09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í D-deild Alþingistíðinda. (3884)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins vara við mjög nákvæmum umr. um það, hvert hafi verið lofað að koma sjónvarpi og hvert því sé komið. Núverandi stjórnarvöld hafa farið mjög varlega í allar sínar umsagnir um það, hvert hægt mundi verða að koma sjónvarpinu og það hafa aðeins legið fyrir áætlanir frá Landssímanum um það, hvað mundi tæknilega vera mögulegt, ef við gætum skaffað alla peninga, sem vantar, til að koma því. Ég vil leggja á það ríka áherzlu, að sjónvarpið hefur dreifzt út um Ísland miklu hraðar en nokkurn mann dreymdi um og miklu hraðar en nokkur tæknimaður mundi hafa þorað að lofa. Og ég vil t.d. láta það koma fram í þingtíðindum og segja það hér, að samkvæmt ráðum og upplýsingum erlendra tæknimanna, er íslenzkt sjónvarp frá fjöllum í nágrenni Reykjavíkur til Norðurlands ómögulegt. Það er ómögulegt. Hins vegar hefur Landssími Íslands, stofnun, sem oft er til umr. á þessu þingi og við erum oft dálítið áhyggjusamir um, hvernig hún fer með peninga og annað slíkt, þá hefur Landssíminn, þessi stofnun, hún hefur þó í þessu máli sýnt tæknilega kunnáttu, sem er með því fremsta, sem til er í veröldinni í dag. Hún hefur sent sjónvarpið frá Skálafelli til Norðurlands, og frá Skálafelli til Vesturlands, og við, sem höfum fylgzt með þessum málum, vitum, að verkfræðingar annarra þjóða, sem hafa komið hingað, — ekki bara til þess að horfa á, hvað við erum að gera, heldur stundum í þeim tilgangi að reyna að ná við okkur viðskiptum og hafa þess vegna nákvæmlega rannsakað þessar aðstæður,– þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að sjónvarp frá Reykjavík til Norðurlands og Reykjavík til Vestfjarða sé ekki innan þess, sem er almennt talið tæknilega mögulegt.

Landssíminn hefur gert ýmsar áætlanir, sem hafa yfirleitt verið um það, hvað er tæknilega hægt, en það sem er tæknilega hægt, er ekki alltaf það, sem er fjárhagslega og efnahagslega hægt. Það, sem hér er um að ræða, er aðeins það, hvað við getum staðið við efnahagslega, hvað ríkisstj. getur gengið langt í útbreiðslu sjónvarps frá fjárhagslegu og efnahagslegu sjónarmiði og það er það, sem spurningin er í raun og veru um. Það er ekki um það að ræða, að ríkisstj. vilji á einhvern hátt ráða því, hvort sjónvarp komist til Ólafsfjarðar, Siglufjarðar, Húsavíkur, Seyðisfjarðar eða Norðfjarðar. Tæknin hefur í raun og veru tekið af okkur allar ákvarðanir, því að þetta fylgir hvað á eftir öðru og spurningin er aðeins á hverju við höfum ráð og á hverju höfum við ekki ráð á komandi árum. Þess vegna mun sjónvarpið fara eins hratt og við höfum framast möguleika til, en það getur ekki farið hraðar en greiðslumöguleikar sjónvarpsins og okkar sjálfra fara.