16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í D-deild Alþingistíðinda. (3920)

280. mál, mál heyrnleysingja

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli, sem hér voru sögð áðan, að hér sé um eitt af brýnustu verkefnum í skóla— og uppeldismálum okkar að ræða. Og eins og l. flm. þeirrar till., sem hér er rætt um, þá sannfærðist ég um þetta, þegar ég heimsótti þennan skóla ásamt menntmn. Nd. fyrir nokkrum árum. Ég vil aðeins vona að deilur milli þeirra, sem fylgja eldri skoðunum og hinna sem fylgja þeim nýrri um lausn þessu máli, verði ekki til þess að tefja það. Eftir því, sem ég hef komizt næst með því að lesa ýmislegt um þessi mál, þá virðist mér, eins og síðustu tveimur ræðumönnum, að það sé alveg útilokað fyrir okkur Íslendinga að leysa þessi mál án þess að hafa sérskóla til og án þess að hafa góða heimavist við þann skóla, vegna þess að það verður að vera skóli fyrir allt landið. Hins vegar viðurkenni ég, að það er mjög nauðsynlegt fyrir fatlaða, hvernig sem sú fötlun er, að fá að vera sem mest innan um heilbrigða. Þess vegna hefur mér dottið í hug, hvort það sé ekki hægt að ganga mjög til móts við hin nýrri sjónarmið með því að reisa hinn nýja Heyrnleysingjaskóla við hliðina á t.d. stórum barnaskóla í Reykjavík. Og þá mætti vera mikill samgangur og samstarf á milli skólanna. Við getum ekki haft sérþjálfaða kennara í barnaskólunum um allt land, en við gætum haft þá í einum stórum barnaskóla í Reykjavík. Með þessu móti mætti veita börnunum sérþjálfun og sérkennslu í Heyrnleysingjaskólanum, þegar þau þurfa, en jafnóðum og þau hefðu möguleika á því að samlagast í venjulegum skólabekkjum eða jafnvel í litlum deildum inni í venjulegum skóla, þá mundi það verða hægt án mjög mikillar fyrirhafnar, og börnin mundu því njóta þess að vera eins mikið og framast er mögulegt innan um heilbrigð börn, leika sér með þeim og jafnvel læra með þeim eins og hægt er. Við erum ekki búnir að ákveða að hefja framkvæmdir við nýja Heyrnleysingjaskólann, og ég vil aðeins varpa fram þessari hugmynd til athugunar, áður en staðsetningin er endanlega ákveðin og fara fram á, að menn íhugi, hvort ekki sé hægt að njóta kostanna bæði af hinum eldri kenningum og hinum nýju með því að fara þannig að.