09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í D-deild Alþingistíðinda. (3878)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurzt er fyrir um það, hvenær ætlunin sé, að sjónvarpssendingar nái til Norðurlands austan Vaðlaheiðar og hvenær til allra landshluta. Mér er ánægja að því að svara þessari fsp. og gera hinu háa Alþ. og þá um leið þjóðinni allri grein fyrir þeim áætlunum, sem gerðar voru á sínum tíma um dreifingu sjónvarps um landið og þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið um framkvæmdir á þessu ári, ásamt ráðgerðum framkvæmdum á næsta ári.

Þegar ríkisstj. ákvað fyrir 5 árum að beita sér fyrir því, að komið yrði á fót íslenzku sjónvarpi, var sú ákvörðun byggð á því, að aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum skyldu ganga til greiðslu á stofnkostnaði sjónvarpsins, en tekjur af árlegum afnotagjöldum og auglýsingum skyldu standa undir kostnaði við rekstur. Alþ. heimilaði ríkisstj. að nota aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum til greiðslu á stofnkostnaði íslenzks sjónvarps og hefur þessi heimild verið notuð síðan 1. júli 1964. Allur rekstrarkostnaður sjónvarpsins hefur hins vegar verið greiddur með tekjum af afnotagjöldum og auglýsingum. Unnt hefur reynzt að hafa daglega dagskrá lengri, en upphaflega var ráð fyrir gert og dreifing sjónvarpsins um landið hefur og orðið örari, en menn þorðu að vona í upphafi, að orðið gæti. Um það bil tvö ár liðu frá því, að ákvörðun var tekin um stofnun íslenzks sjónvarps, þangað til sjónvarpssendingar hófust frá sendistöð, sem ætluð var Reykjavíkursvæðinu. Byggingu aðalstöðvarinnar, sem vera átti og er hornsteinn dreifingar sjónvarpsins um landið, stöðvarinnar á Skálafelli, var lokið í nóvembermánuði 1968. Um svipað leyti hafði verið komið upp bráðabirgðastöð á Vaðlaheiði og endurvarpsstöð á Skipalóni, til þess að sjónvarpið næði til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins. Rétt á eftir eða fyrir s.l. áramót hófust einnig sjónvarpssendingar til Skagafjarðar um Skálafellsstöðina og til nokkurs hluta Vestfjarða um aðalstöð í Stykkishólmi. Jafnhliða hefur verið komið upp fjölmörgum minni stöðvum. Nú í dag eða um það bil 21/2 ári eftir að íslenzkt sjónvarp var hafið, nær það til landssvæðis, sem á búa 175 þús. manns eða um 85% allrar þjóðarinnar. Á þessu landssvæði eru nú 31.400 sjónvarpstæki í notkun og sé gert ráð fyrir því, að meðalfjölskylda sé um hvert sjónvarpstæki, eru nú um 132 þús. landsmanna á þeim svæðum, sem sjónvarpið nær til sjónvarpsnotenda, eða 66% allra landsmanna.

Í svari við fsp. á hinu háa Alþ. haustið 1967 sagði ég, eins og hv. fyrirspyrjandi rakti, að gert væri ráð fyrir því. að sjónvarp næði til allra landshluta á árinu 1969. Gengisbreytingar þær, sem urðu haustið 1967 og 1968, hlutu hins vegar að raska verulega fjárhagsgrundvelli þeirra framkvæmda, sem ráðgerðar höfðu verið. Engu að síður tókst að balda framkvæmdum í fyrra í öllum aðalatriðum eins og áætlað hafði verið. En á þessu ári, árinu 1969, hafði verið áætlað að reisa aðalstöðvarnar á Vaðlaheiði og Fjarðarheiði auk ýmissa aukastöðva. Til þess að gera þetta kleift hefur orðið að grípa til sérstakra ráðstafana. Með núverandi verðlagi er áætlað, að þessar framkvæmdir kosti 80 millj. kr., en til viðhalds og endurnýjunar af innfluttum sjónvarpstækjum eru áætlaðar 48 millj. kr., svo að 40 millj. kr. vantar á til þess að hægt verði að fylgja upphaflegum áætlunum. Fé hefur nú verið tryggt til þessara framkvæmda, svo að unnt mun verða að fylgja upphaflegri áætlun. Munu því í ár verða byggðar aðalstöðvar dreifikerfisins á Norðurlandi og á Austurlandi, þ.e.a.s. stöð á Vaðlaheiði og á Gagnheiði, sem nú er talin heppilegri en Fjarðarheiði og sjónvarpi þar með komið til fjögurra kaupstaða, þ.e.a.s. til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Vaðlaheiðarstöðina og til Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar um stöðina á Gagnheiði. Þessar ákvarðanir hafa þegar verið teknar. En áætlanir hafa einnig verið gerðar um framkvæmdir á næsta ári, árinu 1970. Þá er ráðgert að byggja aðalstöð á Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu, fyrir Þingeyjarsýslur og Húsavík, aðra aðalstöð á Blönduósi fyrir Austur-Húnavatnssýslu og sem tengistöð fyrir Hólmavík og norðanverða Strandasýslu, svo og tengistöð á Hrútafjarðarhálsi fyrir Vestur-Húnavatnssýslu og sunnanverða Strandasýslu. Ennfremur er ráðgert að byggja aðalstöð á Háfelli í Mýrdal fyrir Skaftafellssýslu og til sambands við sunnanverða Austfirði gegnum Höfn í Hornafirði. Auk þess verður þá haldið áfram útbreiðslumælingum fyrir Austfjarða– og Norðausturlandssvæðið.

Ég tel ánægjulegt að geta skýrt frá því, að þegar á þessu ári muni verða svo komið, að íslenzkt sjónvarp nái til allra landshluta. Auðvitað mun það ekki á þessu ári ná til sérhvers landsmanns, enda á sér slíkt ekki stað enn í löndum, sem þó hafa haft sjónvarp miklu lengur en Íslendingar, jafnvel þótt aðstæður séu ekki eins erfiðar og hér á sér stað. En Íslendingar hafa sýnt sérstakan áhuga á sjónvarpi þann stutta tíma, sem það hefur verið starfrækt. Þess vegna er sjálfsagt að leggja á það hina ríkustu áherzlu, að það komi sem fyrst í alla landshluta. Það er gleðilegt, að þeir fjárhagserfiðleikar, sem að þjóðinni hafa steðjað, skuli ekki hafa orðið til þess að raska áætlunum um dreifingu sjónvarps um landið eða til þess að draga úr þeirri þjónustu, sem sjónvarpið hefur veitt, með styttingu dagskrár eða með því að draga úr gæðum hennar. En unnið verður að því, að hvorugt eigi sér stað.