09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í D-deild Alþingistíðinda. (3906)

279. mál, framkvæmd á lögum nr. 83/1967

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. ráðh., að þetta lagafyrirmæli, sem samþ. var í des. 1967, hefur ekki verið framkvæmt. Má það merkilegt heita, hver dráttur hefur á þessu orðið að leita eftir samningum við banka og sparisjóði um þetta efni, þar sem nú eru liðnir 15 — 16 mánuðir frá því, að lög um þetta voru sett á Alþ., og þetta tel ég mjög aðfinnsluvert. Hæstv. ráðh. las eitthvert bréf frá Tryggingastofnun ríkisins. Það kemur þessu máli ekkert við. Það er ekki hægt að kanna, hvað er heppilegast í þessu efni og hvað er ódýrast, nema með samningaumleitunum við banka eða sparisjóði, eins og til er ætlazt í lögum. Og þetta ber ríkisstj. skylda til að gera.

Hv. 4. þm. Vesturl., sem er einn af sýslumönnum hér á landi, greip inn í umr. og var að lýsa því, hvað þetta væri gott fyrirkomulag, sem viðgengist í hans sýslu. Ég þekki þetta ekki annars staðar. Ég hef heyrt svipaðar tilkynningar í útvarpi reyndar frá starfsbróður hans í næsta héraði þar við. En þar sem ég er kunnugur, þekkist þetta ekki, að sýslumaður eða menn hans séu að ferðast út um allt sitt umdæmi til þess að borga út þessar bætur. Ég veit, að í minni sýslu er það þannig, að sýslumaðurinn felur sparisjóðnum í sýslunni að annast þessa greiðslu fyrir sig, t.d. útborgun á ellilífeyri og þess háttar og ég held, að það gefist vel.

En hvað um það. Þarna hefur verið trassað að framkvæma lög frá Alþ. og má það ekki þannig ganga lengur. Ég vil því skora á hæstv. ráðh. að láta það ekki dragast lengur að hefja þessar samningaumleitanir við banka eða sparisjóði, eins og ríkisstj. ber skylda til að gera, því að henni ber skylda til að framkvæma lög frá Alþ. Það er þegar búið að dragast allt of lengi og fyrr en það hefur verið gert, er ekkert hægt að segja um það, hvaða fyrirkomulag er heppilegast við framkvæmd þessara mála.