16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í D-deild Alþingistíðinda. (3914)

280. mál, mál heyrnleysingja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir leitt að geta ekki orðið við óskum ágætra þingpallagesta um að tala hátt, vegna þess að ég hef sýkzt af hálsbólgu, sem gerir það að verkum, að ég get ekki beitt rödd minni eins og ég mundi annars gera mér til mikillar ánægju og þeim til þægðar. Hins vegar vona ég, að svo stillt verði í salnum, að mál mitt heyrist, þó ég verði að stilla hæð raddar minnar mjög í hóf. Raunar ætti ég alls ekki að vera staddur hér í dag, heldur heima við. En vegna þess, að á dagskrá eru tvær fsp., sem beðið hafa svars í einar þrjár vikur, kaus ég þann kostinn að freista þess að koma hingað til þess að gegna þeirri skyldu minni að svara þessum fsp., sem of oft hafa verið á dagskrá, án þess að, að þeim hafi komið, þó að ég hafi verið reiðubúinn til þess að svara þeim í öll skiptin.

Heyrnleysingjaskólinn hefur um langt skeið verið til húsa í Stakkholti 3 í Reykjavík, upphaflega í gömlu timburhúsi, byggðu árið 1905. Síðan var steinhús byggt þar árið 1926, en gamla timburhúsið flutt burtu 1952 og í þess stað byggt steinhús til viðbótar steinhúsinu frá 1926. Á árinu 1966 var gerð nokkur lagfæring innanhúss, einkum á heimavistarherbergjum nemenda. Þessi umbót laut eingöngu að því að gera húsnæði skólans vistlegra, en fól ekki í sér aukið rými, hvorki til kennslu né heimavistar. Haustið 1968 jókst nemendafjöldi Heyrnleysingjaskólans skyndilega um 30 nemendur, og eru nú í skólanum 54 börn á aldrinum 4 til 16 ára, þar af eru 28 í heimavist.

Til þess að leysa húsnæðisvandamál skólans í bili, var tekin á leigu í haust íbúð á Laugavegi 128 og hafa eldri nemendur skólans notið kennslu í þessu húsnæði í vetur, en þeir af nemendunum, sem eru í heimavist, búa í skólahúsinu í Stakkholti. Til þess einnig að rýma fyrir nemendum skólans, var skólastjóraíbúðin tekin fyrir heimavist nemenda, og búa þar 10 nemendur. Í skólahúsinu við Stakkholt eru aðeins 3 herbergi, sem ætluð voru til kennslu, ca. 25 fm. að stærð hvert um sig. 3 herbergi önnur, tvö þeirra 12 fm og eitt 15 fm, hafa um árabil verið notuð sem kennslustofur, þótt ófullnægjandi séu. Að því er varðar íbúðina, sem tekin var á leigu að Laugavegi 128, er það að segja, að hún hefur verið notuð óbreytt að herbergjaskipan til kennslu og hafa fengizt á þennan hátt 4 kennslustofur, 2 eru ca. 20 fm að stærð hvor um sig og tvær ca. 10 fm að stærð hvor um sig. Herbergjaskipan hefur ekki verið breytt þarna, en eldhúsinnrétting tekin burtu og eldhúsið notað til kennslu.

Þess skal getið, að mjög var leitað eftir húsnæði til kaups eða leigu handa Heyrnleysingjaskólanum sumarið 1968, en að lokum var umrædd íbúð að Laugavegi 128 tekin á leigu, þegar sýnt þótti, að annað skárra fékkst ekki. Hins vegar var þá ljóst, og hefur enn betur komið í ljós við reynslu, að þetta húsnæði er ekki hægt að nota til frambúðar og þarf raunar ekki annað en að nefna eitt atriði í sambandi við það og það er, að þetta húsnæði er við eina fjölförnustu götu bæjarins og hefur það í för með sér mikinn hávaða og truflun, þar sem við kennsluna eru notuð viðkvæm tæki.

Í sambandi við hinn aukna nemendafjölda haustið 1968 hefur verið keypt allmikið af nýjum kennslutækjum, leikföngum og heyrnarþjálfunartækjum fyrir börnin. Með þeim lagfæringum, sem gerðar voru á húsi skólans í Stakkholti árið 1966 og þeirri viðbót, sem skapaðist fyrir heimavistina, þegar skólastjórinn flutti brott úr húsinu og skólastjóraíbúðin var tekin fyrir heimavist, þá batnaði raunverulega heimavistaraðstaðan í skólanum mjög verulega. Aftur á móti hefur það í för með sér ýmsa óhagkvæmni, að heimavistin skuli vera á tveim stöðum í húsinu og enginn samgangur þar á milli. Kallar þetta m.a. á aukna næturvörzlu og aukna starfskrafta yfirleitt. Til þessara framkvæmda var í fyrrasumar varið 2.3 millj. kr.

Þar sem um er að ræða nemendur, eins og nemendur Heyrnleysingjaskólans, sem eru á mjög mismunandi aldursskeiði, frá 4 ára til 16 ára og einnig á mjög mismunandi námsstigi eða heyrnarstigi, gefur auga leið, að nauðsynlegt er að hafa til umráða allmargar kennslustofur og leikstofur fyrir nemendurna. Þessu verður með engu móti fyrir komið eins og húsnæði skólans er nú háttað. Er því ekki unnt að líta á núverandi húsnæðisaðstöðu öðruvísi, en ófullnægjandi og til bráðabirgða. Á húsnæðismálum skólans er ekki um aðra lausn að ræða til frambúðar, en nýja byggingu og þá fyrst og fremst nýtt kennsluhúsnæði. Hins vegar mun jafnan vera lögð áherzla á, eftir því sem aðstæður leyfa, að nemendur þurfi ekki að búa í heimavist, en hitt er jafn ljóst, að aldrei verður komizt af án þess að hafa allstóra heimavist, t.d. fyrir börn, sem eiga heima utan borgarinnar.

Með bréfi til borgarstjórans í Reykjavík frá því í marz 1966 sótti menntmrn. um lóð handa Heyrnleysingjaskólanum og hefur skólanum verið ætlaður staður sunnan í Öskjuhlíðinni milli Bústaðavegar og Hafnarfjarðarvegar. Í fjárlögum fyrir árið 1967 voru veittar 300 þús. kr. til undirbúnings byggingarinnar. Var Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt falið að teikna húsið og skólastjórinn, Brandur Jónsson, fór til Norðurlanda og kynnti sér rækilega allt, sem lýtur að byggingu og rekstri heyrnleysingjaskóla á Norðurlöndum. Að þessu loknu var gerð teikning að kennsluhúsnæði, en eins og kunnugt er, hefur ekki enn verið hafizt handa um byggingarframkvæmdir.

Við sérkennslustofnun, eins og Heyrnleysingjaskólann, skiptir vitanlega afar miklu máli, að við skólann starfi sérmenntaðir kennarar. Þótt Heyrnleysingjaskólinn hafi átt við margs konar erfiðleika að etja á undanförnum árum, ekki sízt húsnæðismálin, hefur hann jafnan haft á að skipa fórnfúsum og áhugasömum starfsmönnum, en hinn mikli nemendafjöldi skólans nú, miðað við það, sem áður befur verið, kallar auðvitað á stóraukna kennslukrafta. Tvær ungar stúlkur eru nú við sérnám erlendis, önnur í Noregi og hin í Bandaríkjunum, með sérstökum fjárhagsstuðningi frá menntmrn. Báðar eru þessar stúlkur mjög efnilegir kennarar og eru miklar vonir bundnar við störf þeirra, þegar þær hafa lokið sinni viðbótarmenntun. Hins vegar varð skólinn fyrir því mikla áfalli í haust, að ein sérmenntuð og dugleg stúlka hvarf þaðan frá kennslu, a.m.k. um sinn og fór til starfa erlendis og önnur ágæt kennslukona, sérmenntuð, sem hafði starfað við skólann í 7 ár, hefur verið frá störfum við skólann meiri hluta yfirstandandi vetrar sökum sjúkleika. Þess má geta, að launakjör heyrnleysingja kennara hafa verið svo litlu hærri, en barnakennara, að það eitt út af fyrir sig hefur ekki freistað kennara til framhaldsnáms, en sérnám heyrnleysingjakennara tekur víðast hvar 2 ár. Sérmenntaðir heyrnleysingjakennarar voru áður í 17. launaflokki, en hafa alveg nýlega verið færðir í 18. launaflokk. Það þarf að halda áfram að styðja unga og efnilega kennara til að sérmennta sig til starfa við Heyrnleysingjaskólann, þannig að skólinn hafi ávallt á að skipa nægum kennslukröftum með tilskilda sérmenntun og einnig þarf að hafa í huga, að kennsluaðferðir og kennslutæki breytast ört á þessu sviði, eins og á flestum öðrum sviðum nú á tímum.

Til þess að veita þeim 30 fjögurra ára börnum, sem komu í skólann haustið 1968, viðbótarkennslu við þá kennslu, sem þau fengu í skólanum í vetur, hefur verið ákveðið samkv. till. skólastjóra Heyrnleysingjaskólans að efna til dagheimilis í sumar í þrjá mánuði fyrir þessi börn eða þau þeirra, sem unnt er að láta notfæra sér námskeiðið.

Þá vil ég geta þess, að menntmrn. skipaði þriggja manna n. 2. des. 1968 til þess að láta í té álit á, hvort æskilegt sé, að heyrnleysingja kennsla færi fram í sérskóla, Heyrnleysingjaskólanum, að öllu leyti eða einungis að einhverju leyti og yfirleitt, hvaða skipulag á heyrnleysingja kennslu virðist heppilegast. Í þessa n. voru skipaðir Brandur Jónsson skólastjóri Heyrnleysingjaskólans, Guðmundur Eyjólfsson háls—, nef— og eyrnalæknir og Benedikt Tómasson skóla yfirlæknir, sem jafnframt var skipaður form. n. N. þessi skilaði áliti til rn. 11. febr. 1969 og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að allir hv. alþm. fengju þetta nál. ásamt fylgigögnum þess. Niðurstaða n. er sú, að sérskólar fyrir heyrnskerta séu nauðsynlegir og ekki komi til mála að hætta við þá nýbyggingu fyrir Heyrnleysingjaskólann, sem áformuð var og ég nefndi hér að framan. Hins vegar telur n. sjálfsagt, að unnið verði ótrauðlega að því, að þau heyrnskert börn, sem virðast hafa möguleika til að njóta kennslu í almennum skólum, fái skilyrði til þess, enda á hið sama við um þessi börn sem önnur fötluð börn, að þau eiga því aðeins að vera í sérskólum, að þroska þeirra sé þar betur borgið. Slík skilyrði, segir n., eru nú betri hér en áður var, vegna starfsemi heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. N. leggur til, að skipuð verði n. með fulltrúum frá heyrnardeildinni, Heyrnleysingjaskólanum og foreldra— og stéttarfélagi heyrnardaufra til að gera till. um, á hvern hátt námi áður nefndra heyrnskertra barna verði bezt fyrir komið í almennum skólum, svo og hvaða skilyrðum verði að fullnægja, svo sem um sérmenntaða kennara, tæki o.fl., til þess að árangur af slíku námi verði sem bezt tryggður. N. sú, sem hér er lagt til, að komið verði á fót, verður skipuð alveg á næstunni.

Draga má saman í örstutt mál svörin við fsp. hv. þm., en þau eru þessi:

Í fyrsta lagi: Á grundvelli álits þeirrar n., sem menntmrn. skipaði 2. des. 1968, munu þær ráðstafanir, sem hún lagði til, verða gerðar.

Í öðru lagi: Að því er varðar byggingu kennsluhúsnæðis fyrir skólann, mun Alþ. fá það mál til meðferðar í sambandi við afgreiðslu næstu fjárl. Er verið að undirbúa tillögugerð um það efni. Í því sambandi ber að minnast þess, að skólinn á talsverðar eignir, bæði hús og lóð. Ennfremur fer nú fram athugun á því, með hverjum hætti aðstaða skólans verði bezt bætt þegar næsta haust, þar eð augljóst er, að ráðstafanir þær, er gerðar voru á s.l. sumri, hafa ekki reynzt nægilegar, þótt þess hafi þá verið vænzt. Það, sem nú er ráðgert í þessum efnum, er að koma upp í sumar kennsluhúsnæði á lóð þeirri, sem skólanum hefur þegar verið úthlutað, en hagnýta núverandi eignarhúsnæði sem heimavist. Síðar er ráðgert að selja þessar eignir og byggja þá einnig heimavist á fyrrnefndri lóð til viðbótar kennsluhúsnæðinu.

Í þriðja lagi: Eins og ég gat um hér að framan, hefur menntmrn. stutt 2 efnilegar ungar kennslukonur til sérnáms erlendis og munu þær báðar ljúka sérnámi sínu í vor. Meðan ekki er komin aðstaða til sérmenntunar heyrnleysingja kennara hér á landi, virðist ekki annað ráð vænna en að styrkja efnilega kennara, sem hafa sýnt áhuga og hæfni til þess að starfa fyrir heyrnarlaus börn, til sérnáms erlendis.

Í fjórða og síðasta lagi: Í lögum nr. 13/1962 um Heyrnleysingjaskóla er gert ráð fyrir því, að skólastjórinn í samráði við foreldra barns eða forráðamenn þess leitist við að útvega barninu vinnu eða koma því til náms við þess hæfi, er það hverfur úr Heyrnleysingjaskólanum og er skólanum heimilt að veita til þess styrk, ef með þarf, og hefur slíkur styrkur verið veittur, þegar eftir því hefur verið leitað. Skólastjórinn hefur iðulega leitazt við að fá nemendur, sem lokið hafa námi í skólanum, til þess að leggja stund á iðngreinar, en því miður án mikils árangurs. Allmargir piltar, sem lokið hafa námi í skólanum, hafa lagt fyrir sig sjómennsku og hefur það lánast vel, þótt þeir séu, eins og við mörg önnur störf, í meiri hættu þar, en heyrandi fólk. Margir piltar úr skólanum stunda verkamannavinnu, en mjög fáir hafa haft áhuga á því að fara í iðnnám, þótt þeim hafi verið gefinn kostur á því og heitið stuðningi í því skyni. Nokkrar stúlkur, sem stundað hafa nám í skólanum, hafa gifzt og eru myndarhúsmæður. Sumar vinna á saumastofum, við bókband og ótal mörg önnur störf.

Með þessu yfirliti, vona ég, herra forseti, að ég hafi svarað fsp. hv. þm.