16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í D-deild Alþingistíðinda. (3917)

280. mál, mál heyrnleysingja

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég minnist þess frá í vetur, þegar ég var staddur á fundi upp í háskóla, sem efnt var til um vandamál geðsjúklinga á Íslandi og haldinn var að frumkvæði nýstofnaðs félagsskapar í landinu, sem nefndist Tenglar, að í ræðu, sem Alfreð Gíslason læknir flutti þá, vakti hann athygli á vissum staðreyndum, sem mér voru ekki áður ljósar, en mér hnykkti við, þegar ég heyrði þær nefndar. Alfreð læknir rakti dæmi þess, hvernig í mörgum tilfellum einstaklingar eða þá félagsstofnanir í landinu, jafnvel stundum erlendar, hefðu átt frumkvæðið að helztu læknisstofnunum okkar Íslendinga, hefðu beitt sér fyrir þeim og lagt fé til þeirra, en hlutur ríkisins hefði þar komið langt á eftir. Ég minnist þessara ummæla nú, þegar verið er að tala um málefni heyrnleysingja, vegna þess að ég er sannfærður um, að í hópi þeirra er að finna þann hluta Íslendinga, sem njóta hvað minnstrar aðhlynningar af hálfu ríkisins og hinnar opinberu heilsugæzlu, sem nokkrir landar okkar njóta. Ég tek því undir það, sem hér hefur komið fram, að brýna nauðsyn ber til þess að bæta þá aðstöðu og ég vil undirstrika, að ég tel, að ríkisvaldinu beri skylda til þess að hafa forustu um að bæta aðstæðurnar þar og taka þennan hluta hinnar almennu heilsugæzlu í landinu alvarlega, eins og nú, sem betur fer, er farið að gera á ýmsum öðrum mikilvægum sviðum.

Það hefur verið talað mikið um Heyrnleysingjaskólann. Sannleikurinn er sá, að heyrnleysingjaskóli er ekki nema einn þáttur og alls ekki stærsti þátturinn, sem er í þeirri heildarkeðju, ef svo mætti orða það, sem á að vera til staðar í öllum þróuðum þjóðfélögum um endurhæfingu og meðferð þeirra landa okkar, þeirra ógæfusömu manna, sem við heyrnarleysi eða aðra fötlun eiga að búa. Ég legg mikla áherzlu á þetta og ég held, að við Íslendingar ættum hvað úr hverju að hafa lært það af mörgum og ítrekuðum mistökum, að við ættum, þegar við förum að byggja upp þennan mikilvæga þátt heilsugæzlunnar í landinu, að byrja á byrjuninni, setjast niður til þess að ákveða, hvaða heildarskipulag beri að viðhafa um endurhæfingu heyrnardaufra í landinu. Við ættum að fá til þess menn, sem hafa vit á, að setjast niður og leggja þessar línur. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því, aðslík rannsókn verður ekki af nokkru viti gerð og engar till. til úrbóta gerðar, sem gagn verður af, nema menn með læknisfræðilega sérmenntun í þessum efnum komi til. Þetta er staðreynd, sem aðrar menntaðar þjóðir hafa fyrir löngu viðurkennt og við verðum líka að viðurkenna. Ég held sem sagt, að byrjunin hjá okkur ætti að vera sú að kjósa n. þar til hæfra manna, sérmenntaðra manna að einhverjum hluta a.m.k., til þess að undirbúa heildarlöggjöf um meðferð og endurhæfingu heyrnleysingja.

Það er staðreynd, að í landinu er ekki starfandi nein heyrnardeild, sem því nafni er nefnd meðal nokkurra annarra menntaðra þjóða, heyrnardeild, þar sem þeir, sem eiga við heyrnleysi að búa af ýmsum ástæðum, geti í gegnum læknisfræðilegar aðgerðir gert sér vonir um að fá bætt úr þessum göllum, sem þeir hafa annað hvort fæðzt með eða fengið vegna einhverra ytri aðstæðna síðar á ævinni. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., þegar hann talar um heyrnardeild í sambandi við Heilsuverndarstöðina í Reykjavík. Ég hygg, að enginn maður, sem þekkingu hefði á þeim hlutum, mundi leyfa sér að nefna þá starfsemi, sem þar fer fram, heyrnardeild, vegna þess að þar er um að ræða fyrst og fremst leitarstöð, sem hefur það að markmiði að reyna að finna þau börn og unglinga, sem þjást af heyrnarleysi. Úr því að á þessa leitarstöð hefur verið minnzt, langar mig til þess að vekja athygli hv. alþm. á því, að hún er að því er ég bezt veit fyrst og fremst orðin að veruleika vegna áhuga og fórnfúss starfs nokkurra einstaklinga í landinu, sem fundið hafa til með þeim börnum, sem þjást af heyrnarleysi og lagt fram óhemju starf, óhemju tíma og oft og tíðum fjármagn úr eigin vasa til þess að koma upp þessari leitarstöð. Þar er ekki hlutur ríkisins stór frekar, en víðar í þessum málum.

Það er þó alger undirstaða undir því að reyna að hjálpa heyrnardaufu fólki til framtíðarþroska, að hægt sé að finna það nógu snemma, eins snemma og mögulegt er og nota síðan þau meðul, sem til staðar eru til að hjálpa því, til þess að það geti náð þroska og gengið út í lífið á sem flestum sviðum sem hæfir menn til þess að gegna hinum ýmsu stöðum í þjóðfélaginu. Ég hef það frá mjög vel þekktum sérfræðingi í heyrnarlækningum, sem hefur starfað um margra áratuga skeið að þessum málum, að hann hafi einungis fundið einn sjúkling, sem hafi verið algerlega heyrnarlaus að mig minnir af 25—30 þús., sem hann hafi skoðað og allir, sem hafi heyrnarleifar, hafi víssa möguleika með hjálp tækja að þroska þær leifar svo mikið, að þeir geti gengið út í störfin í þjóðfélaginu.

Nú segir hæstv. forseti, að tími minn sé búinn og skal ég hlíta þeim úrskurði. Mér gefst væntanlega tækifæri til þess að ræða framhald þessara mála í sambandi við þáltill. hér á eftir. Að síðustu vildi ég aðeins segja það vegna þess, sem hér hefur verið sagt í þessum umr., að það eru uppi eldri og nýrri kenningar um, hvernig bezt megi vinna að endurhæfingu heyrnardaufra og þar sem við hérna á hv. Alþ. höfum séð álit nokkurra þeirra sérfræðinga, sem aðhyllast hinar eldri kenningar í þessum efnum, tel ég, að nauðsynlegt sé líka, að við eigum þess kost að kynnast að nokkru leyti sjónarmiðum hinna yngri lækna, sem boða nýjar aðferðir í þessum efnum og að því er mér sýnist á mörgum sviðum langtum áhrifameiri en þær gömlu geta nokkurn tíma verið. En sem sagt, vegna þess að tími minn er búinn, þá mun ég geyma mér það til umr. um þáltill. um Heyrnleysingjaskólann.