09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í D-deild Alþingistíðinda. (3877)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Í umr., sem fram fóru á Alþ. 1. nóv. 1967 varðandi fsp. Ingvars Gíslasonar um dreifingu sjónvarps, komst hæstv. menntmrh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að hraða sem mest sjónvarpssambandi við Akureyrar– og Eyjafjarðarsvæðið er gert ráð fyrir því að koma upp bráðabirgðastöð á Vaðlaheiði haustið 1968, af því að ekki er hægt að ganga frá pöntunum hinnar endanlegu stöðvar á Vaðlaheiði fyrr en lokið er öllum mælingum frá Vaðlaheiði og austur á Fjarðarheiði og víðar. Gert er ráð fyrir að byggja varanlega stöð á Vaðlaheiði fyrir árslok 1969.“ Og síðar í sömu ræðu, með leyfi forseta: „Þá er spurt um það, hvenær ráðgert sé, að sjónvarp nái til allra landshluta. Um það er þetta að segja: Gert er ráð fyrir, að sjónvarp nái til allra landshluta á árinu 1969 og hafa verkfræðingar Landssímans gert skýrslu um það efni. Skýrslugerðinni var lokið 13. sept. 1967. Þetta jafngildir að sjálfsögðu ekki því, að bókstaflega allir landsmenn muni þá eiga kost á sjónvarpsþjónustu, enda er miklum tæknilegum örðugleikum bundið að tryggja sendingu góðrar sjónvarpsmyndar til afskekktra staða og auk þess mjög dýrt. En framkvæmdum við aðalsendistöðvar í öllum landshlutum og helztu aukastöðvar mun verða lokið 1969.“

Nú er það herrans ár 1969 upp runnið og er því ekki nema að vonum, að fólk á þeim svæðum, sem sjónvarpsgeislar ná enn ekki til, sé farið að halda spurnum fyrir um það, hvenær á árinu muni verða af efndum. Ekki er heldur laust við það, að nokkur orðasveimur hafi verið á lofti um, að ekki sé öldungis víst, að efndir verði á árinu. Mér hafa borizt fleiri beiðnir um það að norðan að komast að hinu sanna í þessu efni. Því hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hvenær er ætlunin, að sjónvarpssendingar nái til Norðurlands austan Vaðlaheiðar og hvenær til allra landshluta?“

Það er þegar alllangt liðið síðan fsp. þessi var lögð fram, en atvik höguðu því þannig, að ekki hefur gefizt tóm til svara fyrr en nú. Ég vona, að þau atvik boði þó ekki illt frá sjónarmiði sjónvarpsáhugamanna fyrir norðan.