16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í D-deild Alþingistíðinda. (3922)

280. mál, mál heyrnleysingja

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég tók eftir því, að í fyrri ræðu hv. 2. þm. Reykv., Auðar Auðuns, þá sagði hún, að hún væri þeirrar skoðunar, að það eigi að vista heyrnarlaus börn og þau geti vistazt í hinu almenna skólakerfi. (Gripið fram í.) Ekki heyrði ég nú þá viðbót, en ég skrifaði þetta niður eftir hv. þm. undir eins og orðin voru töluð og má það vera meiri misgáningurinn hjá mér, ef ég hef afbakað þau. Börnin eigi að vistast og geti vistazt í hinu almenna skólakerfi. Það er alveg áreiðanlegt og er áreiðanlega ekki umdeilt, að þau sem hafa verulegar heyrnarleifar, hálfa heyrn eða meir, hafa af því not og þeim er á því nauðsyn að vera í talandi umhverfi, en það kemur skýrt fram í nál. sérfræðinganna íslenzku, að þegar ekki finnst neisti af heyrnarhæfileika hjá barninu, hefur það engin not af hinu talandi umhverfi og þá fyllist það minnimáttarkennd innan um slíkt talandi umhverfi og þá er víða böl. Að minnsta kosti þykist ég skilja, sem hef verið kennari upp undir 20 ár og ég hef kynnzt heyrnardaufum börnum og veit, hversu vanmáttugur hinn almenni skóli er til að mæta þeirra þörf og nauðsyn. Það er meira að segja svo, að sjálfur Ole Bentsen, sá sérfræðingur, sem menn hafa eftir þá kenningu, að enga sérskóla eigi að hafa fyrir heyrnarlaus börn, að þegar hann í öðru blaðaviðtali er spurður á þennan hátt: „Þér viljið leggja niður alla sérskóla og stofnanir fyrir vanheil börn.“ Þá vefst honum tunga um tönn, og hann segir: „Ja, ég vil að minnsta kosti ekki, að þau séu gerð útlæg úr þjóðfélaginu.“ Það var nokkuð að svara út úr fannst mér. Svo hann er nú ekki alveg harður á sinni kenningu, sem hann hefur látið hafa eftir sér annars staðar, að það eigi að hafa þau alveg innan um talandi börn. En í talandi umhverfi þurfa þau börn að vera, sem hafa hálfa heyrn eða meira. Það er líka rauður þráður í gegnum sænska skólakerfið að því er þetta varðar, en sérskóla fyrir hin, sem verða að hafa algerlega sérfræðilega kennslu, heyrnartæki af öllum tegundum og læknislega meðferð og talæfingar sérfróðra manna. Slíkt geta barnaskólarnir ekki annazt almennt. Þess vegna er um það tómt mál að tala. Það á ekki við að segja, að heyrnarlaus börn skuli vera og eigi að vera í talandi umhverfi og í hinum almennu skólum. Það er ekki fortakslaust rétt og það er alger villu kenning, að öll heyrnarlaus börn eigi að vera í almennum barnaskólum, það væri þeim áreiðanlega misþyrming.