sem geislarnir eru taldir geta læknað. Þeir kvensjúkdómasjúklingar, sem þurfa geislameðferð og þurfa að vera rúmliggjandi, liggja á fæðingardeildinni, en nýlega hefur verið sköpuð aðstaða í aðalbyggingu Landsspítalans, til að slíkir sjúklingar geti legið þar í einu herbergi. Til geislameðferðarinnar hefur verið notað radíum, sem upphaflega mun hafa verið aflað fyrir forgöngu radíumsjóðsins, en endurnýjað og aukið verulega á síðasta ári.

Um framtíðarhorfurnar almennt er þetta að segja: Af þeim upplýsingum, sem raktar eru að framan, er ljóst, að sjúkrarými fyrir kvensjúkdóma er of lítið á sérdeildum hér á landi. Á það reynir þó sérstaklega í sambandi við kvensjúkdóma, sem þörf er á geislun við, því að ekki er annað að leita þeirrar læknisþjónustu. en á Landsspítalann. Ýmsar handlæknisaðgerðir við kvensjúkdómum eru hins vegar framkvæmdar á handlækningadeildum annarra sjúkrahúsa, en þörfin á því sviði er leyst að vissu marki utan sérstakra kvensjúkdómadeilda eins og er, enda kemur það greinilega fram í fsp., að það er aðstaðan til geislameðferðar á kvensjúkdómum, sem fsp. fyrst og fremst beinist að. Til þess að bæta úr þeirri þörf, sem hér er óleyst, hafa af heilbrigðisstjórnarinnar hálfu verið uppi ráðagerðir um, að byggðar yrðu tvær 24 rúma deildir við Fæðingardeild Landsspítalans, þannig að þar yrðu 48 rúm, fyrir kvensjúkdóma og svipuð tala rúma fyrir fæðingar og sjúkdóma um meðgöngutímann, eða alls 101 rúm. Einnig kæmi til greina, að skurðdeild fyrir kvensjúkdóma yrði að auki við annan spítala á höfuðborgarsvæðinu, t.d. Borgarspítalann, með allt að 28 rúmum. Slík deild væri þó ekki bundin við kírúrgíska kvensjúkdóma, heldur gæti hún rúmað vissa aðra kírúrgíska sjúklinga. Til þess að koma upp betri aðstöðu fyrir geislalækningar og til þess að geta hið fyrsta tekið í notkun kóbalttæki það, sem Krabbameinsfélag Íslands hafði milligöngu um, að væri fært Landsspítalanum að gjöf, var ákveðið á s.l. ári að byggja um 160 fermetra húsnæði við núverandi húsnæði röntgendeildar, því að ekki var talið unnt að koma því fyrir í núverandi húsnæði né hagkvæmt að setja það niður í því húsnæði, sem röntgendeildin fær til umráða í kjallara gömlu Landsspítalabyggingarinnar, þegar eldhúsið flytur í nýtt húsnæði eftir væntanlega 1–2 ár. Sú lausn hefur þann kost, að unnt verður að taka kóbalttækið í notkun miklu fyrr, a.m.k. 4—5 árum fyrr, en ef bíða hefði átt eftir nýrri geislalækningadeild eða geislalækningabyggingu. Það var samdóma álit byggingarnefndar Landsspítalans og sérfræðinga þeirra, sem starfa við geislalækningar á röntgendeildinni, að hér væri um svo brýnt úrlausnarefni að ræða, að ekki væri stætt á því að bíða fullkominnar byggingar, þegar hægt væri að koma tækinu í notkun í bráðabirgðahúsnæði þegar á þessu ári. Tæki þetta kemur að gagni, þótt ekki verði fjölgað sjúkrarúmum fyrir kvensjúkdóma, því að nokkur hluti þeirra, sem á meðferð í tækinu þurfa að halda, þurfa ekki að liggja á sjúkrahúsi meðan á meðferð stendur.

Ég skal þá víkja að byggingarmöguleikum og skipulagsmálum í sambandi við þá.

Byggingarsaga Landsspítalans á núverandi lóð hefst á árinu 1919, þegar ríkið kaupir lóð á Grænuborgartúni af Reykjavíkurbæ. Húsameistari ríkisins gerði síðan skipulagsuppdrátt af byggingu á lóðinni og teikningar af gamla hluta Landsspítalans, sem reyndar átti að vera allmiklu stærri samkvæmt fyrstu till. en hann endanlega varð. Ekki er ástæða til þess að rekja byggingarsögu Landsspítalalóðarinnar, nema hvað haldið hefur verið áfram að auka við byggingum á lóðina, síðast eldhúsi og mötuneytisbyggingu, sem byrjað var að byggja 1966. Ekki hafði í byrjun verið byggt með framtíðarskipulag Landsspítalans sérstaklega fyrir augum, heldur eftir því sem þörf var fyrir á hverjum tíma. En í ársbyrjun 1965 ákvað heilbrmrh. að fela byggingarnefnd Landsspítalans það verkefni að gera tillögur um skipulag bygginga á Landsspítalalóðinni og í hvaða tímaröð þær skyldu reistar. Jafnframt kom þá í byggingarnefnd fulltrúi frá læknadeild háskólans með það fyrir augum, að sameinaðar skyldu á lóð Landsspítalans byggingar fyrir allt læknanám, bæði hið verklega, sem þegar er þar, þ.e. sjúkrahúsið og það bóklega, sem enn er í öðrum byggingum háskólans, en við of þröngan húsakost. Byggingarnefnd tók þegar að kanna möguleika á því að ganga frá endanlegu skipulagi lóðarinnar, en komst jafnframt fljótlega að raun um, að allar áætlanir fyrir framtíðarbyggingar þyrfti að vinna frá grunni, áður en unnt yrði að gera nokkrar endanlegar till. um skipulag á lóðinni. Í fyrstu var kannað, hvaða möguleiki væri á að koma fyrir byggingum og hve miklu magni bygginga á þeirri lóð, sem afmarkast af núverandi Hringbraut, Barónsstíg, Eiríksgötu og Snorrabraut og var húsameistara ríkisins falið að gera till. um það. Þær till., sem fyrst komu frá húsameistara, voru síðan óformlega lagðar fyrir borgaryfirvöld til athugunar og kom þá fljótlega í ljós, að þau töldu, að mjög skorti á, að séð væri fyrir nægjanlegum bílastæðum fyrir þær byggingar, sem þar voru fyrirhugaðar. Einnig var mjög fundið að hæð húsa á lóðinni og eins, að þau kæmu of nálægt þeirri íbúðabyggð, sem væri í nálægð spítalans. Jafnframt því, að gerðar voru till. að fyrirkomulagi og stærð bygginga á framangreindri lóð, var af hálfu byggingarn. unnið að því að fá yfirlit frá öllum deildum spítalans og háskólans um áætlaða framtíðarhúsnæðisþörf þeirra deilda, sem læknakennslu annast. Síðla vetrar 1967 lágu síðan fyrir niðurstöður um framtíðarhúsnæðisþörf Landsspítalans með 700 rúmum og húsnæðisþörf fyrir kennslu læknastúdenta við læknadeild háskólans.

Til að vinna að lausn skipulagsmálanna var vorið 1967 ákveðið í samráði við borgarverkfræðinginn í Reykjavík að leita aðstoðar danskra verkfræðinga og arkitekta, sem unnið höfðu að skipulagsmálum Reykjavíkurborgar og fór húsameistari ríkisins ásamt Bárði Ísleifssyni arkitekt og Guðmundi Þór Pálssyni arkitekt til Kaupmannahafnar og dvöldu þar meginhluta aprílmánaðar ásamt dönskum sérfræðingum við tillögugerð um skipulag Landsspítalalóðarinnar og fyrirkomulag bygginga. Niðurstaða þess starfs varð sú, að möguleiki væri að koma miklum hluta nauðsynlegra bygginga fyrir á lóðinni norðan Hringbrautar, en ókannað var, hvort það yrði leyft vegna nálægðar við íbúðabyggingar við Barónsstíg og Eiríksgötu. Ljóst varð einnig, að gatnakerfi borgarinnar er ekki skipulagt til að taka við slíku magni bygginga á þeirri lóð og bílastæði yrði að finna utan lóðarinnar. Þegar hér var komið málum, kom borgarverkfræðingur, Gústaf Pálsson, fram með þá hugmynd, hvort ekki væri ráðlegra að flytja núverandi Hringbraut ca. 50 metrum sunnar niður fyrir bakka núverandi Hringbrautar. Við það fengi Landsspítalinn aukið lóðarými, þannig að bifreiðastæði gætu verið á því svæði, þar sem núv. Hringbraut er. Þannig mundu einnig skapast möguleikar til stórbyggingar fyrir ýmsar stofnanir Landsspítalans og læknadeildar sunnan nýrrar Hringbrautar og svigrúm aukast á núverandi lóð. Síðan sú till. kom fram, hefur verið gerð athugun á því, hvaða möguleikar væru á að skipuleggja Landsspítalalóðina með tilliti til þess og hefur verið stillt upp af hálfu húsameistara nokkrum mismunandi möguleikum, sem virðast fullnægja kröfum borgarinnar betur um hæð húsa og nálægð þeirra við íbúðarhverfi norðan og austan Landsspítalalóðarinnar. Yrðu þannig aðallega sjúkradeildir á núverandi lóð Landsspítalans, en rannsóknastofur og ýmsar kennslustofur sjúkradeilda, sem þar teldust mun betur staðsettar, svo sem t.d. ný geðdeild. Við flutning Hringbrautarinnar og skipulag Landsspítalalóðar samkvæmt því, þ.e. byggingar beggja vegna Hringbrautar og bílastæði á því svæði sem Hringbrautin liggur nú um, vinnst það fyrst og fremst fyrir Landsspítalann, að miklu betri skipulagsmöguleikar fást á gömlu lóðinni, auðveldara verður að koma þar fyrir þeim byggingum, sem æskilegt er, að séu í beinum tengslum við núverandi spítalakjarna og einnig fást möguleikar fyrir bifreiðastæði á þeim hluta lóðarinnar. Af hálfu byggingarn. hefur sú lausn, sem hér er rakin, þ.e. flutningur Hringbrautarinnar og bygging rannsóknastofu og kennsluaðstöðu sunnan Hringbrautarinnar, verið talin æskilegasta lausnin á skipulagsmálum Landsspítalabygginga og læknadeildar háskólans og er það álit n. byggt á rannsóknum þeirra sérfræðinga, innlendra og erlendra, sem unnið hafa að þessum málum, eins og að framan er rakið, því að með því að hafa byggingar sunnan Hringbrautar, opnast miklu meiri möguleikar á framhaldi bygginga þar og af borgaryfirvalda hálfu hefur verið gert ráð fyrir, að Landsspítalinn og stofnanir hans gætu þá í framtiðinni haft að mestu leyti til umráða landssvæðið allt, sem myndast milli Hafnarfjarðarvegar og nýrrar götu frá Sóleyjargötu suður í Fossvog og upp í Öskjuhlíð. Er þarna um mjög stórt landssvæði að ræða. Mun það verulega stærra en núverandi Landsspítalalóð.

Þótt skipulag lóðarinnar hafi þannig þokazt verulega áfram, standa málin samt svo í dag, að ekki verður byrjað á nýrri byggingu á því svæði sem skipulagið nær yfir, fyrr en lóðamálin eru endanlega ákveðin. Varðar þetta bæði geislalækningadeildarhús og viðbyggingu við fæðingardeildina. Þess er vissulega að vænta, að skipulagið fáist endanlega ákveðið áður en mjög langur tími líður, en þau atriði, sem óleyst eru nú, eru fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Yfirstjórn heilbrigðismálanna hefur lagt mjög mikla áherzlu á það að undanförnu, eins og fram kemur að vissu leyti í þessari grg., að hraða þessum málum. Verður lagt á það höfuðkapp af viðkomandi ráðamönnum að fá endanlega ákvörðun um skipulag lóðarinnar alveg á næstunni.

Það hefur komið fram í álitsgerðum byggingarn. Landsspítalans og landlæknis og hef ég verið sama sinnis, að þegar hafizt verður handa um byggingu frekara sjúkrarýmis á Landsspítalalóðinni, er kvensjúkdómadeild og geðdeild það, sem mest er aðkallandi. Um fjármálin er rétt að fara nokkrum orðum. Æskilegast væri að geta reist allar byggingar sem fyrst og á sem skemmstum tíma. Undanfarin ár hefur verið byggt á Landsspítalalóðinni fyrir eftirtaldar upphæðir: Árið 1968, þ.e. viðbygging Landsspítalans plús tæki, 29.l millj. kr. Eldhúsbygging er þá ekki komin í gagnið, en byrjað á henni og varið til hennar 15.8 millj. kr. og til fæðingardeildarinnar 391 þús. kr. eða alls á árinu 1968 byggt fyrir 45.4 millj. kr. Árið 1969 var byggt við viðbyggingu Landsspítalans fyrir 34.4 millj. kr., við eldhúsbygginguna 9 millj. kr., fæðingardeildina, — viðbótarbygging, sem ég vék nokkuð að áðan, — 5 millj. kr. eða alls fyrir 48.5 millj. kr. Árið 1966 var varið til viðbyggingar Landsspítalans 22.6 millj. kr., til eldhúsbyggingar 5.5 millj. kr., til fæðingardeildarinnar 1.4 millj. kr. eða alls 29.6 millj. kr. 1965 var varið til viðbyggingar Landsspítalans og tækjakaupa 19.6 millj. kr., til eldhúsbyggingar 1.4 millj. kr. eða alls 21 millj. kr. 1964 til Landsspítalans 20.8 millj. kr. og 1963 15.5 millj. kr. og á árabilinu frá 1953 til 1962, 10 ára tímabili, alls 59.8 millj. kr. eða að meðaltali 6 millj. kr. þessi 10 ár. Er alls á þessu tímabili varið til þessara bygginga 240.7 millj. kr.

Nú er auðvitað mjög erfitt að átta sig á þessum tölum, sem eru frá ósambærilegum tímabilum, vegna breytts verðlags og hef ég því látið færa heildarniðurstöðuna til verðlags 1968, og þá verða niðurstöðurnar þannig, að alls sé varið til þessara bygginga 1968 45.4 millj. kr. 1967 54.2 millj. kr., 1966 34 millj. kr., 1965 27.8 millj. kr., 1964 32 millj. kr. og 1963 27.5 millj. kr. og á árabilinu 1953–1962 164.7 millj. kr., eða alls á þessu tímabili miðað við verðlag ársins 1968 385.6 millj. kr. Það, sem segja má, að einkenni þessar tölur, hvort sem þær eru færðar til sambærilegs verðlags eða ekki, er hið vaxandi hlutfall fjárveitinga til þessara bygginga frá ári til árs og þó að sé tekið sambærilegt verðlag t.d. á árabilinu 1953–62, er meðaltal þeirra ára 16.5 millj. kr., eða um það bil þriðjungur af meðaltali áranna 1967–68, sem er um 100 millj. kr. bæði árin, eða um 50 millj. kr. að meðaltali.

Til þess að ljúka þessum byggingum, sem nú eru í smíðum á Landsspítalalóðinni og unnið er að, þarf a.m.k. fjárveitingu þessa árs, eins og hún er ákveðin í fjárl. og tilsvarandi fjárveitingar næstu tvö ár. Verði ekki hægt að veita stórlega aukið fé til byggingarframkvæmda á Landsspítalalóðinni, eru ekki miklar horfur á, að unnt verði að hefja nýjar framkvæmdir fyrr en á árinu 1972. Hæstv. Alþ. ákveður fjárveitingar frá ári til árs, og fjárhagsgetan markast að sjálfsögðu af efnum og ástæðum þjóðarinnar og eins hinu, hvaða forgang hv. þm. vilja veita slíkum fjárframlögum umfram önnur. Lasta ég ekki afstöðu þm. að þessu leyti hin síðustu ár.

Um tímasetninguna að öðru leyti, en felst í því, sem ég nú hef sagt, vil ég segja, að þó svo að skipulagsmál væru leyst og peningar væru nægir fyrir hendi til þess að reisa kvensjúkdómadeild, er óhjákvæmilegt, að það taki tíma. Til að fullgera teikningar og ljúka annarri undirbúningsvinnu, svo sem útboðsgögnum, þarf allmarga mánuði og til að fullgera slíkar byggingar þarf a.m.k. þrjú ár frá því að framkvæmdir hefjast. Má ætla, að allt að fjögur ár líði frá því að minni háttar spítalabygging er ákveðin samkvæmt frumteikningu og þar til hún er komin í notkun miðað við beztu aðstæður.

Af því, sem ég nú hef sagt, verða niðurstöður eftirfarandi: Miðað við allar þær aðstæður, sem vikið hefur verið að, er þess vart að vænta, að hafizt verði handa um stækkun fæðingardeildarinnar, fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 ár, en aðstaða til nútíma geislalækninga ætti að komast í gagnið á þessu ári, þó við fremur ófullkomnar aðstæður. Ekki virtist grundvöllur fyrir fullkomnari geislalækningastarfsemi hér á landi án tafar, tæknilega séð, en þeirri sem verið er að koma upp, en aðstaða þarf að batna og hún mun gera það. Ég hef lýst því afdráttarlaust yfir og geri það enn, að sú bráðabirgðabygging, sem kóbalttækinu til geislalækninga verður nú komið fyrir í, 4–5 árum fyrr, en með nokkru öðru móti eins og aðstæður eru og skýrt hefur verið, mun ekki, ef ég fæ nokkru um ráðið og má ekki hafa minnstu áhrif á framkvæmdahraða þeirra mjög svo brýnu og veigamiklu framtíðarverkefna, sem hér bíða úrlausnar. Ég hef ekki treyst mér til þess að bera ábyrgð á, að nokkurra ára bið yrði enn á því, að hinar mikilvægu nútíma geislalækningar gætu hafizt hér á landi. Þess vegna er nú unnið að þessari bráðabirgðabyggingu, sem ég hef áður greint frá og ég vildi mega vænta, að kæmi að verulegu gagni, þar til framtíðarbyggingar verða reistar.