26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (3867)

174. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eg þakka hæstv. heilbrmrh. þau ítarlegu svör,~sem hann hefur gefið. Hann vék að fjölmörgum fleiri atriðum en ég spurði um, en það er að sjálfsögðu baksvið þeirrar niðurstöðu, sem hann greindi síðan frá.

Hæstv. ráðh. vék að því í upphafi máls síns, að ekki væri allt rétt hermt í þeirri framsögu, sem ég flutti áðan, en hann vildi ekki leiðrétta þau atriði, sá enga ástæðu til þess. Ég held, að það hefði verið ástæða fyrir hæstv. ráðh. til að flytja hér slíkar leiðréttingar, vegna þess að þessar staðreyndir hafa verið raktar í bréfi frá Bandalagi kvenna til allra alþm. og frá því hefur verið greint ýtarlega í blöðum. Sé þar eitthvað alvarlega ranghermt, held ég, að það væri rétt hjá hæstv. ráðh. að leiðrétta það. Eina atriðið, sem hann vék að í þessu sambandi var, að á fæðingardeildinni er ekkert eldhús. Hann sagði, að það hefði verið ráðgert frá upphafi, að þarna yrði ekki eldhús, en ástæðan fyrir því var að sjálfsögðu sú, að það var alltaf ætlunin, að fæðingardeildin yrði tengd við aðalspítalann og þá hefði ekki verið þörf á sérstöku eldhúsi þar. Erfiðleikarnir á þessu sviði stafa af því, að sú ætlun hefur ekki verið framkvæmd.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að á þessu sviði væri um að ræða algert neyðarástand hjá okkur. Hann benti á, að sjúkrarúm kvensjúkdómadeilda í Svíþjóð jafngiltu því, að hér á landi ættu að vera 60—80 rúm, en þau eru aðeins 16, eins og ég sagði áðan, auk 10 rúma, sem ætluð eru fyrir sjúkdóma meðgöngutímans og eru helmingi of fá.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi einnig, að geislalækningaaðstaða væri gersamlega ófullnægjandi og hann taldi, að hann hefði tekið rétta ákvörðun að koma kóbalttækjunum fyrir í bráðabirgðahúsnæði, þau kæmust þá fyrr í gagnið, en ef beðið hefði verið eftir endanlegu húsnæði. En þessi staðreynd, hvað geisladeild okkar er vanbúin tækjum, hefur verið ljós í heilan áratug. Það hefur verið vitað í 10 ár, að kóbaltgeislatæki næðu mun betri árangri, en sú takmarkaða geislunaraðstaða, sem hér hefur verið. Og það eru hvorki meira né minna en 3 ár síðan vitað var, að Landsspítalinn gat fengið kóbalttæki að gjöf. Það hafa liðið 3 ár í aðgerðaleysi. Ef þegar hefði verið hafizt handa um að koma upp varanlegu húsnæði fyrir þessi tæki, þegar vitað var, að Landsspítalinn gat fengið þau að gjöf, væri þeirri byggingu langt komið nú. Að ráðizt er í bráðabirgðahúsnæði nú, stafar af því einu, að þetta mál hefur verið vanrækt ár eftir ár.

Hæstv. ráðh. talaði mikið annars vegar um skipulagsvandamál Landsspítalans og hins vegar um miklar fjárveitingar til Landsspítalans og annarra sjúkrahúsmála. Það er alveg rétt, að til þeirra mála hefur verið veitt mikið fé á undanförnum árum. En í mjög fróðlegri grein, sem læknar skrifa í Samvinnuna nýlega, halda þeir því fram, að vandi sjúkrahúsmálanna sé ekki sá, að til þeirra hafi verið veitt of lítið fé að undanförnu, heldur að þar hafi skort skipulagningu og framsýni. Með betra skipulagi muni húsnæði okkar geta nýtzt miklu betur en nú er. Og skipulagið ætti einmitt að vera alveg sérstakt hlutverk hæstv. heilbrmrh.

Mér þóttu það ákaflega alvarleg tíðindi, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann sæi ekki fram á, að hægt væri að hef jast handa um byggingu þessarar mikilvægu sjúkradeildar fyrr en 1972. Síðan mundu líða 4 ár, þangað til deildin væri komin upp, þ.e.a.s. árið 1976 í fyrsta lagi. Ég held, að það hljóti að vera hægt að finna leiðir til þess að ráðast gegn þessum vanda miklu fyrr. Til þess þarf að sjálfsögðu fjárveitingar frá Alþ., eins og hæstv. ráðh. vék að og hér liggja nú fyrir þingi tvær þáltill., sem eiga að stuðla að slíkri þróun og ég vænti þess, að þetta mál verði tekið upp í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Meira að segja væri hægt að gefa hæstv. ráðh. tryggingu fyrir því frá flokkunum nú þegar, að þeir mundu vilja standa að fjáröflun, sem hann gæti beitt sér fyrir þegar á þessu ári í þessu skyni.

Eins og hæstv. ráðh. sagði, eru tveir þættir heilbrigðismála okkar ákaflega illa settir, annars vegar geðsjúkdómalækningar og hins vegar kvensjúkdómalækningar. Það verður að taka af fullri festu á báðum þessum atriðum. Og ég hef trú á því, að hægt sé að þoka áfram stækkun fæðingarheimilis og geislalækningaaðstöðu við þá deild, vegna þess að við erum einmitt að ræða þetta mál hér að frumkvæði kvenna, sem hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga, sem hafa beitt sér fyrir, að það væri tekið upp hér á Alþ. og geta ýtt á eftir því af sínum alkunna dugnaði eftirleiðis. Ef samtök kvenna sýna þessu máli áhuga, ef þær beita sér fyrir því, að þarna verði ráðizt í framkvæmdir án tafar, geta þær haft það mikil áhrif á forustumenn stjórnmálaflokkanna, að þeir geti ekki skotið sér undan þessari nauðsyn.