09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í D-deild Alþingistíðinda. (3897)

278. mál, félagsheimilasjóður

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Þátttakan í þessum umr. sýnir, að hér er mál á ferðinni, sem þm. láta sig miklu skipta, enda er það sannarlega rétt, að þessi félagsheimilamál eru hin mikilvægustu, og eins og hér befur komið fram, er mikil þörf á að ráða bætur á því ástandi, sem er með félagsheimilasjóð.

Nú hefur hv. 2. þm. Vestf. heitið hæstv. menntmrh. aðstoð sinni til áframhaldandi leitar að ráðum til þess að bæta úr þessu, og ég geri ráð fyrir, að það muni vera svo með flesta þm. að þeir vilji gjarnan leggja sitt lið til.

Tilefnið til þess, að ég bað um orðið, var einmitt það, að í hug minn flögraði einmitt, þegar ég sá hv. 10. þm. Reykv. standa í þessum ræðustól, að e. t. v. ættum við völ á einni ágætri leið til þess að afla þessum sjóði tekna. Eins og margir sjónvarpseigendur muna sjálfsagt, kom hann einmitt fram í sjónvarpi s.l. kvöld eða í gærkvöld, til þess að ræða um till., sem var flutt á Alþ. Og hún er um það að leyfa bruggun á sterku öli. Vafalaust mundi af þessu leiða mjög verulegar tekjur fyrir það opinbera. Nú vildi ég skjóta fram þeirri hugmynd, hvort ekki sé kjörið að afla tekna til félagsheimilasjóðs með því að samþykkja þessa till. hv. 10. þm. Reykv.