16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í D-deild Alþingistíðinda. (3932)

282. mál, málefni iðnnema

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þarf ekki nema örfá orð til að svara þessari fsp. hv. þm. Iðnfræðsluráð starfar samkv. lögum og reglugerðum og eitt af verkefnum þess er að hafa eftirlit með framkvæmd iðnfræðslunnar og ég vænti þess, að iðnfræðsluráð sinni því verkefni. En annars skal ég gjarnan láta þess getið í lok þessarar umr. vegna þess að annar postuli stjórnarandstöðunnar þurfti endilega að láta ljós sitt skína í þessu til þess að fá af því blaðafrásagnir á morgun, að Framsfl. hafi líka áhuga á málefnum iðnnema, ekki bara Alþb., — að þá er rétt að láta þess getið, að viðræður iðnnema við mig nú rétt áðan báru einn tiltekinn og alveg jákvæðan árangur, sem er nokkuð skyldur því efni, sem hv. þm. vék að. Ég ætla mér annars alls ekki að fara að gera hér að umtalsefni viðræður iðnnema við mig. Ég tel það vera mál milli nemenda, sem mér hefur verið falin forsjá fyrir, annars vegar og mín sem forstöðumanns menntmrn. hins vegar og hefði satt að segja kosið, að hægt hefði verið að halda þeim skiptum algerlega utan við þetta venjulega, pólitíska karp hér, sem setur allt of mikinn svip sinn á störf Alþ., jafnvel á þeim stórkostlega alvarlegu tímum, sem hér eiga sér stað. En það getur gerzt, að einn daginn leikur stjórnarandstaðan sér að því að gera höfuðnúmer úr því, hvar ákveðinn prófessor í ættfræði skuli sitja innan háskólans, hvort hann skuli sitja í heimspekideild eða hvort hann skuli sitja í lagadeild. Þetta mál gerir stjórnarandstaðan að stórmáli heilan eftirmiðdag og nú leikur stjórnarandstaðan hreinan skrípaleik til þess að sýna fram á áhuga sinn á málefnum iðnnema og stjórnarandstaðan beinlínis setur það á senu. Í stað þess, að iðnnemar að eigin frumkvæði komi til mín í viðtalstíma, sem ég hef 3–4 klukkutíma í hverri einustu viku svo að segja allt árið um kring, — í stað þess, að þeir komi áhugamálum sínum á framfæri með þeim hætti, þá gerist það, að sett er á svið hér á hinu háa Alþ. stórkostleg leiksýning með myndatökum og án efa með stórkostlegum fregnum í blöðunum á morgun. Þetta sýnir auðvitað, hvers eðlis allt þetta skoðunarspil í raun og veru er og það er ekki áhugi á málefnum iðnnemanna, heldur er það vilji til þess að leika forsvarsmenn þeirra og hér er um að ræða leik, en ekki neina alvöru. Það leyfi ég mér að staðhæfa. Og þeir iðnnemar, sem tekið hafa þátt í þessari leiksýningu sem aðstoðarmenn, hafa án efa gert það eftir beiðni þessara flokksforingja stjórnarandstöðunnar. Ef fyrir þessum sömu mönnum hefði vakað að kynna menntmrh. og menntmrn. raunverulega skoðanir sínar í þessum efnum, þá hefði ég verið til ráðstöfunar í því skyni, eins og ég segi, 3–4 tíma á viku allar undanfarnar vikur. Það tilefni var ekki notað. Hins vegar hafa sjálfskipaðir forsvarsmenn iðnnemanna, forustumenn Alþb. og Framsfl., valið þann kostinn að setja á svið þessa leiksýningu innan þingsins og utan. Ef þeir hafa gaman af slíku, þá verði þeim að góðu. Það er svo fjarri því, að ég fyrtist við slíkt. Þvert á móti, mér er ánægja að því að eiga minn þátt í þessari leiksýningu.

Að síðustu vil ég segja, í tilefni af fsp. hv. þm., að bein viðtöl eru árangursríkari en leiksýningar eins og þessar, sem ég satt að segja tek ekkert mark á. Bein viðtöl eru árangursríkari. Viðræður fjögurra fulltrúa iðnnemanna við mig áðan leiddu til einnar niðurstöðu alveg sérstaklega fyrir utan það, að ég hét þeim að sjálfsögðu að ég skyldi kanna þá lista um atvinnuleysisskráningu iðnnema, sem legið hafa fyrir, þegar þeir bera fram sérstaka ósk um það. En okkur kom saman um, að ég skyldi gera það í samráði við iðnnemasamtökin og engan annan, til þess að ekki hljótist neitt illt af. En sá jákvæði árangur, sem af samtali okkar fjögurra fulltrúa iðnnemanna nú fyrir 11/2 stundu varð, er sá, að ég hef ákveðið að fela 5 mönnum, þ.e.a.s. tveim fulltrúum tilnefndum af iðnfræðsluráði og tveim fulltrúum tilnefndum af iðnnemum og 1 fulltrúa frá menntmrn. að gera till. um það, með hverjum hætti sé unnt að auka eftirlit á vinnustað með því, að námssamningi sé framfylgt. Ég hef alltaf gert mér ljóst að þessu kerfi, að mennta nemendur á vinnustað, fylgja miklir annmarkar og það er mjög erfitt að framkvæma slíkt kerfi, þannig að vel sé. Það er miklum erfiðleikum bundið. Einmitt viðurkenning á þeirri staðreynd lá að baki þeirri hugmynd að hafa hin nýju iðnfræðslul. þannig, að smám saman skyldi menntun iðnnemanna flytjast af verkstæðunum og inn í verkstæðisskólann. Sú breyting er viðurkennd af hinu háa Alþ. og þá breytingu er nú verið að framkvæma. En meðan einhver hluti eða verulegur hluti menntunarinnar fer fram á vinnustað, þá er um mikil vandkvæði að ræða í þessum efnum og ég játa það fúslega, að mér hefur alltaf verið það ljóst og er það jafnljóst enn í dag, að eflaust er í mörgum tilfellum mjög mikill misbrestur á því, að meistarar gegni að fullu skyldu sinni í þessum efnum. Það er áreiðanlega mikill misbrestur á því. Hins vegar verða allir sanngjarnir menn að játa og um það vorum við, sem töluðum saman algerlega sammála, að það er vandi að koma þess konar eftirliti fyrir, sem tryggi hag nemendanna að fullu, án þess að hér verði beinlínis um lögreglueftirlit að ræða, án þess að beinlínis sé til þess ætlazt, að lögregla sé á vinnustaðnum til þess að passa upp á, að allt fari fram nákvæmlega eins og vera ber. Hérna þarf að sigla á milli skers og báru og það er sameiginlegt hagsmunamál iðnnemanna og meistaranna að geta hér siglt á milli skers og báru og farið skynsamlega að.

Ég spurði fulltrúa nemendanna: Hafið þið þegar ákveðnar hugmyndir í þessum efnum? Eru í till., sem þið voruð að afhenda mér, ákveðnar ábendingar í þessum efnum? Þeir svöruðu: Nei. Ég hef lesið till. meðan ég hef verið að hlusta á umr. Þar eru engar ábendingar um þetta. Þetta sýnir auðvitað, um hversu mikinn vanda hér er að ræða. Jafnvel iðnnemarnir í dag hafa ekki neinar ákveðnar till, að gera í þessum efnum, af því að þeim er jafnljóst og mér, meisturunum og iðnfræðsluráði, að hér er um mikinn vanda að ræða. Þess vegna stakk ég upp á því, af því að ég viðurkenni nauðsynina á bættu eftirliti, frá því sem verið hefur, þó að mér séu ljósir erfiðleikarnir á því, — þess vegna stakk ég upp á því, hvort við ættum ekki að fá færa menn til að setjast niður saman, fulltrúa frá iðnnemunum, fulltrúa frá iðnfræðsluráði og ég skyldi láta í té formann, vel menntaðan og kunnan mann frá menntmrn., til þess að vita, hvort væri hægt að finna upp eitthvert kerfi, eitthvert skipulag, einhverja aðferð til bætts eftirlits, frá því sem nú er og ég lýsti því yfir þá og skal að gefnu tilefni gera það núna, að ég er reiðubúinn til þess að setja reglur, sem fylgi bætt fyrirkomulag í þessum efnum, en vel að merkja, ef ég fæ ákveðnar till. um það og því aðeins, að ég fái ákveðnar till. um það. Ég get búizt við því af stjórnarandstöðunni, að þó ég fái engar till. sé ég skammaður fyrir að setja ekki reglurnar. Það er ekki annað en það, sem við, sem gegnum ráðherrastörfum, eigum að venjast og fyrir því hef ég orðið í þessu efni að því er snertir atvinnuleysismálin. En ég tek því alveg rólega. Það skiptir mig engu máli. Hitt skiptir mig miklu, miklu meira máli, ef þessi hugmynd, sem fæddist í samræðum við nemendurna, en ekki í orðaskiptum við málsvara stjórnarandstöðunnar, gæti leitt til einhvers góðs í þessum efnum. Árangurinn er allt fyrir mér, en sýndarmennskan algert aukaatriði.