09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í D-deild Alþingistíðinda. (3879)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Mér finnst það sorglegt, að í ljós kom, að ekki verður hægt að standa við gefin loforð í þessu efni. Mér finnst það lítil huggun, þó hægt sé að segja, að sjónvarpsgeislar nái yfir alla landshluta, því fólkið nær ekki til þeirra. Þess vegna finnst mér ekki hægt að segja, að við þessi loforð hafi verið staðið, því miður. Það er vitanlega augljóst, að erlendur kostnaður hefur aukizt mjög mikið og hann mun vera mikill hluti af kostnaði við að dreifa sjónvarpinu um landið. Þess vegna kemur gengisfellingin mjög hart niður á þessu, en ég get ekki séð neitt réttlæti í því, að fólkið, sem bíða varð lengst eftir sjónvarpinu, verði að gjalda þess.

Þegar ákveðið var að stofna til sjónvarps, þá lá ljóst fyrir, hvernig landið var lagað og hvað það var stórt og það hefur ekki breytzt síðan. Svipuð er líka búsetan í landinu, þó að hún hafi því miður e.t.v. eitthvað dregizt saman og sigið á ógæfuhlið. Og þá hefur, þegar þetta var ákveðið, vonandi verið reiknað út, hvað það kostaði á hvern íbúa í landinu að dreifa sjónvarpi um landið og dreifa því um allt landið og reikna þá á hvern íbúa í öllu landinu, hvað þetta kostaði. Vonandi hefur ekki verið reiknað út, hvað kostaði á hvern íbúa í þéttbýlinu og nú sé farið að reikna út, hvað það kostar á hvern íbúa í dreifbýlinu. Ég vona, að sá hugsunarháttur skjóti ekki upp kollinum.

Ég vil ekki gagnrýna það, sem gert hefur verið í þessum málum, fyrst ákvörðun var tekin um að stofna til sjónvarps og ég vil heldur ekki gagnrýna þann hátt, sem hefur verið hafður á framkvæmdinni. Það var eðlilegt, að sjónvarpi yrði dreift í þessari röð, þó e.t.v. geti verið hægt að deila eitthvað um það. Það er líka eðlilegt, að þetta taki nokkurn tíma, en ég vil gagnrýna það, eins og ég sagði áður, að fólkið, sem þurfti lengst að bíða, líði fyrir þær efnahags kollsteypur, sem hér hafa átt sér stað. Það má benda á, að nokkrir menn í þessum landshlutum hafa reynt að sjá við kollsteypunum, þeir hafa jafnvel keypt sér sjónvarpstæki og þótzt þar draga lærdóm af vissri efnahagspólitík og talið það heppilegt. En nú munu þeir verða að bíða, kannske eitt ár og kannske tvö ár með tæki sín algerlega myndarlaus, en verða væntanlega að borga afnotagjald eftir settum reglum. Ég vil benda á, að réttara hefði verið að draga úr rekstrarkostnaði sjónvarps, en hægja á dreifingu. Það munu vera fleiri, sem eru því meðmæltir að stytta dagskrána, en lengja hana og fáir, sem álíta, að það væri ekki hægt, án þess að sjónvarpið biði við það skaða frá menningarlegu sjónarmiði.