16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í D-deild Alþingistíðinda. (3927)

282. mál, málefni iðnnema

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Ég hef leyft mér að beina til hæstv. menntmrh. svo hljóðandi fsp.:

„Hvaða ráðstafanir hyggst menntmrh. gera til þess að koma í veg fyrir, að námssamningar séu brotnir á iðnnemum með því að halda þeim atvinnu— og kauplausum langtímum saman?“

Ástæðan til þess, að ég hef borið fram þessa fsp., er sú, að veturinn 1967—68 og í miklu ríkari mæli nú í vetur kom í ljós mjög alvarlegt atvinnuleysi meðal iðnnema. Í skráningu, sem Iðnnemasamband Íslands beitti sér fyrir í vetur og engan veginn var tæmandi, reyndust um 30 iðnnemar vera atvinnulausir og kauplausir og þeir áttu þess engan kost að fá bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði. Margir þessara iðnnema eru kvæntir og höfðu börn á framfæri, — einn þeirra 6 börn, - en alls náði þetta skráða atvinnuleysi iðnnema til 60—70 manns, ef fjölskyldur þeirra eru meðtaldar. Þessir atvinnulausu iðnnemar og fjölskyldur þeirra áttu eins og ég sagði áðan ekki kost á neinum atvinnuleysistryggingabótum, vegna þess að lögum samkvæmt á slíkt ástand ekki að geta komið upp.

Samkvæmt námssamningi eiga iðnnemar að stunda verklegt og bóklegt nám samningstímabilið og fá samfelld laun fyrir hjá fyrirtæki eða meistara. Trygging fyrir því, að við þetta kerfi sé staðið, á að vera í iðnfræðslulögum, sem samþ. voru á Alþ. 30. apríl 1966. En æðstu aðilar, sem eiga að annast framkvæmd þeirra laga, eru iðnfræðsluráð og að sjálfsögðu hæstv. menntmrh.

Þegar ég vissi seinast til, voru margir þessara iðnnema atvinnulausir enn þá og höfðu sumir verið það í marga mánuði. En atvinnuleysi meðal iðnnema og neyðarástand hjá mörgum fjölskyldum þeirra er ekki eina ástæðan til þess, að ég ber fram þessa fsp. Ástæðan er einnig sú, að hæstv. menntmrh. hefur verið spurður um þessi mál áður, en ekki fengizt til að svara. Stjórn Iðnnemasambands Íslands sendi hæstv. menntmrh. tvívegis bréf í vetur og átti auk þess símtöl við menntmrn. Ég hef m.a. hér í höndum afrit af bréfi, sem hæstv. menntmrh. var sent 7. febr. í vetur, en þar var komizt svo að orði:

„Iðnnemasamband Íslands hefur undanfarna tvo þriðjudaga og fimmtudaga haft skrifstofu sína opna til atvinnuleysisskráningar iðnnema, samtals 4 klukkustundir. Á þessum fjórum stundum hefur látið skrá sig atvinnu— og kauplausan 21 iðnnemi og vitað er með vissu um talsvert fleiri. Þar sem þessir nemar eru kauplausir, eins og fyrr er sagt, er hér um að ræða skýlaust brot á námssamningi þeim, sem gerður er við upphaf iðnnáms, á milli nema og meistara eða fyrirtækis, en samkvæmt samningnum á nemi að stunda verklegt og bóklegt nám samningstímabilið og fá laun fyrir hjá fyrirtæki eða meistara. Stjórn Iðnnemasambands Íslands leyfir sér því vegna vandræðaástands þess, sem hér er að skapast, að fara fram á viðræðufund með yður um hugsanlegar leiðir til úrbóta fyrir þessa menn, sem margir hverjir eru fjölskyldumenn og fá ekki atvinnuleysisbætur, þar sem þeir eru ekki í verkalýðsfélagi innan A.S.Í“

En þessar tilraunir Iðnnemasambandsins til þess að leysa málin með beinu sambandi við hæstv. ráðh. báru engan árangur. Bréfunum var ekki svarað, símtölin leiddu ekki til neins. Hæstv. menntmrh. hafði ekki tíma til að sinna iðnnemum. Það er þess vegna, sem ég hef flutt þessa fsp. hér. Þegar fsp. hefur verið samþ. af meiri hl. Alþ., er ráðh. skylt að svara henni.

Enda þótt dæmið, sem ég hef rakið, sé mjög alvarlegt og raunar gersamlega ósæmilegt, eru iðnnemar óánægðir með margt fleira í sambandi við nám sitt og starf. Það kemur m.a. fram í ályktun, sem allur þorri nemenda Iðnskóla Reykjavíkur hefur undirritað síðustu daga. Sú fyrri fjallar um iðnfræðslumál og iðnfræðslulöggjöfina og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Nemendur Iðnskólans álykta eftirfarandi um iðnfræðslulöggjöfina:

1. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að komið verði á raunhæfu kennslueftirliti og mótmæla harðlega því ástandi sem nú ríkir í þessum efnum. Samkv. gildandi lögum um iðnfræðslu skal iðnfræðsluráð fara með framkvæmd þessara mála undir yfirstjórn menntmrh. Benda má í þessu sambandi á 31. gr. iðnfræðslulaganna, en þar segir:

„Iðnfulltrúar skulu hafa eftirlit með kennslunni, koma á vinnustöðvar, er nemendur eru að verki, skoða vinnuskýrslur a.m.k. einu sinni árlega og árita þær þar um.“

Þetta brýna ákvæði laganna um verksvið iðnfulltrúanna hefur ætíð verið sniðgengið af iðnfræðsluyfirvöldunum, þrátt fyrir að vitað sé, að meistarar og iðnfyrirtæki vanrækja í mörgum tilfellum að veita nemendum sínum þá kennslu og þjálfun, sem lögin ákveða.

2. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að iðnfræðsluráð haldi uppi leiðbeiningastarfi um starfsval og fylgist með atvinnuhorfum innan einstakra starfsgreina. Í raun og veru ber iðnfræðsluráði skylda til þess að gera þetta, því að í 10. gr. iðnfræðslulaganna segir:

„Iðnfræðsluráð skal halda uppi leiðbeiningarstarfi um starfsval innan þess sviðs, sem fellur undir ákvæði þessara laga. Iðnfræðsluráð skal í því skyni fylgjast með afkomu— og atvinnuhorfum innan einstakra starfsgreina. Það skal árlega leita þar um álits hlutaðeigandi félagasamtaka.“

3. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að þegar í stað verði komið í veg fyrir atvinnuleysi iðnnema og að menntmrh. láti þetta mál til sín taka, eins og honum ber skylda til. Atvinnuleysi meðal iðnnema er staðreynd, sem iðnfræðsluyfirvöld geta ekki gengið framhjá. Kom það m.a. vel fram í atvinnuleysisskráningu Iðnnemasambands Íslands, en þar létu um það bil 30 iðnnemar skrá sig í vetur og vitað var um marga aðra, sem voru atvinnulausir. Um það bil helmingur hinna skráðu atvinnuleysingja eru fjölskyldumenn og eiga því í stórkostlegum fjárhagserfiðleikum og eins víst, að margir þeirra verði að hætta iðnnámi. Þorri þessara atvinnulausu iðnnema er enn atvinnulaus og hafa því margir þeirra verið atvinnulausir frá því snemma í haust. Það er álit nemenda Iðnskólans, að iðnfræðsluyfirvöld hafi algerlega brugðizt iðnnemum í þessu máli og ástandið væri mun skárra, ef iðnfræðsluráð hefði starfað eftir 10. gr. iðnfræðslulaga, sem að ofan getur.

Síðari ályktun nemendanna fjallar um aðbúnað Iðnskólans og er svo hljóðandi:

„l. Nemendur Iðnskólans mótmæla harðlega þeim seinagangi, sem verið hefur á byggingu viðbyggingar Iðnskólans í Reykjavík og krefjast þess, að þegar í stað verði auknar fjárveitingar til hans, því að gamla húsnæðið rúmi alls ekki þá verknámskennslu, sem ráð sé fyrir gert.

2. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að auknar verði fjárveitingar til tækjakaupa Iðnskólans, en mikill skortur er á nauðsynlegum tækjum, enda segir í 13. gr. iðnfræðslulaganna, að skólarnir eigi að leggja áherzlu á, að nemendurnir öðlist staðgóða þekkingu á vélum og verkfærum.

3. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að menntmrh. láti fastráða kennaralið Iðnskólans. Nú í dag er aðeins tæpur helmingur kennaraliðs skólans fastráðinn og veldur þetta mjög miklum erfiðleikum. Fjölmargir kennarar eru starfandi úti í atvinnulífinu og þeirra aðalstarf stangast því oft á við kennslu þeirra í skólanum og orsakar þetta mikla niðurfellingu kennslustunda. Það er einróma álit nemenda skólans, að meðan ástandið er óbreytt, sé ógerningur fyrir skólayfirvöldin að skipuleggja kennsluna og samræma námsskrá töflu, svo að vel sé.

4. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að forfallakennarar verði nú þegar fengnir við skólann. Að lokum vilja iðnskólanemendur lýsa því yfir, að það skipulagsleysi og sú handahófskennd, sem ríkt hefur á stjórn iðnfræðslumálanna og málefnum iðnskólanna stafi af slælegri yfirstjórn þeirra æðstu yfirvalda og rn., sem þetta mál heyrir undir, enda sé ekki að vænta neinna raunhæfra endurbóta, nema aukinn skilningur verði fyrir hendi hjá yfirstjórn iðnfræðslumálanna. Nemendur Iðnskólans krefjast þess, að menntmrh. láti þessi mál þegar til sín taka, sem honum ber skylda til, og munu þeir fylgjast vel með, hverju fram vindur.“

Ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. víki einnig að þessum atriðum í svari sínu. Hann hefur að þessu sinni mun betri áheyrendur en endranær, vegna þess að iðnnemar í Reykjavík hafa komið úr skóla sínum til að fylgjast með svörum hæstv. ráðh.