09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir mjög miður, að hv. fyrirspyrjandi virðist annaðhvort alls ekki hafa heyrt það rétt, sem ég sagði í svari mínu við fsp. hans, eða þá misskilið það gersamlega, vegna þess að hann tók þannig til orða, að með þeim framkvæmdum, sem ákveðnar hafa verið á árinu 1969, hafi ekki verið staðið við þau fyrirheit, sem áður hafa verið gefin varðandi dreifingu sjónvarpsins um landið. Og hann notaði síðar í seinni ræðu sinni þau orð, að fyrir dyrum stæði að hægja á dreifingu sjónvarpsins um landið. Það kom að vísu ekki skýrt fram í ræðu hans, hvað hann raunverulega átti við með þessu. Þó gat ein setning, sem hann sagði, bent til þess, að hann teldi það vanefndir, ef ekki hefði hver einasti maður í öllum landshlutum eða hvert einasta býli í öllum landshlutum fengið skilyrði til þess að njóta sjónvarps á árinu 1969. En þeir, sem setið hafa lengur á þingi, en hann og hafa heyrt mig gefa um þetta skýrslur og svara fsp. á undanförnum 3—4 árum, þeir vita allir mjög glögglega, að ég hef í hvert skipti, sem málið hefur borið á góma, gert grein fyrir þeim framkvæmdum, sem þegar hafa verið unnar og áætlunum um næstu ár, þar á meðal í þeirri ræðu, sem hann sjálfur vitnaði til og ég hef hér fyrir framan mig. Þar segir m.a., — ég læt mér nægja að lesa úr henni aðeins örfáar setningar. Þar segir:

„Gert er ráð fyrir“, — það er ræða síðan haustið 1966, — „gert er ráð fyrir, að sjónvarp nái til allra landshluta á árinu 1969“, — til allra landshluta á árinu 1969, — „og hafa verkfræðingar Landssímans gert skýrslu um það efni, dags. 13. sept. 1967. Framkvæmdir við dreifingu sjónvarpsins eru að sjálfsögðu bæði tæknimál og fjárhagsatriði. Ríkisútvarpið mun hafa nægilegt fé til framkvæmdanna miðað við þá áætlun, sem gerð hefur verið. Framkvæmdirnar verða að fara eftir því, sem mælingar og tæknirannsóknir segja til um, en þeim eru skorður settar af árstímum og veðri, en mikið hefur verið unnið að þeim og þeim flýtt eftir föngum og verður því haldið áfram.“

Við þá áætlun, sem hér er vitnað til, verður staðið. Framkvæmdum var hagað eftir henni 1968, og þeim verður hagað nákvæmlega eftir henni á árinu 1969. Það, sem olli vissum vandkvæðum um tíma, var það, sem ég gerði grein fyrir, að framkvæmdirnar 1969 kosta mörgum milljóna tugum meira, en gert var ráð fyrir á árinu 1966. Mörgum milljónatugum meira, en ég gerði nánar grein fyrir í þessari ræðu, að þær mundu kosta. Þess vegna hefur ekki fyrr en alveg nýlega verið hægt að taka endanlegar ákvarðanir um þessar framkvæmdir. Ef engar gengisbreytingar hefðu orðið á undanförnum tveimur árum, hefðu eigin tekjur útvarpsins dugað til framkvæmdanna í fyrra, sem þær raunar gerðu og framkvæmdanna í ár og á næsta ári. En gengisbreytingarnar gagnvart erlendum gjaldeyri og hækkun byggingarkostnaðar innanlands, hafa valdið því eða ollu því, að hægt var að nota fé útvarpsins til ársloka 1968 til þess að standa við áætlun, en ekki lengur. Við hefðum lent í strandi á árinu 1969, — þegar á þessu ári, — ef ekki hefði tekizt að útvega sérstakt fé, til að hægt væri að halda framkvæmdunum áfram. Þetta fé er hvorki meira né minna en 40 millj. kr., en eins og ég sagði í svari mínu, hefur það fé þegar verið tryggt. Ríkisstj. hefur litið þannig á, að það væri svo mikils virði að geta staðið við upphaflegar áætlanir um dreifingu sjónvarpsins, að ekki væri áhorfsmál að leggja ætti í þær sérstöku ráðstafanir, sem nú hefur verið efnt til og útvega þannig 40 millj. kr. viðbótarfé til viðbótar eigin fé ríkisútvarpsins á árinu 1969 einmitt til þess að þurfa ekki að hægja á fyrri áætlunum um dreifingu sjónvarpsins. Þennan misskilning taldi ég sjálfsagt að leiðrétta og vona, að hv. fyrirspyrjandi átti sig á því, að hér er um einhvern misskilning að ræða, sem ég að vísu ekki átta mig fullkomlega á skýringunni á.