16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í D-deild Alþingistíðinda. (3931)

282. mál, málefni iðnnema

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilu þeirra hv. 6. þm. Reykv. og menntmrh., enda er nú hæstv. menntmrh. búinn að svara því, að hann ætli að taka þetta mál til sérstakrar meðferðar, sem hann raunar átti að gera strax 6. febr. í ár, þegar honum barst bréf iðnnemanna. Í því felst að sjálfsögðu, þegar hann viðurkennir nú, að hann eigi að taka þetta mál til rannsóknar og muni gera það, að hann hafi a.m.k. vanrækt það í þá tvo mánuði, sem eru liðnir síðan honum barst þetta bréf.

En ég ætla í sambandi við þessar umr. að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvernig sé háttað eftirliti ríkisstj. með störfum iðnfræðsluráðs. Eins og þm. er kunnugt, á iðnfræðsluráð að gegna mjög mikilvægu hlutverki í sambandi við iðnfræðsluna.

Í fyrsta lagi á iðnfræðsluráð að hafa eftirlit með kennslu iðnskólanna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það hafi verið miklir misbrestir á því, að haldið hafi verið uppi sæmilegri kennslu, a.m.k. í ýmsum deildum Iðnskóla Reykjavíkur á þessum vetri og það er ekki kunnugt um það, að iðnfræðsluráð hafi haft nokkur afskipti af því máli, þó að það sé að sjálfsögðu skylda þess að gera það.

Það á einnig að vera verkefni iðnfræðsluráðs að fylgjast með framkvæmd námssamninga. Það er upplýst hér, sem ekki hefur verið mótmælt, að á þessum vetri hafa námssamningar hvergi nærri verið fullkomlega haldnir þar sem verulegt atvinnuleysi hefur átt sér stað hjá iðnnemum, — og það samrýmist alls ekki námssamningum. Ég held að iðnfræðsluráð hafi haft ákaflega lítil afskipti af þessu máli. Þvert á móti er það upplýst í því blaði, sem lagt var á borðið hjá hv. þm. hér í dag, að formaður iðnfræðsluráðs hefði látið þau orð falla á s.l. vetri, — nú fyrir nokkru síðan, — að það væri lítið að marka atvinnuleysisskráningu og það væri ekkert atvinnuleysi hjá iðnnemum, þrátt fyrir þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram.

Ég vil í tilefni af þessu beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh. hvernig háttað sé eftirliti hans og menntmrn. með störfum iðnfræðsluráðs. Mér sýnist af þessu tvennu, sem ég hef nefnt, að það sé mjög pottur brotinn í störfum iðnfræðsluráðsins, þrátt fyrir að Alþ. sjái því fyrir nægilegu starfsfé, en á fjárl. þessa árs er veitt til iðnfræðsluráðs rúmlega 11/2 millj. kr. Ég held, að það, hvernig iðnfræðsluráð sinnir þessum málum, liggi að einhverju leyti í því, hvernig ráðið er upp byggt, en það er þannig skipað nú, að atvinnurekendur nefna 3 menn í ráðið, sveinafélögin í gegnum Alþýðusambandið tilnefna 3 menn, en iðnnemar ekki nema einn. Þessi skipan ráðsins er ekki réttmæt, því að sá aðilinn, sem hefur tvímælalaust langsamlega mestra hagsmuna að gæta, iðnnemarnir, hefur miklu lakari og minni þátttöku í ráðinu en hinir aðilarnir, eins og t.d. atvinnurekendur. Úr þessu ætti að bæta með því að láta iðnnema hafa ekki minni þátttökurétt í iðnfræðsluráðinu, en t.d. atvinnurekendur hafa, þ.e.a.s. almennt.

Eins og hér hefur komið fram í þessum umr., er venjulega slæm aðstaða fyrir iðnnema, ef réttur hans er að einhverju leyti brotinn í samningum við iðnrekanda eða meistara, að snúa sér til dómstólanna. Eðlilega leiðin er sú, að hann snúi sér til iðnfræðsluráðs, og þá skiptir miklu máli, að staða iðnnema í iðnfræðsluráði sé þannig, að þeir hafi aðstöðu til þess að koma sínum málum fram á þeim vettvangi. Þess vegna álít ég, að það sé nauðsynlegt að breyta iðnfræðslulögunum m.a. á þann hátt, að réttur iðnnema sé mun betur tryggður í skipun iðnfræðsluráðs, en nú á sér stað.

Ég skal ekki segja mörg orð enn í sambandi við það, sem hæstv. menntmrh. sagði um nýju iðnfræðslulögin. Þau lög voru tvímælalaust stórt spor í rétta átt, þegar þau voru sett. En þegar frv. til þeirra laga var til 1. umr. hér í Nd., var deila um visst atriði milli mín og hæstv. ráðh. Ég hélt því fram, að þó að gott væri út af fyrir sig að samþykkja lög eins og þessi, þá skipti þó mestu máli, að það væri séð fyrir nægum fjárveitingum, til þess að lögin kæmu til fullra framkvæmda, og þess vegna ætti að hafa þann hátt á að taka beint fram í lögunum, hve mikil fjárveiting væri veitt til þess að koma þeim í framkvæmd. Það væri ákveðin fjárhæð ákveðin á ári hverju, til þess að þetta mætti gerast. Og í þeim efnum yrði m.a. byggt á þeirri áætlun, sem fylgt er í frv. frá þeirri n., sem þau höfðu undirbúið, en hún var á þá leið, að á árinu 1970 yrði þessum málum komið í það horf, að a.m.k. 500 nemendur ættu kost á hinu svokallaða forskólanámi eða verkstæðisnámi á ári hverju. Hæstv. ráðh. taldi þess ekki þörf, að slík ákvæði yrðu sett í lögin og hans vilji varð að sjálfsögðu ofan á. En niðurstaðan er sú, að þessi lög eru líka enn að mestu leyti dauður bókstafur, þrátt fyrir að hæstv. ráðh. væri að tala um byltingu í því sambandi.

Ég held, að þetta m.a. sýni, að það sé orðin þörf á því að endurskoða iðnfræðslulöggjöfina að nýju, þó að stutt sé síðan hún var sett, m.a. með því að tryggja ákveðna áætlun um það, hvernig henni skuli komið í framkvæmd. Einnig hafa síðan komið til sögunnar ýmis atriði, sem þarfnast endurskoðunar.

Það er með þessi mál, að það þarf að gera svo þrálátar og stöðugar breytingar á þeim, eiginlega á hverjum degi, að slíka löggjöf þarf alltaf að vera að endurskoða og í sambandi við þá endurskoðun á að taka til athugunar, að iðnnemar fái sterkari þátttöku í iðnfræðsluráði, en þeir hafa nú. Mér finnst, að við slíka endurskoðun ætti einnig að láta koma til framkvæmda það, sem iðnnemar fóru fram á, þegar iðnfræðslulögin voru sett, en fékkst þá ekki framgengt, en það var, að samtök þeirra fengju umsagnarrétt um allar reglugerðir, sem settar væru á grundvelli laganna, en þær eru fjöldamargar, vegna þess að lögin eru ekki nema rammi, en það eru reglugerðirnar, sem mestu skipta. Þess vegna er eðlilegt, að samtök iðnnema, sem margar þessar reglugerðir varða svo mikið, fái rétt til umsagnar um þessar reglugerðir, áður en endanlega er frá þeim gengið.

Vegna þess, hvað tíminn er naumur, skal ég ekki tefja þetta mál meira, en vil að lokum endurtaka fsp. mína til menntmrh. um það, hvernig sé háttað eftirliti hans og menntmrn. með störfum iðnfræðsluráðs.